28.5.16

Glæsilegur hópur brautskráður. Skólameistari kallar eftir stefnu í skólamálum.

Í dag voru brautskráðir sjötíur og fjórir nemendur frá Flensborgarskólanum. Athöfnin fór fram í Hamarssal skólans. Að þessu sinni töldust tvær stúdínur jafnar en það voru Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir         9,65 og Sigurlaug Rún Jónsdóttir með meðaleinkunn 9,63. Fjölmargir útskriftarnemar fengu verðlaun en auk þeirra sem skólinn veitir þá komu gjafir frá Danska sendiráðinu, Embætti landlæknis, Gámaþjónustunni, Háskóla Íslands, Hinu íslenska stærðfræðifélagi og Rotaryklúbbi Hafnarfjarðar. Auk þeirra má nefna Háskólann í Reykjavík sem veitir námsstyrk og Rio tinto alcan sem veitir m.a. peningagjöf.
Er þeim þakkaður stuðningurinn.
Í ræðu fulltrúa útskriftarnema, Benedikts Arnar Þorvaldssonar, kom m.a. fram að hópurinn hefði gefið peningagjöf til Barnaspítala Hringsins.
Tveir skiptinemar voru kvaddir en það voru þau Agathe Ismene Baudoin frá Frakklandi og Giacomo Gobbato frá Ítalíu. Tveir nýnemar fengu verðlaun fyrir frábæran árangur en það eru þeir Ólafur Andri og Þór Breki Davíðssynir. Þeir eru raunar tvíburar.
Tveir starfsmenn, sem láta af störfum sakir aldurs voru einnig kvaddir þeir Sveinn Þórðarson og Jóhann Guðjónsson, Sveinn eftir liðlega aldarfjórðungs starf og Jóhann eftir 42 ára starf.
Loks voru starfsmenn heiðraðir. Sveinn Þórðarson, fékk gullmerki fyrir 25 ára störf í þágu skólans. Þá fengu þessir silfurmerki fyrir 10 ára starf:Friðrik Olgeir Júlíusson, Pálfríður Bjarnadóttir, Ása Katrín Hjartardóttir, Ásta K. Pálmadótti, Díana Guðjónsdóttir, Eygló Jónsdóttir, Guðrún Hafdís Eiríksdóttir, Hólmfríður Sigþórsdóttir, Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, Hrefna Steinarsdóttir og Svana Björk Karlsdóttir.
Guðrún Hafdís Eiríksdóttir, kennari í stærðfræði, samdi kennsluefni fyrir nýja stærðfræðikeðju, sem heitir Hagnýt stærðfræði. Þetta eru þrír áfangar og bók fyrir hvern. Með gjafabréfi hefur hún fært skólanum eignar- og útgáfurétt á þessum bókum.
Kór Flensborgarskólans og Flensborgarkórinn sungu undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg.
Einn nemandi hafði þegar verið útskrifaður en það er Joniada Dega frá Albaníu sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar í fréttamiðlum. Joniada útskrifaðist  með glæsibrag en þó var svolítið snúið að yfirfæra albönsku námskrána yfir á okkar. Athöfnin var tilfinningaþrungin en ánægjuleg. Þar voru kennarar hennar og samnemendur margir. Joniada flutti ræðu á íslensku og sagði hún m.a.
En vitið þið hvað? Að læra með þeim bestu og af þeim bestu hefur verið lykillinn að velgengni minni.... [Þ]að mikilvægasta sem ég hef lært í skólanum er að treysta á aðra sem og styðja aðra sem þurfa á því að halda.
Skólameistari sagði m.a.: Ég hef oft kvartað undan því í ræðu og riti að samfélag okkar skilgreini ekki nægjanlega inntak og tilgang skólastarfs. Við ræðum ekki hver stefnan eigi að vera eða um hvað skólastarf eigi að snúast?
Skólinn er ekki kostnaður. Við eigum að sjá skólann sem skapandi afl. Samfélagslega bætandi afl. Rannsóknir segja að við séum að búa nemendum okkar betri lífskjör, gera þau að betri borgurum, - glæða sálargáfur þeirra.
 
Enn frekari upplýsingar má fá á vef skólameistara (http://maggibloggari.blogspot.com).


 
Úr ræðu skólameistara:
Kæru útskriftarnemendur, formaður skólanefndar, samstarfsmenn og góðir gestir.
Þegar Flensborgarskólinn tók til starfa árið 1882 þá var honum ætlað að sinna m.a. þeim alþýðubörnum í Garðahreppi sem ekki áttu kost á skólagöngu annars. Þau voru framsýn hjón frú Þórunn Jónsdóttir og sr. Þórarinn Böðvarsson. Jón sonur þeirra sem varð skólastjóri fékk að auki allskonar hugmyndir sem þá þóttu gagnrýniverðar, s.s. að það kynni að vera rétt að mennta kennara. Á áttunda áratug síðustu aldar gekk þáverandi skólameistari, Kristján Bersi Ólafsson í lið með skólamönnum sem nýttu sér ný lög um menntaskóla og mótuðu fjölbrautaskólakerfið. Þá fóru um 30% ungmenna áfram til mennta að lokinni skólaskyldu en í dag eru það nær öll ungmenni.
Þau 70% sem bættust við fóru ásamt hluta hinna inn í fjölbrautakerfið og þykir í dag sjálfsagt. Áður var sá  möguleiki einfaldlega ekki til staðar.
Um 1970 sáu margir það sem ógn ef sú skólasókn færi yfir 40% og töluðu um ofmenntun. Í dag er skóli eins og Flensborg enn að sinna því verki sem hann var stofnaður til að vinna. Að opna fólki leið til mennta. Staðreyndin er sú að skóli eins og þessi rúmar mikla fjölbreytni og hér leiðum við til útskriftar nemendur, sem fyrir daga fjölbrautabyltinganna hefðu ekki fengið að fara í framhaldsskóla. Við vitum af mörgum sem eru komnir langar leiðir í framhaldsnámi, búnir með miklar háskólagráður vegna þeirra tækifæra sem þeir fengu hér. Við heyrum af nemendum okkar um allan heim, allt frá háskólaprófessorum til íþróttamanna. Kannski óheppileg pörun. Ef við horfum eingöngu til íþróttamanna erlendis þá mætti nefna Tönju Ólafsdóttiu og Unni Ösp Alfreðsdóttur sem urðu Norðurlanda-meistarar unglinga 2016 í hópfimleikum. Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona var að semja við Wolfsburg í Þýskalandi sem er Barcelona kvennaboltans
Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir fimleikakona komst í úrslit á heimsbikarmóti í fimleikum og í verðlaunasæti á NM nú um síðustu helgi auk þess sem hún var hluti af hópi sem vann til gullverðlauna. Núna um helgina keppir hún á EM í áhaldaleikfimi. Kvennalandsliðið  í knattspyrnu var að miklu leyti skipað Flensborgarkonum um hríð.  Aron Pálmarsson er að spila til úrslita í Meistaradeild Evrópu, Ólafur Andrés Guðmundsson sænskur meistari. Það eru margir sem má nefna en hæst í þessum hópi trónir sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir. Þarf eitthvað að ræða það?
Af listamönnum má nefna Kristján Marteinsson, sem á aðild að hverju snilldarverkinu á fætur öðru, söngkonan Sóley, þær stöllur í Ylju og svo sækja fram efnis listamenn til viðbótar t.d. í Músíktilraunum. Einn verð ég að nefna en það er hann Hafsteinn Þráinsson sem spilar með fjölda hljómsveita og með honum eru fleiri krakkar héðan. Arnar Dan Kristjánsson fer hamförum í Mamma Mia og þannig má lengi telja. Ég geri mér grein fyrir að þetta er slembivalið úrtak og bið þá forláts sem ekki voru nefndir.
Svo eru afreksmenn í námi, eins og ég vík að hér á eftir.
Okkar fólk fer víða um lönd. Ég hef fengið óvanalega margar beiðnir um meðmæli eða umsagnir frá nemendum sem stefna á nám erlendis. Þá er gott að muna það sem segir í Hávamálum: Vits er þörf þeim er víða ratar.
Þessi orð Hávamála eru viðeigandi í dag því nokkur hluti þess hóps sem hér situr hyggur á ferðalög, flutninga innan lands og utan.
Í vetur höfum við mörg hver verið upptekin af fólki sem flyst milli landa. Það eru í senn þeir sem héðan eru að fara, sem og þeir sem hingað leita. Þar er sárast að horfa á eftir ungu fólki sem telur aðstæður þannig að það vill fremur fara en vera hér á landi. Þetta er ekki síst skrýtið vegna þess að við búum í stóru og strjálbýlu landi. Þó hluti þess sé illa byggilegur þá eru þó vel byggilegar sveitir hálftómar og þéttbýliskjarnar sem mega muna sinn fífil fegurri. Kannski þurfum við að fara að gera upp við okkur hvort við viljum halda fólkinu okkar hér við góð kjör eða hvort við teljum þörf á að fylla í skörðin með öflugu fólki frá öðrum löndum nær og fjær. Nema hvort tveggja verði gert. Í raun má segja að landið okkar hafi burði til að að fóstra íbúa sína í vellíðan. Við ættum að geta lifað saman í sátt og við ættum að geta tekið við gestum frá öðrum löndum.
Og vits er þörf þeim er víða ratar, því vissulega vonum við að hver vegur að heiman sé vegurinn heim, að ferðalangurinn snúi heim með þekkingu sína og reynslu og miðli til okkar. Þá getur gerst að þeir, sem frumkvöðlar, verði skotspónar athugasemda af öllum toga. Þannig þótti hugmynd Jules Verne um ferðir til tunglsins heldur ósennileg, svo ekki sé talað um landrekskenningu Wegeners og gert var grín að Einari Benediktssyni skáldi fyrir að ætla að selja ferðamönnum norðurljósin. Sá hlær best sem síðast hlær!
Það er harla margt sem breyst hefur í skólastarfinu. Ég hygg að margir þeirra sem eru komnir t.d. á sextugsaldurinn myndu varla þekkja sig í nútíma kennslustofu. En það merkilega er samt að umgjörð skólastarfs er föst og því virðist minna breytast en raun er á. Þegar litið er á námsgreinar Flensborgarskólans fyrir 100 árum og í dag þá eru nöfnin þau sömu þó svo efnistökin séu gjörólík. Kennarar skólans semja heilmikið námsefni og hafa alltaf gert, hvort heldur er sem kennslubækur eða kennslugögn. Mér er heiður að segja frá því að skólinn fékk nú í vor afar rausnarlega gjöf. Guðrún Hafdís Eiríksdóttir, kennari í stærðfræði og frábær kennari, samdi kennsluefni fyrir nýja stærðfræðikeðju, sem heitir Hagnýt stærðfræði. Þetta eru þrír áfangar og bók fyrir hvern. Með gjafabréfi hefur hún fært skólanum eignar- og útgáfurétt á þessum bókum. Þetta er sérlega rausnarleg gjöf og orð fá ekki lýst þakklæti mínu til Guðrúnar. Í dag er meiri krafa um skapandi lausnir og fjölbreyttari kennsluhætti. Hvort um sig kallar á það að nemendur og kennarar geti fengið rými til að vinna, nemendur á skapandi hátt og kennarar með fjölbreytni, sem er einnig skapandi vinnulag. Til að ná því þarf einbeitingu. Næði og traust í kennslustofum. Næði og traust við námið. Mjög skapandi listamaður var spurður hvort þetta væri ekki magnaður eiginleiki. Svarið var: þetta er ekki eiginleiki. Ég þarf að fá tíma og næði og ráðrúm til að gera mistök. Ef ég gerði aldrei mistök, myndi ég aldrei gera neitt af viti.
 
II
Aðeins að öðru.
Það eru nokkrar tilfærslur í hópi starfsmanna.
Anna Katrín Ragnarsdóttir mun leysa Sunnu Þórarinsdóttur af í barnsburðarleyfi Sunnu.
Álfheiður Eva Óladóttir tekur við starfi mannauðsstjóra af Erlu Ragnarsdóttur, sem leysti raunar Bryndísi Jónu Jónsdóttur af. Bryndís kemur aftur en í hálft starf, m.a. við kennslu.
Árni Sverrir Bjarnason og Sigrún Pálína Magnúsdóttir fara í launalaust leyfi.
Dagrún Ólafsdóttir kemur úr launuðu orlofi.
Eygló Jónsdóttir kemur aftur eftir veikindi.
Guðrún Jóna Sigurðardóttir hverfur til annarra starfa og við þökkum henni fyrir góð störf. Sama gildir um Védísi Gunnarsdóttur sem vann í mötuneytinu.
Hildur Einarsdóttir fer í launað orlof.
Hrefna Geirsdóttir lætur af störfum sem aðstoðarskólameistari og hverfur til annarra starfa.
Svava Margrét Sigurðardóttir leysti Sigrúnu Eddu Knútsdóttur af meðan Sigrún var í launalausu leyfi. Við fögnum því að Sigrún er komin aftur og við þökkum Svövu Margréti vel unnin störf og góð viðkynni.
Þeir Heimir Björnsson og Hrafnkell Tumi Kolbeinsson fóru báðir í feðraorlof í vetur. Í þeirra skörð hlupu þeir Úlfur Einarsson og Jakob Ævarsson. Við ætlum að halda þeim áfram ef hægt er. Elín Guðmundardóttir kom til starfa í haust við Bæjarbrúnna og verður áfram. John O‘Neil leysti Eygló Jónsdóttur af og verður eitthvað áfram. Kristín Arna Hauksdóttir kom til kennslu í íslensku og verður áfram.
Ég held ég sé kominn með það sem liggur fyrir.
Rétt er að þakka NFF, nemendafélaginu og forystu þess fyrir þeirra framlag i vetur. Þar eru orðin oddvitaskipti og að venju erum við full tilhlökkunar að takast á um skólastarfið og félagslífið og það hvaða vægi hvort um sig á að hafa.
Það hefur verið margt sem við höfum unnið að í vetur. Sumt er skemmtilegra en annað. Ég ætla ekki að ræða hér fjármál að neinu marki. Vinna við nýja námskrá heldur áfram enda eru margar hugmyndir í umræðunni sem þarf að fella að okkar vinnu. Miklar breytingar í vetur, í starfsumhverfi, kjarasamningum og námskrá hafa tekið toll. Næsta skólaár verður notað til að ná jafnvægi enda er mikil vinna fram undan við yfirfærslu námskrár úr gömlu kerfi í nýtt. Núna erum við með liðlega 30 námsbrautaafbrigði ný og gömul. Ég ætla ekki að slá tölu á öll áfangaheitin sem eru ný. Það er óheyrilega mikið sem hefur verið gert og nú er að leita jafnvægis og veitir ekki af. Hér hafa kennarar svarað kröfum námskrár af elju og fagmennsku.
Ég hef oft kvartað undan því í ræðu og riti að samfélag okkar skilgreini ekki nægjanlega inntak og tilgang skólastarfs. Við ræðum ekki hver stefnan eigi að vera eða um hvað skólastarf eigi að snúast?
Skólinn er ekki kostnaður. Við eigum að sjá skólann sem skapandi afl. Samfélagslega bætandi afl. Rannsóknir segja að við séum að búa nemendum okkar betri lífskjör, gera þau að betri borgurum, - glæða sálargáfur þeirra.
Einn þáttur þess að glæða sálargáfur er að temja fólki góða siði í notkun samfélagsmiðla. Þetta þykir oft vettvangur grimmdar og stundum er þar vegið úr launsátri. Mér finnst óhugnanlegt hvernig samskipti geta farið þar fram. Samskipti og siðferði athugasemdakerfanna mættu taka mið af því sem fyrrnefndur norðurljósasali, Einar Benediktsson orðaði í ljóði þar sem hann ritaði m.a.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Göngum út í sumarið með þessa hugsun.
Takk fyrir
 
III
Nemendatölur
Alls voru 774 nemendur í skólanum á haustönn en um 630 hófu nám á vorönn. Fleiri stunda nám á nýju og gömlu félagsfræðibrautinni en á raungreina- og náttúrufræðibraut. Rétt rúmur helmingur nemenda er drengir og um 150 nemendur á íþróttaafrekssviði. Þar auki var hópur grunnskólanemenda í 9. og 10. bekk í Bæjarbrúnni sem er samstarfsverkefni við Hafnarfjarðarbæ. Nokkur og ört vaxandi hópur er á nýstofnuðu listasviði. Um fjórðungur nemenda stundar nám samkvæmt nýrri námskrá en flækjustig þess að vera með tvö kerfi með sitthvorri einingatalninguni leiðir til þess að við erum farin að íhuga hvort við getum sameinað nemendur undir nýju kerfi á næsta skólaári.
 
Útskriftarhópurinn 74 nemendur.
Félagsfræðabraut                                      24            28
Félagsfræðabraut, íþróttaafrekssvið    4             
Málabraut                                                   2                      
Náttúrufræðabraut                                   15            22
Náttúrufræðabraut_íþróttaafrekssvið   7
Opin námsbraut                                        1             
Starfsbraut 1 og 2                                     5
Viðbótarnám til stúdentsprófs              2
Viðskipta- og hagfræðabraut                 11            14
Viðskipta- og hagfræðabraut_íþróttaafrekssvið        3         
Það eru 25 nemandur sem eru með 8,0 eða hærra í meðaleinkunn. Það eru sex með níu eða hærra í meðaleinkunn.
Þetta eru
Vildís Hekla Gísladóttir      9,1
Ragnar Már Jónsson          9,13
Þóra Kristín Jónsdóttir      9,21
Ólafur Tryggvi Magnússon           9,3
 
Þá eru tvær konur eftir og ég ætla að útskýra eitt áður en við komum að því.
Innan sem er það kerfi sem heldur utan um öll náttúrulögmál einkunnagjafar reiknar aðaleinkunn með tveimur aukastöfum. Samkvæmt því er
Sigurlaug Rún Jónsdóttir  9,63
Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir    9,65
Þær teljast því báðar dúxar þessari önn.
 
IV
Afhending prófskírteina
Einn nemandi hefur þegar verið útskrifaður en það er Joniada Dega frá Albaníu sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar í fréttamiðlum. Joniada útskrifaðist  með glæsibrag en þó var svolítið snúið að yfirfæra albönsku námskrána yfir á okkar. Athöfnin var tilfinningaþrungin en ánægjuleg. Þar voru kennarar hennar og samnemendur margir. Joniada flutti ræðu á íslensku og sagði hún m.a.
En vitið þið hvað? Að læra með þeim bestu og af þeim bestu hefur verið lykillinn að velgengni minni.... [Þ]að mikilvægasta sem ég hef lært í skólanum er að treysta á aðra sem og styðja aðra sem þurfa á því að halda.
 
Kveðja
Tveir heiðursmenn sem hætta vegna aldurs.
Sveinn Þórðarson hefur starfað við skólann frá haustinu 1990. Hann hefur kennt sögu og íslensku og var einn af frumkvöðlunum sem fóru að setja upp heimasíður með kennslugögnum sem ég veit að hafa verið notaðar víða umland og víða um heim. Sveinn hefur einnig verið afkastamikill í útgáfu sagnfræðirita og hefur gefið út nokkrar sérlega vandaðar bækur. Hann þykir hafsjór af fróðleik, sérlega vandaður penni og prófarkalesari. Svo er hann í ákaflega góðu og öfundsverðu formi og ef ég man rétt þá er hann bifvélavirki líka.
Það hafa verið forréttindi að kenna með Sveini og oftar en ekki hef ég fengið frá honum góðar ábendingar. Sveinn viltu koma hér upp?
 
Jóhann Guðjónsson hóf störf við skólann 1974 sjálft þjóðhátíðarárið, - og það segir til um aldur ef maður man eftir því. Jóhann hefur gegnt starfi kennara, áfangastjóra og aðstoðarskólameistara. Ég kom hér til starfa fyrst árið 1981 – veit að það er ótrúlegt miðað við útlitið – og hreyfst af hugmyndum Jóhanns um kennsluhætti. Þá hafði hann leikið stórt hlutverk í skólabyltingunni sem hér átti sér stað á áttunda áratugnum. Ég veit ekki hvort nokkur gerir sér grein fyrir því framlagi til samfélagsins sem liggur í liðlega fjórum áratugum í kennslu? Fyrir utan kennsluna hér þá var Jóhann mikilvægur við mótun kennsluhátta í líffræði sem námsgreinar.
Mér finnst það hafa verið forréttindi að hafa kynnst Jóhanni þegar ég byrjaði að kenna hér í Flensborg.
IX
Það er mér mikilvægt að fá að þakka samstarfsfólki mínu öllu. Sérstaklega vil ég þó þakka þeim vaska hópi sem kemur að undirbúningi útskriftarinnar, og ætla ekki að telja þau öll upp.
En það er einn hlutur eftir. Ég hef verið skólameistari hér veturinn 2009-10 og frá 2013. Öll þessi ár hef ég haft við hlið mér góðan samstarfsmann sem hefur reynst mér traustur. Það er hún Hrefna Geirsdóttir. Hvað gera karlar sem hafa ekki konur sér við hlið? Ekki veit ég það því Hrefna hefur verið mér til trausts og halds hér í vinnunni.
Hrefna er ekki að hætta en ég vildi samt fá að færa henni smá blómvönd í þakklætisskyni fyrir að hafa verið aðstoðarskólameistari minn og raunar um hríð í vetur skólameistari í forföllum mínum.
X
Kæru útskriftarnemendur. Nú er komið þar í sögunni að ég þarf að botna mál mitt vel og vandlega.
Þið eruð nú orðin hluti af þeim hópi sem lokið hefur námi við Flensborg. Sú saga nær aftur um 130 ár. Þegar fram líða stundir munu einhver ykkar snúa aftur og vilja fara að kenna hjá okkur. Eða annars staðar. Sjáum til.
Núna þegar þið kveðjið og farið að leita að því sem gerist eftir útskrift í Flensborg þá má líkja því við daginn þegar þið komuð hér fyrst og fóruð um gangana leitandi að réttu hurðinni. Nú lokast okkar dyr að vissu leyti en það taka við nýir rangalar, nýjar dyr.
Þá skiptir máli að velja. Velja rétt? Ég veit ekki hvort það er alltaf hægt. Stundum eru margir jafngildir valkostir og þegar á hólminn er komið þá verður maður að spila úr þvi sem maður hefur á hendi. Hér frammi hanga uppi tíu skilti sem eru safn ráðlegginga sem kallast Geðorðin tíu. Þeim safnaði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur, og byggði á rannsóknum um andlega heilsu og geðrækt. Ég veit þið kunnið þetta út og inn krakkar mínir en ég ætla að benda á þau þrjú sem mér þykir vænst um. Eitt segir – hlúið að því sem ykkur þykir vænt um. Annað segir ekki flækja líf ykkar að óþörfu. Og síðast en ekki síst. Setjið ykkur markmið og látið drauma ykkar rætast. 
Og það er máski vegarnesti mitt til ykkar.
Nú er valið ykkar. Veljið með hliðsjón af væntingum ykkar, þess sem hjartað segir ykkur og munið að við verðum aldrei fullnuma og þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi en gaman. Og það er langhlaup.
Farnist ykkur vel, kíkið við og leyfið okkur, sem eftir sitjum, að heyra af ykkur.
Framtíðina eigið þið. Vegurinn sem þið farið er ykkar vegur. Hann getið þið gengið með öðrum en aðrir ganga hann ekki fyrir ykkur.
Ég segi skólaárinu 2015-2016 lokið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli