29.6.18

Ætlar þetta engan endi að taka?

Dagurinn hófst fallega.
Ég gekk út í háskóla, þar sem ráðstefnan er haldin, og fylgdist með borginni vakna. Ungverjar hjóla mikið, hjálmlausir, og eru svo sem ekki að gera vart við sig, þar sem þeir þjóta framhjá.
Sama gildir um bílana. Ökuþórar vilja fara hratt og negla í bremsu og það er ekki samhjálp þar, miklu fremur hörð samkeppni. Ítalía er svakaleg en Ungverjar toppa það.

Og meðan ég man - hún Hildur Saga á afmæli í i dag!

Alltént þá gengu fundir vel og við Sigga hittumst á kaffihúsi um kl. 13.



Við vöppuðum um bæinn og nutum þokkalegs veður  og sáum s.s. sitt af hverju en vorum svolítið komin í ferðagírinn. Við vorum á götunni eða þannig.


Þar kom í sögunni að við vorum að ganga um aðalgötuna í leit að matarholu sem ekki var ungverskrar ættar þá gengum við fram á heilan hóp kokka og lúðrasveit með.
Við fórum aftur á móti inn á líbanskan stað og fengum alveg hreint ágætan mat.
Við spurðum um kl. 16.45 hvort hótelið okkar, Cosmo, gæti pantað fyrir okkur bíl. Kemur eftir 20 mín, segir vörðurinn í mótttökunni, sem er ca. 60 sm breið borðplata.
Ég næ mér í drykk (óáfengan) og er rétt sestur þegar vörðurinn kemur og tilkynnir okkur að bíllinn sé kominn. Stuttar 20 mín en við út og setjumst upp í nokkurra ára Ford Focus hjá bílstjóra með Michael Schumacher tilfinningar.
Ég sver að mér sýndist standa 2,5 milj kílómetra á teljaranum.
Gæinn allavega ók eins við værum að missa af flugvélinni og ég lokaði bara augunum og tók núvitundaræfingar.
Við komumst í góðan tíma á flugvöllinn og biðum í brottfararsalnum þar sem maður fékk á tilfinninguna að það væri rýming í gangi. Ekkert komið upp um innritun og við bíðum.
Og bíðum.
Og bíðum.
Allt í einu kemur upp hvar sé innritað. Númer 64. Einn bás, ein kona bilað færiband, og á einum bás er innritun,  - bæði fyrir vélina til Brussell og fyrir vélina til Barcelona. Það tók 0,2 sekúndur að lenda í fertugasta sæti í  innritunarröðinni, Ekki svo slæmt. Tvær vélar sinnum 200 manns. Klukkan er 18. Við eigum að vera komin út að flugvél kl. 19:50.
Færibandið bilað. Gengur hægt.
Vigtin bilar.
Gengur hægt.
Við fáum að innrita okkur kl. 18: 55.
Klukkan 18:56 erum við komin í röðina í öryggisgæsluna.
Það er mannhaf framundan og ekkert að frétta.
Jú annars, röðin hreyfist en ekki hratt.
Klukkan 1935 er ég kominn að færiböndunum þar sem maður sendir allt í gegnum eitthvað gegnumlýsingartæki og vona að ég verði ekki tekinn í eitthvað tilviljunarúrtak.
En þá ákveða öryggisverðirnir að taka hóp af fólki með börn fram fyrir mig. Mikið gladdist ég yfir tillitssemi þeirra.
Sigga er komin í gegn. Maðurinn fyrir framan mig sem smyglaði sér með barnafólkinu fer á hnén að reima skóna sína og ég er lokaður af.
Sigga leggur af stað í gegnum Fríhöfnina og hugsar með sér að betra sé að annað okkar nái en hvorugt.
Þegar ég segi excuse me með alvöru þunga í fimmtánda sinn færir maðurinn sig og ég þarf nánast að taka hörungahlaup yfir hann.
Klukkan er 1940 og ég veit ekki hvar flugvélin er eða hversulangt er í hana.
Sigga ekki heldur. Við tökum á okkur stökk, ásamt hundruðum annarra og finnum stórt skilti þar sem standa þessar upplýsingar: FReitthvaðflugnúmer til Brussell, tilkynnt um hlið eftir 17 mínútur.
og við bíðum.
og bíðum.

Ég fullyrði að síðasta mínútan (við tilkynnum um hlið eftir eina mínútu) var alla vega þrjár mínútur að líða.
Hlið A18.
Það voru líka flugvélar í hliði A17, A16, A15, A14 og A12.
Allar þessar vélar að fara á sama tíma.
Og mökkurinn hljóp. Vélarnar áttu að vera að fara.
Minnti mig á Reykjavíkurmaraþon.
Sigga frekar pirruð. Ég var ekki í góðu skapi heldur en hummaði Que sera, sera, what ever will be will be. Man nokkur eftir því?
Okkur var vísað eftir einskonar brautakerfi sem sortéraði mökkinn milli hliða í einskonar litlu flugskýli þar sem farþegar hvers flugs voru í sinni rennu og ég velti því fyrir mér hvort skipulag á íslenskum réttum hafi verið lagt til grundvallar? Er ekki að tala um réttarkerfið heldur réttirnar.
Og við bíðum. o.s.frv.
Eftir nokkra bið var okkur hleypt út í vél og mikið kapp lagt í að smala okkur út og flugfreyja segir ítrekað í hljóðkerfið að allir eigi að finna sér sæti sitt, spenna beltin og gera klárt fyrir flugtak!
Æði. Þetta er að verða komið.
Svo gerist ekki neitt.
Flugvallarstarfsmaður í appelsínugulu endurskinsvesti er á spjalli við flugmennina.
Og við bíðum.
Flugvélin átti að fara kl. 20.20.
En við bíðum...
Af hverju lá svona á?
Og við bíðum.
Klukkan um 21.30 er tilkynnt að seinkunin sé vegna of mikils álags á flugi til Brussell.
Og við leggjum í hann.
Í stað þess að lenda 22.25 þá lendir vélin undir kl. 23.30.
Við eigum rútu í síðasta lagi 23:59.
Við ryðjumst út úr flugvélinni.
Talandi um síld í tunnu.
Hvar var töskufæribandið?
Og við bíðum. o.s.frv.
Greinilegt að töskukallarnir á Charleroi vildu fara að komast heim því þær fóru að skila sér á færibandið.
Kl. 23.40.
Hvar var rútan?
Við náðum og vorum komin í rúturöðina 23:51.
Engin rúta.
Og við bíðum.
Kemur maður og tilkynnir að rútan sé á leiðinni, Fimm til tíu mínútur í mesta lag. Fer á slaginu kl. 00.30.
Hallóoooo?
Og við, - æ, þið vitið hvað.
Kemur rútan 00.05 og öllum smalað inn með hraði.
Og gettu bara hvað?
Jú!
Við biðum!
Úti á stétt eru starfsmenn, - og bílstjórinn, í hrókasamræðum.
Klukkan verður 00:30.
Spjallið heldur áfram og við bíðum. Nema hvað?
Kl. 00:48 fer 23:59 bíllinn af stað frá Charleroi flugvelli til Midi lestarstöðvarinnar í Brussell.
Klukkan að ganga tvö komumst við inn á Midi og við þurftum að bíða í síðasta sinn dagsins, en það var auðvelt. Við vorum sloppin frá kerfum sem sýndu okkur hvorki miskunn eða mildi, hvað þá iðrun.
En Ásta Sigrún var komin. Og hvílíkur léttir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli