23.6.09

Árið mitt?

Það er spennandi að hugsa til næsta árs. Í dag sérstaklega. Ég var boðaður af ráðuneytinu á fund um sparnaðaraðgerðir. Þetta verður fjör.
Eftir sat að mér misbýður það misrétti sem skólum er gert að búa við.
Eitt er að þurfa að búa við það að framhaldsskólakerfið er að verða þrískipt hvað innritun varðar. Ein grúppan eru þessir forréttindaskólar sem fá að velja sér nemendur og allir virðast sáttir við að það sé rétt. Þeir verða einsleitnir og þröngsýnir og fá að hrekja frá sér þá sem ekki standast þeirra mál.
Önnur grúppan eru þeir sem taka þá sem ekki komast þar inn (ásamt þeim sem til þeirra sækja) og verða fyrir því að upp á þá er þrýst þeim sem hvergi fara.
Þriðja grúppan eru þeir sem taka eldri nemendur.
Þessi aðskilnaður er skólalega slæmur því það er lítil breidd í þjónustu fyrsta hópsins. Hún fer öll á hina skólana.
Annað misrétti er að skólarnir sem ég setti hér í annan flokk - en tel fyrsta flokks - eru að hamast við að búa til þjónustu fyrir nemendur í heimahverfum sínum, byggja upp fljótandi skil skólastiga og allt það en verða að súpa seyðið af vanvirðu elítuskólanna. Þeir verða t.d. að skera niður þjónustu við grunnskóla. Við megum ekki (á árinu 2010) bjóða grunnskólanemendum fjarnám því þeir sem fara í bekkjarskóla taka það aftur þar og þar með er tvígreitt fyrir þá. Ekki hjá skólunum sem bjóða það...
Enn eitt er að vegna þess að heimaskólarnir taka inn breiðan námshóp og sinna honum, hjálpa þeim sem þarf að hjálpa og koma fólki til lokaprófa sem sumir aðrir skólar losa sig við, þá fá þeir stimpilinn að þeir séu lakari skólar. Er ekki eitthvað öfugt við þetta?
Mér finnst kominn tími til að stjórnvöld marki sér vitræna stefnu og horfi heildrænt á þarfir skólakerfisins og nemenda þess.
Á fundi í dag var lagt fyrir okkur að sú krafa væri gerð að SPARA. Skólameistari FÁ benti á að það væri mikilvægt að mennta. Núna mælir fólk á þrítugsaldri göturnar atvinnulaust og skólalaust. Menntunarstig þeirra sem fyrst missa vinnuna er lágt. Gísli spurði hvort það væri ekki einmitt ráð að mennta þetta fólk frekar en vísa því á dyr?
Enn eitt vandamálið sem ég horfist í augu við er firring stjórnsýslunnar. Skólameistari Flensborgarskólans fer með 470 milljónir. 80% þess eru laun (ca.) eða 376 milljónir. Önnur 12-13% eru bundin í samningum sem aðrir gera svo sem húsaleiga, rafmagn og hiti, samningar við SKÝRR o.fl. Það skilur um 7% eftir. Það eru um 33 mio. Ef krafa verður gerð um 3% sparnað þá er þetta liðurinn. Þvottaefni, pappír, ljósaperur, ... Ef skóinn er með halla (ég tek við ca. 20 mio) þá verð ég krafinn skýringa. Ég veit ekki hvort þeir taka gilt við Sölvhól sem skýringu að þeir og fjármálaráðuneytið hafi sent okkur samning sem þeir gerðu um að hækka húsaleiguna hjá okkur um 15 mio.
Mér sýnist kominn tími á að forstöðumenn fái tæki til að stjórna skólunum í alvörunni eða þá að þeir verði ekki skammaðir fyrir annað en þessi 7%.
(Myndin er af Birtu sem býr í næsta húsi)

1 ummæli:

  1. Þrátt fyrir að hafa verið "forréttinda skóla nemi" þá er ég 100% sammála þér. Mér finnst að skólarnir eigi að þjóna öllum, ekki bara sumum.
    Ég veit að þú kemur til með að skila næsta skólaári af þér með miklum sóma, þessa dagana finnst mér einsog að það að fyrirtæki eða skólar, stofnanir osfrv. geti ekki hugsað um eðlilegan rekstur eða það að koma út í plús nema í útópíu. Það er bara eitthvað sem ekki er praktískt akkúrat núna- og ég held að skólar hafi jafnvel aldrei getað það ef litið er til fjárframlaga síðustu ára.

    SvaraEyða