Þegar við erum búin að snúa okkur í gang og göngum til vesturs götuna í átt að St. Marks kirkjunni er beygt til vinstri. Að vísu skal maður passa sig á bílunum og muna að þeir koma úr öfugri átt. Þá er nokkurt hlutfall íbúanna sem ekki veit hvað gangbraut er (þ.e. bílandi íbúa) og rétt að fara varlega. Eiginlega alveg eins og heima.
Svo fer maður um St. Marks rise og kemur á Ridley street og maður lifandi. Þarna eru þrjú verslunarkerfi hlið við hlið. Eitt er götuverslunarmiðstöð á einni hæð þar sem ægir saman matvöru, skóm og fatnaði, dóti og hverju því sem hugurinn girnist.
Úti á götu er annar verslunarvettvangur sem er litlar búðir, sitt hvoru megin götunnar þar sem ægir saman matvöru, skóm og fatnaði, dóti og hverju því sem hugurinn girnist. Á sjálfri götunni myndast síðan röð sölubása, fyrir framan búðirnar á götunni þar sem ægir saman matvöru, skóm og fatnaði, dóti og hverju því sem hugurinn girnist.
Munurinn? Flottast er það fyrstnefnda en sölubásarnir finnast mér mest original. Og þarna eru Cockney slánar af enskum uppruna innan um sölumenn frá, að mér sýnist, öllum heimshornum. Í öllum búðunum. Það er engin spenna í loftinu og það eina sem gildir er eins og segir í danska laginu: Har du penge saa kan du faa men har du ingen saa maa du gaa!
Mér finnast svona staðir algjör upplifun og trú mín á manninn eykst verulega. Það er ekkert mál hvernig þú ert á litinn, á hvað þú trúir o.s.frv.
Mér finnst einn náungi alveg sérlega flottur enda minnir hann mig á Yusuf eða Cat Stevens.
Annað risaundur hér í borg eru lestarkerfin. Við komum okkur fyrir á Dalston Kingsland stöðinni með dagpassann okkar og aðvífandi maður kemur og vill láta okkur fá eyðublað á vegum lestanna. Það fyndna var að hann talaði alltaf við mig en lét Siggu fá blaðið! Og þannig er þetta svolítið hérna.
Í dag er sól og það er 27°C hiti segir síminn mér eftir einhverri veðurstöð.
Þessa tók Sigga í laumi.
Ég ætlaði ekki að asnast út á brautina í myndatöku en eins og sjá má fyrir ofan hafði Sigga betur!
Stúdíóíð þar sem fjölmörg glæsileg tónverkin hafa verið sett á band, viniyl, geisla eða tölvu eða þannig.
Ég hnípinn því ég mátti ekki fara inn og láta ljós mitt skína. Hvað skildi tíminn kosta?
Svo var kíkt inn í garðinn við stúdíóið, sem er raunar ferlega lítið hús að sjá frá götunni.
Virðulegir menn streymdu að og "Gvöð" var ekki Dave Gilmour þarna?
Líklega var þetta ekki hann en það er meira spennandi ef svo var!
Ég stóð nú bara eins og drjóli upp við staur meðan Sigga tók að sér að taka myndir af hinum og þessum.
Við stukkum upp í strætisvagn 189, veifuðum dagpassanum okkar og vagninn fór eins hratt og aðstæður leyfðu niður að Oxford Circus. Við vorum að leita að Marks og Spencer. Rétt við hornið á Oxford street, við Selfridges, fannst mér eiga að vera ein slík. En við hliðina á vagninum voru flutningabílar og næsta lítið að sjá út til hægri. Rétt sem vagninn rúllar af stað frá síðustu stoppistöð áður en beygt er á Oxford st. fór flutningabíllinn og við blasti M&S. Við máttum hafa það að bíða með útgöngu en þetta var sosum ekki langt að fara.
Hungur sótti að á leiðinni og við skutumst inn á pöbb í smá snarl. - og öl, enda veitir Siggu ekki af að drekka bjór til að halda flugunum í burtu.
Ekki meira um það nema ég leit við í Waterstones og fann bók Philippe Pozzo de Borgo, A second wind, - sem hægt er að fá lánaða að lestri loknum. Hún er grunnurinn að myndinni Intouchables sem allir þurfa að sjá.
Svo var farið heim á leið og nú var síldarstandið sýnu meira í lestinni. London er full af fólki. Heit, loftlaus og algjört æði.
Heima hjá Katrínu sátum við drjúga stund í garðinum og leystum sitt lítið af hverju af vanda heimsins. Síðan fórum við út á High street og fengum góðar lýsingar á því hvernig mál hefðu þróast. Við stungum okkur inn á tyrkneskan og fengum dýrðlegan mat. Og aftur kom þessi karllægni upphjá mönnum. KK pantaði matinn og þau fjölskyldan og völdu vel. Þegar við fórum tóku þjónarnir í hendur mínar (ekki kvennanna og Kjartan var farinn á undan), good night sir! og ég með þessar glæsilegu konur með mér? Ég hefði nú frekar verið notalegur við þær en svona er þetta.
Á röltinu heim sagði Katrín okkur frá tvíeggjuðum breytingum í Hackney, skyndiáhrifum þess að halda ÓL þar í borg og mörgu öðru. Merkilegt starf sem hún vinnur hún Katrín. Það mætti skrifa um það.
En svo tók nóttin við og allir kvöddust því á morgun (föstudag) er ferðadagur til Bath og ný ævintýri á leiðinni!
Þetta fólk er æði! Takk fyrir okkur!
Hvernig væri að skrifa svona gamaldags ferðabók.
SvaraEyða:) Greinilega gott fólk heim að sækja! :) Þetta ferðalag ykkar byrjar vel
SvaraEyðaHelga Dröfn