28.5.09

Er tölvan bylting eða hluti byltingar?

Það er svolítið 2007 hvernig sumir telja tölvuna hafa breytt heiminum. Vissulega breytir hún t.d. samskiptum og mörgu öðru en hún er samt fyrst og síðast tæki sem við notum við þau verk sem við vinnum. Hún er t.d. tæplega tækið sem breytti heiminum á sama hátt og eldurinn, hjólið, gufuvélin. Tölvan hjálpar okkur sem búum í betur megandi hluta heimsins en óbeint öðrum. Mörg lönd heimsins eru jafn illa sett í sjálfu sér. Meðalaldur lágur, lífslíkur stuttar, menntun léleg, læsi lítið og lítil von til þess að tæki knúið rafmagni geti miklu breytt.
Árið 2007 töldust íbúar jarðar sex og hálfur milljarður. Í þróaðasta hluta heimsins búa 1,2 milljarðar en í minna þróaðri hlutanum 5,5 og í þeim minnst þróaða tæpur milljarður. Í best megandi hlutanum hefur íbúatalan farið úr 800 milljónum í 1,2 milljarða frá 1950 en í þeim fátækasta úr 200 milljónum í tæpan milljarð á sama tíma. Hlutfallið í betur setta hlutanum hefur farið úr 32% í 18% en lakast setta hlutanum úr 8% í 12%. Þetta sama gildir um fjölmargt annað. Velferð okkar eykst og magnast en hjá sumum þjóðum batnar hún hægt. Mörg samfélög búa við illvíg stríð, léleg félagsleg kerfi og litla heilbrigðisþjónustu. Þá eru fjölskyldur í molum vegna sjúkdóma og styrjalda. Þessu og flestu öðru sem vitnað er í má fletta upp á vef SÞ (un.org).
Að vísu munu gsm símar breiðast um heiminn. Skv. google síðu sem ég fann breiðast þeir um Afríku og talið að tveir þriðju hlutar mannkyns hafi aðgang að þeim. Það breytir þó ekki heiminum.
Menn hafa mært tölvuna og þeir væla yfir tölvum, interneti, bloggi, einelti og mörgu öðru. Þeir gleyma því að tölvan er tæki. Rétt eins og við (á Íslandi) reiknum ekki með að næsti maður sveifli byssu frjálslega þá þurfum við að búa til reglur og siðsemi umhverfis þetta tæki. Og nota það til gagns.
Ég hef setið fundi m.a. með kennurum sem vildu banna tölvur í kennslustofum af því nemendur voru að gera annað en læra. Ég spurði ekki en datt í hug að spyrja hvort sama staða hefði getað komið upp þegar blýantseign varð almenn - þeir komu í stað griffla. Grifflar voru steinstílar notaðir til að rispa á töflur. Þegar blýantar komu gátu menn t.d. skrifað miða sem gengu um kennslustofuna með jákvæðum og neikvæðum athugasemdum um menn og málefni.

Punkturinn er: Tölvuna á ekki að ofmeta og oflofa. Hún er bara tæki og gerir ekki neitt nema henni sé sagt að gera það.

Annar punktur er: Við stöðvum ekki þróun en við getum notað okkur hana...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli