18.7.13

Tvær rósir

Það var yndislegt að ferðast til Eskilstuna og komast til krakkanna okkar, hitta þau þrjú sem eldri voru og líka nýjasta barnabarnið hana Hafdísi Freyju. Og fá Hildi Sögu hlaupandi upp í fangið þegar ég kom út úr lestinni. Það var líka gaman að hitta Gulla og Söndru – og Siggu!
Við áttum yndislega daga í Eskilstuna – Sigga fór þrívegis í afmæli hjá Hildi Sögu og ég einu sinni!
Víð fórum sosum hingað og þangað um bæinn, einu sinni að snæða á Grappa sem er flott veitingahús og í kjölfarið kom Hildur Saga heim með okkur á hótelið og fékk sér fótaþvott í vaskinum, - við lásum sögu saman og svo var hún fljót að sofna. Loks var það morgunmatur sem var punkturinn yfir i-ið og afa og ömmu leiddist ekki.



Við fórum líka í bíltúr til Mariefred og nágrennis, skoðuðum kastala, slógumst við aðgangsharðar endur, borðuðum svartan ís og almennt spasseruðum um bæi, garða, hallir og tún. Svo varð til brún kaka og ekki var af verra taginu barnaafmælið sem Hildur Saga hélt laugardaginn 6/7 og var þar vel búið veisuborð sem mamma og pabbi og amma útbjuggu af stakri snilld. Þá var ekki síst að muna það að þó svo skólinn væri í fríi þá þyrfti að labba heim úr skólanum, koma við í ICA og fá sér ís með afa...
Þegar við fórum í bíltúrinn góða þá fórum við fyrst á stað sem við Sigga munum ekki hvað heitir en þar var hópur handverksmanna með miðstöð. Við settumst niður við Mӓleren og fengum okkur að borða, - en í mikilli samkeppni við andamömmu, ungana hennar og fjölda annarra anda sem þvældust í löppunum á okkur og voru vanar að fá að borða hjá gestunum. Því var ekki um annað að ræða en sinna því. Þaðan var ekið hálfa leið til Stokkhólms og komið við í Mariefred. Þar er þessi eðalfíni kastali, sem gaman var að skoða og hlaupa um. Ekki var verra að komast á háhest  hjá pabba.
Bærinn er eins og margir gamlir norrænir bæir rómó og huggulegur. Maður gengur innan um lágreist hús á steinlögðum götum, þarna er kirkja frá 17. öld og þessi huggulegi kastali sem er elstur frá 13. öld en það sem sést er að mestu frá 18. öld. Svo gildir sama um hann eins og fleiri mannvirki að hann var tekinn í gegn í lok 19. og við upphaf 20. aldar, og þá varð svona eitt og annað slysið eins og gerist og gengur þegar mönnum rennur blóðið til skyldunnar umfram virðingu við verkefnið. 
En bærinn er yndislegur sem og kastalinn,- sem og kompaníið!
Við gistum Best Western Plaza sem var snyrtilegt og við miðbæinn.
Annars var tíminn mest notaður í að vera saman, njóta þess að hitta fólkið okkar og efla böndin við þau öll fjögur. Þvílíkt ríkidæmi.

1 ummæli:

  1. Takk fyrir góða tíma. Gaman að lesa þetta svona eftir á

    SvaraEyða