Í gærkvöldi var mikil flugeldasýning í Bois de Bologne garðinum hérna rétt hjá. Svo við ákváðum að kíkja þangað í dag.
Þegar við fórum út hafði sólin náð hitamælinum og sýndi hann um 60°C. Rétt var um 30°.
Garðurinn er við vesturjaðar sextánda hverfis og nær niður að Le Ateuil hverfinu rétt fyrir neðan. Þetta eru eftirstöðvar af veiðiskógum konunga Frakka, Rouvray skóginum, sem náið yfir gríðarmikið svæði og var veiðiskógur konungs þegar á sjöundu öld eftir Krist. Hann var bitbein kirkju og konungs um aldir en í 100 ára stríðinu héldu þar til ræningjaflokkar og í þessum skógi flugu þeir Rozier og d'Arlandes loftbelg Montgolfier bræðra í fyrsta sinn, 1783 eða rétt fyrir byltingu og um það leiti sem Móðuharðindin stóðu sem hæst.
Þarna reistu konungar og ættmenni þeira smá sumarhús (hallir) og skógurinn var alls ekki talinn öruggur þrátt fyrir það.
Honum var breytt í almenningsgarð um 1850 þegar Napóleon þriðji var orðinn leiður á að vera forseti og vildi fremur vera keisari. Hann hafði dvalið um hríð í útlegð í London og hreyfst af Hyde Park. Þess vegna pantaði hann tvo svoleiðis þegar hann var kominn heim og búinn að útnefna sjálfan sig sem keisara.
Fallegir svanir, heitt, endur, heitt, fólk, heitt en engir túristar (nema kannski við). Fjarstýrðir hraðbátar, skútur og skonnortur og fólk út um allt. Þegar við höfðum farið umhverfis vötnin tvö sem þarna eru (stórar tjarnir- lítil vötn?) vorum við komin að Hippodrome d'Auteuil sem er kappreiðabraut og héldum áfram inn í Le Auteuil hverfið. Þar er annar bragur en víða í París.
Við litum við í bakaríi þar sem mamsellan var svo upptekin í símanum að það lá við að við fengjum allt afgreitt öfugt við það sem beðið var um. Svo fundum við annað með sætabrauði aðeins neðar. Meðan við gengum þarna inn eftir Ru de la Fontaine lásum við að þeir feðgar John Adams og John Quincy Adams hefðu búið í hverfinu, en þeir áttu það sameiginlegt að verða forsetar Bandaríkjanna báðir. Quincy er reyndar ekki frægur fyrir forsetatíð sína en fremur fyrir baráttu sína gegn þrælahaldi, eftir að hann lét af embætti.
Viti menn, allt í einu vorum við komin á Passy og tókum áfram Rue de la Pompe (ennþá fyndið nafn) þar til við komum heim eftir góða göngu um þetta vel skipulagða borgarland þar sem byggingareitir eru nýttir tl hins ítrasta.
Smá pása og svo átti að fara á líbanskan stað sem var lokaður þegar á reyndi. Þá var það bara næsti staður, Le Chalet, afskaplega góður matur og svo var labbað meira, fyrst á Rue de la Pompe (víst fyndið) og yfir á Viktor Hugo með nokkrum krókaleiðum og þaðan heim.
Ein pæling. Víða í þessari borg fossar vatn upp úr niðurföllum og hefur þó eigi rignt hér um langa hríð. Og allt í lagi með það fram á fimmtudag okkar vegna. En hví þetta gerist veit ég ekki. Þetta er bara ferlega óþægilegt svona stundum. Say no more.
Meira hvað maður getur gengið í þessari borg - og notið þess!
Hiti í dag liðlega 30°C.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli