25.6.18

Dagur tvö.

Þegar við risum úr rekkju var gengið í að ganga frá við Matyas svo við gætum komist til Cosmo, hvað við gerðum. Toppurinn á líkkistunöglum Matyas var að við fengum morgunverðarmiða en það var var svo seint að búið var að loka þá þegar...
Við röltum niður Vadi Uti þangað til við komum að húsnúmeri 77 en þar var Cosmo hótelið og var okkur vel tekið. stungum inn farangrinum - your room is not ready so sorry - en við vissum það. Fórum að finna okkur að bíta í morgunmat og mundum þá eftir dóti í töskunum sem nú voru komnar í geymslu hjá Cosmos. Sigga fékk að stinga sér inn í geymsluna sem varla passaði utan um okkar dót hvað þá meir en þá kom Sandra úr mótttökunni og sagði að herbergið væri að verða til. Við fengum lykil og upp á fjórðu (fimmtu á Íslandi) hæð og nú hýrnaði háin á liðinu. Hreint, notalegt, ferlega lítið en who cares!
Við út á götu með tvo miða í hendinni upp á skoðunarferðir um Búdapest. Við fórum fyrst í Basilicu heilags Stefáns en mér skilst að hann hafi verið sá konungur sem sameinaði Ungverja sem síðan þá hafa háð mikla sjálfstæðisbaráttu til að verja þjóðerni sitt og ég mun koma að því síðar.
Basilikan var afar tilkomumikil en tiltölulega ný - reist um aldamótin 1900.
Þar slökuðum við á á torginu og snæddum eitthvað smá og héldum svo aftur í vagninn og stefndum nú upp í gyðingahverfið. Það var magnað að lesa minnisvarða um ofsóknir nasista og ungverskra þjóðernissinna gegn gyðingum, hvernig 70 þúsund manns voru lokuð inni á þessu litla svæði - 14 manns í herbergi, 10 þúsund þeirra dóu á sex vikum. Alls töpuðu 600 þús. gyðingar frá Ungverjalandi lífi í stríðinu. Við röltum um þetta sérstaka hverfi og allt í einu þurfti Sigga að sinna einkaerindum og skildi mig eftir utan við veitingastað. Ég var náttúrulega eins og nátttröll og gat eins vel verið með ljósaskilti sem á stóð Tourist því að mér söfnuðust alls betlarar, mis vel í sambandi auk ráðagóðra einstaklinga sem buðust til að losa mig við betlarana ef ég borgaði þeir eitthvað smá.
Þegar Sigga kom tilbaka snérum við inn í hverfið og önduðum að okkur borgarmenningu, kaffihúsa og svo framvegis.
Þegar út úr hverfinu var komið vorum við komin að óperunni, sem var vafin í tau og stillansa. Þar vorum við komin á stóra verslunargötu, Andrassy, og vildum finna styttuna af Frans Lizt.
Á leiðinni rákumst við á fleira fólk og enduðum á þakbar sem heitir 360°
Áfram var leitað að Lizt og hann fannst í öllu sínu veldi. Nú var stefnt heim því klukkan var farin að halla í sjö (19) og við áttum að vera mætt, uppdressuð, á veitingastaðinn Dónárkrossinn (Dunacorso) kl. 20.
Þar ætluðum við að hitta gullmolana Bryndísi og Helgu og vissum svo sem ekki hverja fleiri.
Alls vorum við ellefu og áttum yndislegt kvöld saman.
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli