20.6.09

Hvers mál er það?

Nú er sá tími ársins þegar innritun er lokið og út af borðinu standa nokkrir (hlutfallslega) nemendur sem ekki eiga pláss. Þeir eiga rétt á að komast í framhaldsskóla, ef þeir eru yngri en 18 ára, alla vega einhvern framhaldsskóla.
Hér eru tvö mál á ferð. Annars vegar sú staða að þeir sem eru eldri en 18 ára virðast engan rétt hafa. Vegna þessa var hátt í 100 nemendum vísað frá í Flensborgarskóla. Margir þeirra eiga allt gott skilið og vilja læra.
Hins vegar er hópur nýnema sem hvergi komst að. Þeir greinast í nokkra hópa. Einn er svokallaðir slakir eða lítt viljugir nemendur sem enginn vill takast á við. Þá eru nemendur sem eru með arfalélega skólasókn. Loks vil ég nefna nemendurna sem lentu í rúllettunni. Vandi þeirra mun leysast. Síðasta hópsins fyrst en seinast þeirra fyrstnefndu. Fyrsti hópurinn er vandamál kerfisins og mörg sem hann fylla verða í hópi þeirra 100 sem að ofan eru nefndir eftir nokkur ár. Þau fá ekki tækifæri eða stuðning og af því að þau fá ekki að sýna sig vill enginn þau. Heitir það ekki Catch 22 lögmálið?
Ég veit ekki hvort ég hef samúð með seinasta hópnum. Í honum er margur nemandi sem er með góðar einkunnir, eiga hvetjandi fjölskyldur og munu verða flott fólk þegar þau stækka. Þeirra galli var sá að þau vildu komast úr byggðarlaginu (t.d. Hafnarfirði, Kópavogi...) og ég get vel skilið það að fólk vilji fara að fá nýjan félagsskap eftir 10 ár með sama hópnum. Þau voru bara ekki með nógu hátt til að komast í skóla hinna útvöldu.
Við í Flensborgarskóla sögðumst vilja sinna öllum sem settu okkur sem fyrsta val og væru með góða ástundun/skólasókn. Af hverju? Í tölvuvædda innritunarkerfinu verðum við að svara hverja við tökum í fyrsta val á tilteknum degi (í ár var það 15. júní) og senda burt þá sem ekki komast að. Við megum ekki geyma! Ef við fyllum skólann með þeim hópi þá er það bara svo. Ég hef alltaf sagt að við værum skóli fyrir alla og því tökum við inn fyrsta val og erum með nemendur með langt yfir 9 í meðaltali hæst. Þau fara alllangt niður en meðaleinkunn nýnema var um 7,3 í kjarnagreinum einum.
Þegar fólk spyr hvort við tökum ekki líka annað val er svarið að það sé ekki öruggt. Og þriðja eða fjórða verður ekki skoðað.
Það er ekki okkar í Flensborg að svara því hvernig fólk getur valið aðra skóla en átt okkur klára í bakhöndinni. Hins vegar hlýtur fólk að skilja að skólar sem segja frá því í júní á hverju ári að þeir vísi burtu svo og svo mörgum tugum taka ekki inn annað val.
Við erum ekki bara skóli þeirra sem passa í stólana okkar. Við erum skóli fyrir alla - sem velja okkur og alla sem vilja læra. Nemendur skólans míns eru útvalin vegna þess þau komast inn. En þau eru margbrotinn, lifandi hópur og flókið samfélag. Þess vegna er það flott samfélag.
Hvað varðar þessa eldri en 18 þá vaknar sú spurning hvort búið sé að lögskylda skóla til að sinna þeim yngri en loka á þá eldri? Alla vega heimasveitarskóla og þá sem eru með harðasta aðsókn úr 10. bekk. Er þá ekki bara málið að miða útskrift úr bóknámi (stúdentsprófi) við 18 ár?
En hvað ætla stjórnvöld að gera fyrir þennan hóp sem menn láta eins og sé ekki til,- eftir að innritun lýkur?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli