13.4.13

Glæsileg umgjörð - glæsilegt fólk

Ég naut þeirrar ánægju í kvöld að vera í Eldborgarsal Hörpu og horfa á Morfís úrslitakeppnina. Þar kepptu Versló og Flensborg. Umgjörðin var glæsileg og keppnisliðin frábær og allt fór þetta vel fram á föstudagskvöldi þar sem 1500 ungmenni voru saman komin.
Versló vann en okkar fólk í Flensborg stóð sig frábærlega. Það þurfti sko alvöru mótherjatil að vinna þau.
Vel gert NFF og vel gert ræðulið og vel gert nemendur skólanna beggja - þið voruð frábær.

Ræðukeppni Morfís er mikil íþrótt og hefur tekið allnokkrum breytingum á síðustu áratugum. Þessi keppni, sem eru raunar fyrstu úrslit sem ég sé í nokkur ár, var að því leitinu ólík hinum fyrri að annars vegar er framsögn ræðumanna orðin betri. Það eru ekki þessir geltandi vélbyssukjaftar sem einkenndu keppnina hér áður. Mér fannst t.d. ræðulið okkar vera mjög vandað í framkomu og framsögn og jafnvel inntaki líka. Ræðulið Versló hafði það fram yfir að 2/3 hlutar hússins fylgdu þeim að málum. Því var m.a. náð með því að þeir gáfu mörg hundruð miða á keppnina sem er glæsilegt. Þá eru þeir vanari úrslitum í Morfís og Gettu betur og öll umgjörð þeim í hag. Við erum ekki vön þessari stærð. Engu að síður voru við alveg á pari við þá í nær öllu, nema fjöldanum, kunnáttunni í að byggja stuðning (kannski þessi eðlislæga samstaða og stolt sem einkennir VÍ en mér finnst vanta í Flensborg - ranglega). Hitt sem einkenndi þessa keppni og er kannski alvanalegt, en mér ekki kunnugt um, var að hún óneitanlega vannst á leikrænni tjáningu og sviðssetningu. Það hefur ekkert með ræðumennsku að gera, var flott og kannski er það næsta skref hjá okkur.
Það sem ég á við var notkun á skjávarpa, sem var verulega flott og öguð, en hitt var samspil annars vegar áhorfenda og ræðumanna, - sérlega eins, sem og notkun aukaleikara sem hlupu um sviðið. Maður sér kannski fyrir sér kór skólans að radda og tóna bak við ræðumann okkar...

En VÍ vann og það var í sjálfu sér ekki óverðskuldað þó mér hefði fundist að þessi leikaraskapur í umgjörð og framsögn ætti ekki við en - eins og ég segi, kannski tók VÍ þetta bara á nýtt plan.

Keppnir milli skóla eru af ýmsum toga (sjá hér og hér) og kannski eru þær mest áberandi sem eru í minnstum takti við skólastarf. Ég ætla ekki að taka það hneyksli að tengja Gettu betur við skóla hér - efni í aðra grein (watch this space). Þessi keppni er að mínu mati meiri íþrótt og ögun og í raun synd að hún skuli hafa fengið að þróast allan þennan tíma án þess að komast meira í sjónvarp. Hún er áheyrileg og áhorfendavæn að öllu öðru leiti að tímamörk eru að engu höfð - nema lengd á ræðum.
Þetta eru tvær umferðir, ca. hálftími af ræðum hvor en keppnin í kvöld átti að hefjast kl. 20 - hófst 20.40 - og var slitið um 23.45. Þetta er vitaskuld ekki hægt fyrir sjónvarp.

En sem sé æska Íslands var glæsileg í kvöld í Hörpu. Betra liðið vann ábyggilega, - þó við hefðum kosið annað. Flensborg átti fullt erindi þarna og við getum verið stolt af okkar keppendum, okkar áhorfendum og okkar skóla. Það er enn ein sönnun þess að við erum fyrst og fremst og megum vera stolt af því!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli