1.2.14

Hamlet 2014


Ég fór að sjá Hamlet. Í Borgarleikhúsinu. Og frekar snemma. Það var frumsýnt 11. janúar og ég fór 31/1. Sagan af Hamlet er mögnuð dramatík eftir Shakespeare og sett af honum á óræðum tíma miðalda, með verulega miklum samtímaskírskotunum, gerist í Danaveldi. Líklega til að fela raunverulegar tilvitnanir í breska samtíð.

Persónurnar bera undarleg nöfn, sum úr rómversk/grísklegum leikritum og önnur eru eins og skop af hálfu skáldsins. Þannig er erfitt að færa Hamlet til samtímans þegar kóngurinn heitir Kládíus, ráðgjafi hans Pólóníus en drottningin því þýska nafni Gertrude. Norskur prins heitir Fortinbras, svo er þarna einn Hóras, ein Ófelía, Rósinkrans og Gyllinstjarna svo nokkuð sé nefnt.

Leikritið gerist á Elsinore, sem er líklega afbökum af Helsingjaeyri (Helsingör) en sögupersónur eru sendar til Englands, frá Danmörku, norskur her stefnir á Pólland og nokkrir félagar hafa verið í háskólala í Wittenberg þar sem Lúther starfaði og mótmælti.

Sagan hefst þar sem konungurinn Hamlet er nýlátinn, bróðir konungs hefur tekið völd og kvænst ekkju konungs. Sonur ekkjunnar og konungsins látna er hinn ungi Hamlet, sem á erfitt með að sættast við örlög föður síns og ákvörðun móður sinnar. Síðan spinnur skáldið þráð þar sem Hamlet hinn ungi verður geðveikur/þykist geðveikur eftir að hann telur sig sjá afturgöngu föður síns sem upplýsir að konungurinn nýi sé bróðurbani.

Í lokin deyja allir nema Hóras sem flytur í útgáfu skáldsins þrungin lokaorð áður en Fortinbras ryðst inn og tekur völdin. Hóras segir:


Útgáfa Borgarleikhússins 2014 er óneitanlega djörf og ryðst fram og aftur í tíma. Sumt minnir á miðaldir, annað á einveldi 18. aldar, svo ber við sjónarrrönd 20. öld og það er vitnað í þá 21. Mér fannst það ruglingslegt og ekki vera að gera sig en sé að gagnrýnendur eru ekki sammála (alla vega ekki þessi http://www.pressan.is/Menningarpressan/LesaMenningarfrett/hamlet-i-haskerpu---leikhusgagnryni-eftir-bryndisi-loftsdottur).

 Stykkið er langt – það er langt af hálfu skáldsins – og það munu til fleiri en ein þýðing. Þessi uppsetning er byggð á þýðingu Helga Hálfdánarsonar en hún er mikið breytt. Hexameterið, ljóðauppsetningin, er horfin á stórum köflum og ég er viss um að Helgi notar hvergi orð eins og háskerpa, paste-a (sbr. copy – paste), fokking og fleiri dæmi mætti nefna. Þá eru stórir kaflar þar sem vikið er frá texta Helga og Shakespeare og hann settur í frjálslegra form.

Og veitir ekki af því leikararnir áttu margir erfitt með ljóðatextann, t.d. í upphafi verksins, en opnunarsenan minnti mig meira á áhugamannaleikhús en atvinnumenn. Mónólogar Hamlets , t.d. „að vera eða vera ekki“ og þar á undan, ef ég man rétt sá sem hefst á ensku á orðunum „O what a rogue and peasant slave am I!“ héldu sér vel og voru snilldarlega fluttir af Ólafi Darra, sem og kapellusenan þar sem höfuð Hamlets og hnífur leika ótrúlega með ljósið á sviðinu. Mónólóg Kládíusar í sömu senu var máttlausari með öllu.  

Í raun má segja að sá hafi verið munurinn á Ólafi Darra og hinum að þar sem hinir léku hlutverk sín misvel þá varð Ólafur Darri að Hamlet. Hann lék ekki – hann var.

Það er hægt að rita langt mál um það sem fór illa í mig, en samt fannst mér gaman að fara að sjá þessa tilraun þó mig langi mest núna að finna einhverja klassíska BBC útgáfu eða leikgerð Branaghs frá 1996, eða jafnvel bara finna gömlu Olivier filmuna frá 1948. Mig langar ekkert að sjá Mel Gibson gerðina sem þó var svolítið fyndin og flott á sinn hátt. Mig langar bara í svolítið ómengaðan Hamlet með enska textanum eins og hann var saminn af skáldinu.

Hamlet er vitaskuld svo stórt stykki að leitun er að slíku. Þegar leikari fær að leika Hamlet þá er það gæðastimpill mikill og Ólafur Darri sýndi vel að hann stóð undir þeim væntingum sem menn bera til Hamlets. Það sem var verra var að hinir voru eins og statistar á sviðinu og í raun fannst mér dánarsena Ofelíu í höndum Hildar Berglindar Arndal, eina sena annars leikara sem ég man eftir. Samt hef ég verulegar athugasemdir um uppyggingu þeirrar senu.

Meira að segja lokauppgjörið varð svolítið halló og Fortinbras drap niður stykkið í lokin með lummulegum lokaorðum sem alls ekki eru í verkinu frá Shakespeare.

En það var unun að hlusta á mónólóga Hamlets eins og Ólafur Darri flutti þá. Hrein unun.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli