4.10.11

Gagnrýni og skinhelgi


Enn undrast ég hversu mikla þolinmæði fólk sýnir stjórnmálamönnum. Það er kannski réttara að segja að samfélagið hafi farið að ráðum hippanna og „tuned out“ eða slökkt á móttökunni. Það er kannski skýring þess að „þjóðin“ sem mótmælti við þingsetningu taldi um 3.000 manna og kvenna.

Annað sem er spennandi að skoða er hversu mikill einhugur er meðal íslenskra stjórnmálamanna um að endurreisa virðingu Alþingis og traust þjóðarinnar. Til þess eru tafsandi borgarstjóri, forsetahjón með eigin hagsmuni, margklofin ríkisstjórn og þingheimur sem fer í sama gír, rétt eins og bíll fastur í afturábak, þegar bein útsending er frá þinginu.

Heyrði af facebook stöðu sem gekk út á að enn væri verið að senda út gamla hryllingsmynd með sömu lélegu leikurunum en undir nýju nafn. Þetta var stefnuumræðan í gær. Ég ver ekki matarkast – ef fólk á nógan mat þá getur það gefið svöngum að borða. En maður spyr sig.

Og svo misbauð mér algerlega þegar ég heyrði rausið í Birni Val hjá Agli silfurmanni um helgina og svo í Steingrími formanni í gær.

Eins og einn samstarfsmaður minn segir stundum – DDDÍIIIIIssssssssssssssUUUUUUUUUUUssssssssss.

Björn Valur ógurlega ánægður með sig að hafa setið þegar forsetinn gekk í salinn við þingsetningu. Minnir á strák sem var með mér í skóla sem ullaði á fólk þegar það snéri í hann baki. Og svo kom þessi líka ræða. Það má ekki gagnrýna VG því þeir tóku að sér svo flókið verkefni sem var að endurreisa Ísland og uppræta spillinguna.

Honum var bent á að afsláttarkjörin sem bankarnir fengu (nýju) á lánum, það hvernig lífeyrissjóðir fórna hagsmunum félagsmanna sinna fyrir ávöxtunarkröfur og margt fleira. Sama hvert litið er – tónn „þegnanna“ er – þið eruð ekki að hugsa um okkur!

VG er reyndar ótrúlegt afl. Ég trúði smátíma að það skipti máli. Það er líklega fjórða alvarlega tilraunin til að sameina vinstri menn (1930, 1938, 1956 og loks 1999) og út klufu sig óánægjumenn og allaballaframsóknarmenn sem héldu nú uppi jafnréttisskiltum (sjá ráðherrahópinn), umhverfisskiltum og meintri hugmyndafræði um norræna velferð.

Frá 1999 til 2009 var gagnrýnt og skammast. Það mátti ekki setja Árna Matt í að koma syni Davíðs í vinnu (sjá Jón Bjarnason) og það var skammast yfir einkavinavæðingu (Sjá Steingrím), svo ekki sé nú talað um það hvernig í sífellu var farið í kringum reglur og hundsaðar ábendingar eftirlitsstofnana (sjá hér). Sem sé – þetta er allt annað en áður var!

Og allt var þetta nú sérlega málefnalegt.

En sem sé – eins og Björn Valur sagði – ekki gagnrýna – þetta var svo stórt og erfitt mál!

Og hvað sagði Steingrímur i gærkvöldi undir stefnuræðunni? Ekki gagnrýna. Í gær: „Látið það vera, hafið ykkur á burtu ef þið hafið ekkert þarfara fram að færa," sagði Steingrímur.

Og í fyrra: „Því liðna fáum við ekki breytt…“ – og maður spyr sig hvers vegna VG hrekkur alltaf í að þrasa yfir sekt Sjálfstæðismanna þegar þeir eru sjálfir gagnrýndir?

Af hverju má ekki gagnrýna Vinstri græna? Er þetta einkaréttarmál?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli