25.6.18

Búda í fjöllum og hin flata Pest.

Við erum búin að trampa um Pest allnokkuð svo nú skyldi farið í Buda.
Við hoppuðum um borð í ,,hop on hop off" bílinn og fórum alla leið til Buda, sem er hinum megin við ána. Þulurinn sem ég hlustaði á sagði að Rómverjar hefðu lagt undir sig Buda og byggt þar upp notalega borg en héldu Barbaralýðnum hinum megin við Dóná eða í Pest og þannig væri það enn.
Buda Var, eða Budakastalinn er náttúrulega enginn venjulegur kastali, frekar en svo margt annað hér um slóðir. Hann er þorp eða borg, listasöfn og ríkisskrifstofur. Þarna eigruðum við um í þrjá til fimm tíma (ekki alveg sammála). Það var yndislegt að eigra þarna um og hefðum getað verið enn lengur.
Kastalinn var fyrst reistur á 13. öld og síðan endurreistur nokkrum sinnum vegna áfalla s.s. að óvinaherir stútuðu honum. Meðal annars átti hin eina sanna MariaTheresa hlut í einni endurbyggingunni. Núna er einn hlutinn, eiginlega hallirnar, aðallega söfn, annar hluti opinberir mótttökusalir og þriðji hlutinn skrifstofur, íbúðir, klaustur og margt fleira. Hann rís hátt yfir borgina og útsýnið til allra átta stórkostlegt. Maður getur farið upp með togbraut, gengið eða látið ferja sig með strætisvögnum.
Við völdum togbrautina og sáum hvernig útsýnið magnaðist á leiðinni upp.
Og hjálpi mér hamingjan.
Þvílík fegurð sem mætir manni að horfa til norðurs og sjá þetta gríðarlega fljót, sem hóf för sína í Svartaskógi í Þýskaldandi og rennur ýmist í gegnum fjölda landa, eða markar þeim landamæri uns það fellur í Svartahafið í Úkraínu. Ég skil Strauss alveg þegar hann samdi lagið um Dóná svo bláa. Þó svo fljótið sé fjarri því að vera blátt þá er þessi hraðbraut flutninga, sem hún enn er, þessi landamæravörður og þetta listaverk náttúrunnar, ótrúlega glæsileg og í fallegri umgjörð þarna í Budapest. Við eigruðum þarna um og sáum, fljótlega eftir að við komum, smá hersýningu. Allt í einu marseraði flokkur manna í herbúningum inn á svæðið og gengu eftir göngulagi sem var mitt á milli ballets og gæsagangs. Stilltu sér upp og stuttu síðar kom sendiherra Ghana og var vel tekið, fékk að skoða dátana og fór svo til fundar þarna í húsi. Þegar við vorum að fara mættum við bandarískum sendiráðsbíl svo það hefur verið nóg að gera hjá ráðherranum sem við tók í allan dag.
Ég verð reyndar að segja um þennan gæsagangsballett að ef þetta háttarlag og byssusveiflur býr menn undir stríð þá yrði ég hissa. Þetta gæti hins vegar orðið hluti af atriði Monty Python bræðra. Atriðinu um The Minisitry of Silly Walks.
Þegar við hættum að skoða kastalann þá stefndum við upp á næsta fjall en þar er að finna styttu sem þeir kalla Frelsisstyttuna og þykir sumum nóg um. Styttuna reistu Sovétmenn eða gáfu til minningar um hina sovétsku frelsun Ungverjalands undan stjórn nasista.
Þessi stytta fór í taugar fólks og þegar kommúnistaflokkur landsins féll árið 1989 þá var styttan hulin um hríð og í stað áletrunar sem lýsti þakklæti Ungverja í garð Sovétmanna, var kominn texti sem þakkaði öllum þeim sem börðust fyrir frels Ungverja og viti menn - allir sáttir.
Styttan er gríðarlega há og sést víða að.
Gelleirt hæðin þar sem styttan stendur er söguleg. Þarna drápu einhverjir Ungverjar biskup sinn, þarna reistu Tyrkir virki er þeir vildu ná stjórn í landinu, Habsborgara reistu þarna smá virki og hús fyrir vildarvini og svo má lengi telja en styttan er það nýjasta.
Eftir þetta fórum við niður að á og tókum góða siglingu á þessu mikla fljóti og fræddumst um enn fleira.
Við litum á flottan stað.
Það voru afar girnilegar myndir af matnum og mjög spennandi.
Það verður að segjast að heldur hafði hlutum hrakað frá því myndirnar voru teknar. Reyndar á það við um fleiri staði. En maturinn var ágætur. Hér þýðir ekki að biðja um lítið steikt kjöt. Nauatakjötið er vel soðið og vel mjúkt fyrir vikið. Það er veitingahús við hús og þekkjast þau ekki síst af því að þau eru kölluð ,,Traditional" eða ,,Hungarian" og eru öll með mjög sambærilega matseðla. Þannig eimir af fyrrum kaldastríðinu að það eru svona ríkislínur í sumu.
Sigga sagðist hafa rætt við konu sem rak verslun í bænum. Sú sagði að þó svo okkur Vesturlandabúum þyki allt ódýrt, þá eru laun Ungverja lág og allt dýrt fyrir þeim. Hún sagði að nú væru vaðandi uppi ýmis öfl sem vildu Ungverjaland út úr Evrópusambandinu. Sambandinu er kennt um allt sem úrskeiðis fer en, sagði hún með alvöru í röddinni, ,,ef við förum út þá fyrst verður hrun!"

En aftur að matnum sem var allt öðru vísi en myndirnar, við fengum okkur eftirrétti og þeir voru ekkert slor. Nammi!!!
Svo var haldið heim, en borðað á leiðinni á fínum stað og síðan er ég bara búinn að vera að blogga og blogga og blogga - en er að hætta núna!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli