23.7.09

Hvert fór sólin?

Þegar ég vaknaði í morgun var himininn grár, það hafði rignt og rokið var kalt. Hafði mig samt á Hvaleyrina náði m.a. sléttu pari með þrjár kúlur af þremur á þriðju braut! Watson hvað?
Segir ekki af öðrum brautum.
Það hefur skánað eftir því sem leið á daginn og núna er glenna úti.
Sumarið hefur verið garðinum gott þó svo aspirnar hafi tekið kast á dögunum en það er hjá og ég held svei mér að ofnæmið sé að skána. Sjáið þessar rósir! Páll Árdal ritaði: ,,hunangið úr fíflunum randaflugan saug" en þarna slógust hunangsflugurnar um plássið! NB myndin var tekin á símann!
Veðrið hefur leikið við okkur og má alveg gera það fram yfir mánaðamót (til 4. ágúst nánar tiltekið...). Tók vinnurispu á þriðjudag og ætla aðeins að hugsa um húshald og ritgerð næstu daga. Ég var að skoða námskeið sem ég þarf að taka. Þar eiga að vera 5 fyrirlestrar á viku og tvei æfingatímar. Hver má vera að því að læra ef alltaf á að vera að hlusta á þessa kennara?
Verst er þó að rósin mín er farin heim. Henni hentar það vel þó afi sakni hennar. Við áttum góða daga. Fyrir utan leik og söng og dans og ljóðalestur voru göngutúrar og sófakúríngar. Best þótti afa þegar foreldrarnir voru hvergi nærri og við vinkonurnar, - ég, Hildur Saga og amma, vorum þrjú að dunda. Hún bara kát með félagsskapinn og enginn ótti við að vera hjá gamla settinu. Ég hlakka bara til að hitta hana í Dublin og vona að ég muni að þar er brúðkaup líka en ekki bara stefnumót við ljósið mitt og rósina mína.
Á maður að láta svona sjást?
Hildur Saga er fagurt fljóð
Flest í mínu lífi bætir
Gefur frá sér hýrleg hljóð
Hressir andann – bætir – kætir!

Líklega í lagi - það les þetta enginn.
Við fórum dagsferð með ömmu og afa á Melhaga og ljúflingunum úr Melbæ á miðvikudag. Hélt að vísu að máttarvöldin vildu ekki að ég færi því það varð allt vitlaust í skólanum um morguninn en það bjargaðist.
Við ókum sem leið lá inn Fljótshlíð og yfir Gilsá inn á Markár-aura og upp á Ein-hyrnings-flatir. Veðrið var einmunagott eins og sjá má af þessari mynd sem er tekin að Eyjafjallajökli og má sjá (líklega) Gígjökul skríða niður í lónið sem er fyrsti faratálminn á leið inn í Mörk!
Undir Einhyrningi, á Einhyrningsflötum, var nestað og hlaupið. Þar voru rifjuð upp gömul ferðaævintýri en Jónsi er hafsjór af þeim enda held ég að hann hafi verið á fjöllum frá því hann fékk bílpróf og fram að því að hann þurfti að fara að vinna fyrir fjölskyldu! Sem er æði. Hafsjórinn hans Jónsa er nefnilega skemmtilegur.
Á þessari mynd sést yfir í Húsadal og gnæfir Valahnjúkur yfir dalnum. Þórsmerkurraninn er það svæði sem ég kynntist sem fjallasvæði. Ferðir með Dodge Weapon 1945 voru ævintýri líkastar og líklega ekki allt til eftirbreytni þar. Það bjargaði áreiðanlega oft að hann komst ekki hratt en örugglega fór hann.
Frá Einhyrningsflötum var haldið upp með fjallinu og að Markár-fljótsgljúfrum. Við hjónin söfnum gljúfrum eða kannski er hún bara að láta eftir mér! Þau eru glæsileg. Þarna er jarðsagan í opinni dagskrá hundruð árþúsunda aftur í tímann. Líklega
voru fyrstu frummennirnir að byrja að kíkja í kringum sig í Afríku þegar neðstu lögin mynduðust. Gljúfrin eru gríðarlega djúp og mikilfengleg. Þau eru 190 metrar þar sem dýpst er og efst í þeim (nær brúnni við kláfana) eru þau víð og hafa brotnað mikið vestanmegin. Barmarnir eru varhugaverðir en víða má sjá vel yfir þau. Þegar horft er beint yfir við bílastæðið sést yfir á veginn í Emstrur og sáust jeppar sem og nærri samfelld röð af göngujöxlum á leið sinni úr Landmannalaugum.
Það sést ekki nógu vel en á neðstu myndinni stendur Hörður frændi minn og horfir yfir gljúfrið. Hann er tíu ára gamall.

Frá gljúfrinu er farið í átt að Lifrarfjöllum og við enda gljúfranna er brú á fljótinu og þar má sjá kláfa við ánna. Farið yfir brúnna og upp hjá hestagerði og skála, til austurs og ekið meðfram Hattfelli. Farinn vegur niður með því austan-verðu og til suðurs og þá er farið austanmegin við gljúfrið og niður í Emstrur. Þar er skáli og Kristján frændi minn segir þá vera auðvelda dagsferð niður í Þórsmörk.
Við fengum góða leiðsögn í Emstrum og fórum til baka upp á F261 til austurs og þarna villtist ég. Ég hélt við stefndum í Krók og Hungursfit en Jón valdi skemmtilega leið. Við fórum um eyðisanda með Emstruánni kolmórauðri. Ekki skrýtið að Markárfljót sé mórautt við Fljótshlíð. Þar hefur hvert mórautt fallvatnið af öðru runnið í það,- t.d. Krossá, Gilsá, Emstruáin, Þröngáin. Hún safnar í sig nokkrum helstu jökulfallvötnum landsins.
Aftur að sandinum. Þegar við nálgumst Stóru Súlu þá er vaðið á Bláfjalla-kvísl. Heldur var það grafið en ekki breitt. Ég fór helst til hratt í það en slapp upp úr og kátur með Grána. Áfram haldið og næst var Kaldaklofs-kvísl (sjá mynd). Um hana er sagt að það séu steinar sem liggi í boga öðru megin og myndi brot en hinu megin einn steinn. Fara á á milli þeirra en alls ekki ef yfir þá flýtur. Botninn er grófur og við vorum svo heppin að fá fylgd frá bíl frá Hjálparsveitinni í Hveragerði. Við fórum þetta létt og vorum kát.
Þessar tvær ár eru þó sagðar skæðar ef þær eru vatnsmiklar.
Nú var farið í Hvanngil, um Ófæru-höfða, Bratt-háls, með Torfa-tindum og í Launfit. Þarna skiptast á sandar og gróin svæði, óskaplega falleg fjöll.
Við Laun-fitjar-sand er farið yfir Markár-fljót sem þarna er nánast tandur-hreint og greinilegt að það er alveg hægt að drulla út fallegt og tært vatn. Undir Laufafelli er svo fallegur lækur þar sem vegurinn liggur í farvegi lækjarins um hálfan kílómetra og eftir það tekur hraunið við, Langvíuhraun, Skógshraun og önnur Hekluhraun, niður með Hafrafelli og að Gunnarssteini.
Allt í allt var dagurinn frábær, félagsskapurinn, landið, matur og hvað eina!
350 km og 12 klukkustundir. Frábært!

1 ummæli:

  1. Ertu nokkuð kominn í bloggfrí? Bíð spennt eftir næsta.

    Kv. Sandra

    SvaraEyða