Nýverið birtist einkar fróðleg grein um busavígslur í
Fréttablaðinu (http://vefblod.visir.is/print.php?aid=315898)
þar sem mannfræðingur reynir að setja busavígslur i samhengi menningararfs og
réttlæta tilvist þeirra.
Í greininni segir m.a. „Á síðustu árum hefur verið meiri
pressa á skólastjórnendur að vinna gegn niðurlægingunni sem oft hefur einkennt
busainnvígslurnar.“ Og vísað réttilega til breyttrar réttarstöðu unglinga vegna
færslu sjálfræðisaldurs í 18 ár, sem og skrif umboðsmanns barna um málið. Aftur
á móti er ekki vikið að einarðri andstöðu fjölda stjórnenda og starfsmanna
skóla við fyrirbærið, sem er víða mjög sterk enda ofbýður búsaferlið siðferðiskennd þeirra.
Þá segir: „Innvígslur eru ekki nýtt
fyrirbæri...Enn í dag þekkist að senda nýja starfsmenn í byggingarvinnu í
erindisleysu, eins og að skjótast að ná í plankastrekkjara.“ Sem er rétt en
varla líkt almennum busahátíðum.
Og enn segir: „Þegar fylgst er með busavígslum virðast þær
helst einkennast af mikilli niðurlægingu busanna...“ og lokaorðin: „ Með því að
allir árgangar gangi í gegnum "það sama" ár eftir ár þá eiga þeir
þessa reynslu sameiginlega. Þessi sameiginlega reynsla verður til þess að samkennd
verður til innan hópsins. Busavígslur eru þess vegna mikilvægur hluti af því að
vera hluti af hópnum innan hvers skóla fyrir sig.“
Frá mínum bæjardyrum séð þá halda þessar rökhendur illa
vatni við nánari skoðun og erfitt að sjá að það að eldri nemendur niðurlægi þá
yngri með sóðaskap og ofbeldi geti orðið almennur hluti af samkennd hópsins. Það
er kunn kennning úr fræðunum að ofbeldi ali af sér ofbeldi. Því er það vart til
annars en að viðhalda ofbeldi að viðhalda busavígslum af því tagi sem víðast
hafa tíðkast umliðna áratugi. Og vart er það í verkahring skóla að viðhalda
niðurlægingu og ofbeldi.
Hvað er innvígsla?
Orðið innvígsla er afar gegnsætt en það er þegar fólk er
vígt inn í eitthvert samfélag. Busavígslan er talin slík. Fermingin er
vissulega innvígsla, sama gildir þegar menn voru slegnir til riddara á öldum
fyrr og í raun er prestvígsla það einnig. Þessar athafnir eru víðáttu fjarri
því sem busavígslur eru. Annað orð sem notað er mun vera manndómsvígsla. Manndómsvígslur
eru þekktar í m.a. veiðmannasamfélögum þar sem ungir menn urðu að sanna sig með
því að sýna færni sína. Þa eru athafnir eins og umskurður kvenna partur af
slíkum innvígslum/manndómsvígslum og hafa ekki verið taldar til eftirbreytni.
Það að verða hluti af samfélagi og viðurkenndur hluti er
sannarlega eftirsóknarvert fyrir flesta. Spurningin er hvernig það gerist. Ef
menn fara á leitarvélar alheimsvefsins, slá inn orðið busavíglsa eða skyldar
útgáfur þess og leita mynda þá fá þeir myndir af ungu fólki sem vart verður séð
að sé verið að kenna neitt annað en að taka við ofbeldi og væntanlega koma
þeirri hugsun áfram. Það er eina sjáanlega reynslan sem er sameiginleg.
Manndómsvígsla er tæplega orðið því það er vart mikill
manndómur í því að láta níðast á sér og djöflast. Landsliðsmenn í sumum
íþróttum búa við slíkt og eru oft bláir og marðir á eftir. Ef svona
manndómsvígsla felur í sér að verið sé að bjóða fólk velkomið þá vildi ég nú
síður þekkjast þessa gestrisni sem þarna er í boði.
Á umliðnum árum hefur sitthvað misjafnt tíðkast í aðdraganda
þessara hátíða. Eldri nemendur hafa „keypt“ busa til ýmissa verka, glósugerðar,
bílaþvotta, töskuburðar og fleiri atriða. Þá hafa þeir skipað þeim að taka
armbeygjur, krotað á föt og andlit og fleira, auk margskonar einkaframtaks utan
skólans.
Slíkt athæfi heitir mannsal, þrælahald og kúgun á íslensku,
jafnvel þó það sé „til gamans gert.“ Sá sem færi á almannavettvang og tæki aðra
manneskju slíku traustataki yrði líklega kærður til lögreglu.
Það er mikið lagt undir af ungu fólki margra skóla að
réttlæta þess stórmerku athöfn. Og finna til þess rök sem líkjast þeim sem
birtust í Fréttablaðinu. Þegar nánar er að gáð verður varla séð að busadagar,
eins og víðast tíðkast, eigi nokkuð sammerkt með launhelgum, innvígslum,
manndómi eða skemmtunum. Í grunninn byggja þær á ofbeldi, viðhalda ofbeldi og slíkt
er ekki verkefni skóla, - ekki í siðmenntuðu ríki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli