29.5.16

Berlin, erste Tag

Mjög árla að morgni 29/5 2016 – MJÖG árla, söfnuðust allmargir starfsmenn Flensborgarskólans og FG, saman í Keflavík, eiginlega á Miðnesheiði, á leið til Berlínar, í skólaheimsókn. Þær Erla Ragnarsdóttir, Marion Wiechert og Elísabet Siemsen áttu megin heiður skipulagsins.
Mæting var milli 0300 og 0400. MJÖG árla.
Flogið var með WOW í nýrri Airbus vél og gekk flugið vel þar sem flestir farþeganna sváfu. Þó ekki ég...
Vélin lenti frekar harkalega en öll önnur þjónusta um borð var frábær.
Við fórum með rútum inn á Alexanderplatz á Hótel Leonardo Royal, sem er afar viðkunnanlegt hótel. Í aðfluginu sáum við fallegar hliðar Þýskalands birtast, fallegar akra og tún, laufguð tré og stíflaða hraðbraut. Á leiðinni á hótelið sáum við hversu mjög Berlín hefur breyst frá 1989 er múrinn féll. Að auki sáum við leifar múrsins hér og þar.
Allstór hópur gekk síðan Unter der Linden að Reichstag. Veðrið var yndislegt, sól og um 30°C þegar best lét. Sýningin í Reichstag er þríþætt. Sýna þennan fallega glerhjálm sem reistur hefur verið á Reichstag – nú Bundestag – þinghús sambandslýðveldisins. Að leyfa manni að kynnast borginni Berlín með leiðsögn um glerhjálminn og loks ekki síst, kynna með nokkru stolti starfsaðferðir og skipulag þýska þingsins. Ferðin er frábær og vel þess virði að fara þangað.
Eftir ferðina varð ég samferða Þorbirni áfangastjóra Flensborgar um lestarkerfi borgarinnar. Svo lögðu menn sig bara og fóru hingað og þangað út að borða. Ég snæddi á hótelinu afar mjúka og góða nautasteik og vona að ég verði ekki skrýtinn af því einu saman. Nóg er nú samt!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli