
Alla vega vaknaði ég snemma og setti niður eitt blogg eða svo í góðu kompaníi við Hrafnhildi frænku mína sem sagðist ekki skilja fólk sem vaknaði svona snemma en þyrfti þess ekki.
Ég var nú eiginlega sammála.
Þegar við hjónin vorum búin að ganga frá eftir okkur og njóta þess sem við vildum í eldhúsinu skröltum við af stað. Lestin var mátulega full að þessu sinni og rúllaði niður á Highbury/Islington þar sem við skiptum niður á St. Pancras og ætlunin var að fara þaðan á Paddington.

(Sigga í Baker street mátulega kát!)

Lestin bar okkur á Paddington og eftir að þvælast þar um stöð sem greinilega er verið að breyta fundum við tvo ágæta menn sem vildu hjálpa til. Annar var greinilega ekki góður í landafræði því hann spurði mig hvort ég vildi fara með undergroundinu til Bath... þá greip hinn inn í og sendi okkur rétta leið.
Lestin fór frá pallinum stundvíslega og allt gekk ljúflega þar til Chippenham var náð en þá stöðvaðist lestin áður en að stöðinni var komið. Ástæðan var manneskja sem var á brú yfir stöðinni og vildi henda sér fyrir lest. Ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í því. Fyrir allmörgum árum var ég á leið til Gulla í Eskilstuna þegar sjálf Arlanda expressen stöðvaðist vegna þess að það var Selvmordskandidat á brú yfir teinunum.
Eftir nokkra bið tókst að koma lestinni að stöðinni. Það var vitaskuld ekki notalegt að horfa á manneskjuna leidda í burtu af lögreglunni og vonandi að viðkomandi finni fjöl sína og lausnir sem eru betri.
Bath er gríðarlega fallega sett borg í skógi vöxnum hlíðum. Miðbærinn ku vera flókið kerfi einstefnuakstursgatna. Við fundum okkar leið út af stöðinni og fórum í leigubiðröðina. Mér fannst fúlt að tvær konur á undan okkur fengu að setjast upp í flottan Bens en við fengum mun ómerkilegri bíl. Hann kom okkur þó á leiðarenda í notalega íbúð í suðurhlíðum Bath. Hún er algjört IKEA ævintýri frá rúmi til baðherbergis og eldhúss. Mér hefði fundist sjálfsagt að hljómtækin og sjónvarpið væru það líka en ekki Sony!
Við erum búin að fara upp hæðina í Co-op (sem sænskir kalla kúpp) og ná í sitt af hverju en ekki var verra að rekast harkalega á pínulítinn indverskan með afspyrnugóðan mat!
Meira á morgun!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli