4.4.12

Játningar nagara


Ég játa það. Ég er opinber starfsmaður, afæta, í áskrift með launin mín,  blýantsnagari. Hef líklega ekki röklegan rétt til að hafa skoðanir, ekki að minnsta kosti í samanburði við þá sem vinna á einkamarkaði. Það vill segja þá sem vinna við tekjusköpun á vinnumarkaði.
Líklega er það svo.
Samt finnst mér starf mitt skapa þessu samfélagi verðmæti. Ég vinn í stofnun sem er leiðandi í heilsuátaki framhaldsskóla (aukið heilbrigði slær líklega á tekjur actavis o.s.frv.), vinnur við að þjónusta eins fjölbreyttan hóp nemenda og hugsast má og búa þá undir líf og störf, og margt annað.
Mér finnst það skapandi en ég er bara nagari.
Mér finnst það skapandi að gefa fólki með allskonar hamlanir tækifæri til að mennta sig, stunda íþróttir o.fl. Eða gefa nemendum sem ýmsir aðrir skólar loka á, tækifæri til að mennta sig. Eða nemendum sem eiga við námserfiðleika að stríða stuðning til að mennta sig. Og svo framvegis.
Þessir nemendur hefðu annars hrakist úr kerfinu og ekki fengið stuðning. Vissulega tekst okkur ekki jafnvel upp með alla en hver sigur er skrefi framar en var.
Í eina tíð voru hamlaðir læstir inni m.a. á stofnunum sem kallaðar voru fávitastofnanir (skv. lögum- í lagafrumvarpi frá 1966 er talað um fávitastofnanir). Þeir voru teknir úr umferð, fengu litla andlega næringu, m.v. það sem nú þekkist og var haldið frá vinnumarkaði. Svoddan fólk gekk ekki í venjulega skóla.
Nú er öldin önnur, ég vinn við það og er stoltur af því.
Svo rekst maður á frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þrjár stöður skólameistara, stórir skólar, flottir skólar, sex sækja um einn, fimm um annan og þrír um þriðja. Mér fannst nógu lítið að þarna eru 14 nöfn en þetta voru 12 einstaklingar.
Hvernig má það vera að metnaðarfullir millistjórnendur og næstráðendur skólameistara í skólasamfélaginu sæki ekki um svona störf í hrönnum?
Svo rakst ég á frétt hjá RÚV. Meðal, heildarlaun íslenskra karla eru um 500 þús. Grunnlaun (meðal) voru 393 þús. Meðallaun. MEÐALLAUN!!!
Það er þegar við tökum laun allra þeirra sem skilgreinast karlkyns, leggjum þau saman og deilum í með fjölda skilgreindra karla og þá eru þetta MEÐALLAUN... 503.000 (m. öllu) og 393.000 (grunnlaun).
Sem þýðir að framhaldsskólakennarar ná ekki þessu meðaltali. Reikna má með að meðal, heildarlaun framhaldsskólakennara nálgist meðal grunnlaunin í landinu. Meðal stjórnandi í framhaldsskóla (ekki skólameistari) fær líklega í grunnlaun eitthvað sem nálgast heildarmeðallaunin á íslenskum vinnumarkaði. Og til að ná þessum hátekjum þarf kennarinn að fara í að minnsta kosti fimm ára háskólanám. FIMM ÁRA!!!
Það er vitaskuld ofætlan að ætlast til að vel menntað, vel launað fagfólk sjái um börnin þín og þarfir þess.
Þetta eru bara nagarar.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli