Þetta er sögufrægur kastali og sú gerð sem nú stendur er reist á eldri gerðum. Hann á sér sögu aftur til Engil Saxa og víkingar lögðu hann í rúst alla vega einu sinni. Normannar gerðu eina gerðina en sú sem nú sést er með stóra glugga og því yngri. Líklega að mestu 18. og 19. aldar.
Við förum niður á ströndina og lítum í kring um okkur á mannlíf og fleira.
Þarna er fólk í krikket og fleiru. Hundar hlaupa eftir boltum út í sjó, fólk á sjóbrettum, - þó svo aldan sé minni en á ströndum Kaliforníu.
Og sjórinn kaldari.
Bamburgh er eitt helsta kennileiti Norðymbralands, mikið notaður á póstkort og almanök.
Þarna erum við Sheila eitthvað að rifja upp gamla stæla úr náminu í Notty.
Og þarna eru Robin, ég og Sheila. Ég er að taka mynd af Siggu að taka mynd af okkur.
Kastalinn er sérlega fallegur úr fjörunni séð. Klifurjurtir klæða hlíðina fagurlega eins og sjá má.
Hér líka.
Síðan var stefnan tekin á Low Newton, en það er lítið þorp sem myndar eiginlega röð húsa sem eru eins og u á móti opnu hafi. Þar fengum við okkur smábita og alveg sérlega góðan bitter, en bitter er alvörubjór og því betri sem norðar dregur í Englandi. Þorpið er á minjaskrá. Knæpan heitir The Ship-inn og hét víst einu sinni The Smack-inn - bara veit ekki af hverju!
Því næst var stefnan tekin í átt að Dunstanburgh sem sést í bakgrunni myndarinnar. Þetta er falleg fjöruganga og mikið af skeljum, kröbbum og fleiru sem þarna er að finna - en nær ekkert rusl.
Dunstanburgh er kastali sem stendur á höfða og er tilkomumikið að sjá til hans, meira að segja rústanna. Þarna var byggð þegar á forsögulegum tíma en rústirnar sem sjást eru frá 14. öld. Kastalinn var meira til sýnis en gagns en lék þó nokkurt hlutverk í Rósastríðunum svokölluðu end aí eigu Lancaster ættarinnar.
Hann er nú hluti af friðuðu nátturuverndarsvæði.
Þessi tjöld sem varla virtust hanga uppi í gjólunni eru hluti af listrænni innsetningu en í hverju þeirra verður litað ljós. Þau mynda síðan mynstur sem ég veit ekki enn hvert er en þetta tengdist eitthvað OL í London 2012.
Hér sjást bleikir akrar eins og í Njálu!
Á röltinu til baka gekk ég fram á stráksa sem sagðist vera búinn að finna 21 marglyttu hið minnsta eftir að fjaraði út. Hann var merktur Nottingham Forest svo ég fór að spjalla við hann og foreldrana sem voru frá Nottingham (Grantham) og voru imponeruð að hitta okkur Siggu sem hefðum búið í Nottingham á glæsiárum Nottingham Forest. Kannski eru bjartir tímar framundan!
Þegar við komum aftur til Low Newton fór ég með Robin að tína Perri Winckes sem eru smávaxnir sæsniglar.
Eftir smá kaffisopa var lagt af stað til byggða og þegar Newcastle kom í sjónmál var sest inn hjá Salómóni sem rekur indverskt matsöluhús í indverjahverfi í Newcastle.
Maturinn var frábær og þegar heim kom voru allir lúnir og saddir.
Kvöldið var ljúfsárt enda þau á leið í vinnu á morgun (í dag) og við heim til Íslands.
Sniglarnir voru mátulega góðir....
Svo rann upp mánudagur og þegar við vorum búin að kveðjast fórum við Sigga af stað til Edinborgar. A68 vegurinn er afar falleg leið að fara og gekk greiðlega leiðin til Edinborgar.
Á leiðinni sáum við heim að Queen Margarets háskóla í Musselburgh þar sem Ásta Sigrún las til háskólaprófs í þrjú ar (í raun tvö og hálft því hún var í Ástralíu eina önn.
Við áðum í Edinborg um stund og rifjuðum upp augnablik, - og daga af ánægju og gleði þar.
Á leiðinni út á flugvöll lenti okkur Daníel svolítið saman því miklar framkvæmdir eru í borginni vegna yfirvofandi sporvagnaframkvæmda og hver gatan lokuð af annarri. Maður skynjaði vissan pirring í honum.
Út á flugvöll komumst við samt og eins og ég er þakklátur honum Daníel leiðsögnina þá var ég feginn að geta slökkt á honum. Ég heyrði reyndar af fólki sem hafði gefið í jólagjöf tæki sem heitir Sat-nag. Svona garmin leiðsögutæki eins og Daníel eru kölluð Sat-nav, en Sat-nag er þá eiginlega nöldurskjóða sem kvartar og kveinar yfir aksturslaginu. Sigga ætti kannski að hafa svona þegr hún er ein að aka....
En sem sé. Vika í viðbót? Veðurspáin er reyndar meira heillandi hér en heima!
en væri ekki ár eða áratugur betra?
Alla vega - í flughöfninni upplifum við (í annað sinn) að flugfélagið okkar er með flug um það leiti sem ALLT lokar!
Alla vega - flugvélin bíður!
Over and out!
Over and out!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli