Þegar þessi spurning er sett fram þá fer sagnfræðingurinn í heimildir.
Bækur um íslenska sögu fjalla aðallega um skólahald,- hinn ytri ramma, frekar en innra starf (Saga Íslands VI, 2003; Saga Íslands VII, 2004; Saga Íslands VIII, 2006). Danskur fræðimaður, Harry Haue gerir hins vegar grein fyrir því að fram á 19. öld undirbjuggu latínuskólar eða einkaaðilar drengi undir inntökupróf í Hafnarháskóla (Haue, 2004). Það voru síðan straumar sunnan úr álfu sem fóru að hafa áhrif. Comenius, Herbart og fleiri höfðu m.a. áhrif á skrif Lütkens. Hann fjallaði m.a. um víðtækari hlutverk skólans (Haue, 2004).
Um 1845 komu síðan kenningar fram sem leiddu til þess að stofnaðir voru skólar með lokaprófi sem opnaði nemendum leið í Kaupmannahafnarháskóla, í stað þess að nemendur þreyttu inntökupróf við háskólann. Prófið var kallað stúdentspróf (studentereksamen) og var fyrst tekið við skóla í Óðinsvéum árið 1846 (Haue, 2004).
Skólarnir voru kallaðir Lærðir (lærde skoler) eða gymnasium að forngrískum fyrirmyndum sem vísa í menntun líkama og anda en seinna nafnið festist víða um hinn þýskumælandi heim.
Það er um þetta leiti sem umræður stóðu sem hæst um að leggja niður Bessastaðaskóla og flytja hann til Reykjavíkur. Á sama tíma ritaði Jón Sigurðsson grein (Jón Sigurðsson, 1842) þar sem hann lýsir þörfum samfélagsins fyrir skóla. Um þá grein hafa margir ritað og talið hann leggja grunn að skiptingu náms í bóknám og verknám, jafnvel fjölbrautaskóla(Jón Torfi Jónasson, 1992).
Lærði skólinn tók til starfa árið 1846 og útskrifaði stúdenta sem m.a. áttu aðgang að Hafnarháskóla.
Tilgangur þessarar upprifjunar var að sýna að upphaflega kemur þetta próf í stað inntökuprófanna í Hafnarháskóla. Námskipan Lærða skólans og hugmyndafræðileg þróun hans er ekki til langrar umræðu hér. En er þessi skýri tilgangur eins ljós og hann var?
Síðustu fjörutíu ár hefur umræðan um stúdentsprófið staðið nokkuð linnulítið. Hún hófst af krafti á sjöunda áratug 20. aldar. Þá voru teknar ákvarðanir um skólamál sem áttu að skilgreina skólakerfið og opnuðu nýjungum leið. Hér er átt við Lög um menntaskóla sem samþykkt voru 1970 ("Lög um menntaskóla nr. 12/1970.," 1970). Í frumvarpstexta laganna og athugasemdum hans er m.a. talað um að nefndin vilji tryggja skólunum „þá ábúð og það svigrúm, sem þörf er á til áframhaldandi tilrauna, endurskoðunar og umbóta í hverjum skóla fyrir sig.” Og „að setja þeim markmið og leggja megindrög að skipulagi þeirra, þannig að eigi skorti sameiginleg [svo] umgjörð um starf þeirra allra, þótt þeir haldist eigi í hendur um hvaðeina.” Einna merkilegasta hugmyndin er þó sú sem lesa má í 11. gr. og athugasemdum nefndarinnar en það er að stúdentspróf sé heildarheiti á menntun og lærdómi nemandans þegar hann hefur uppfyllt allar kröfur skólans en ekki einstök lokapróf. Þá er fjallað um mikilvægi þess að taka upp annað próf við hlið stúdentsprófsins sem sé ætlað þeim sem ekki ætla í háskóla. (sjá nánar Frumvarp til laga um menntaskóla, Alþingistíðindi,1968 (Alþingi, 1974), A3, bls.1190-91, Frumvarp til laga um menntaskóla (Alþingi, 1974), Alþingistíðindi,1968, A3, bls. 1191-2).
Í frumvarpinu um menntaskóla frá 1970 er talað um „nokkurn hóp“ sem þurfi ekki eða vilji ekki nýta sér réttinn til inngöngu í háskóla. Þetta er kallað breikkun á starfssviði menntaskólanna ("Lög um menntaskóla nr. 12/1970.," 1970). Í 17. gr. lagana frá 1988 er vísað í aðalnámskrá þegar talað er um stúdentspróf ("Lög um framhaldsskóla nr. 57/1988. ," 1988). Í aðalnámskránum eru svo fjölmargar brautir kallaðar bóknámsbrautir og sagt að þær veiti „allan heppilegan undirbúning “ til náms á háskólastigi (Námskrá handa framhaldskólum, 1987). Í lögunum 1996 segir í 16. gr. „ Bóknámsbrautir veita undirbúning að námi á háskólastigi.“ Um stúdentspróf er hins vegar aðeins talað með hliðsjón af samræmdu prófi ("Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996.," 1996).
Rétt er að taka stöðuna áður en lengra er haldið.
Stúdentsprófin eru smíðað á 19. öld, í Danmörku, til að leysa af hólmi inntökupróf í Hafnarháskóla. Það hlutverk virðist haldast með nokkuð óyggjandi hætti framundir umræður sem fram fóru á sjöunda áratug 20. aldar. Þá fær stúdentsprófið annars vegar þá þýðingu að veita inngöngu í háskóla og hins vegar almennan tilgang. Þetta er síðan undirstrikað í lagasetningu 1988 með því að tala um bóknámsbrautir sem veiti þennan aðgang en látið ráðast af hefð hverjar eru stúdentsbrautir. Þetta er enn undirstrikað 1996. Í þeim lagabálki verða markmiðsgreinar laga um framhaldsskóla og grunnskóla jafnframt samhljóða ("Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996.," 1996; Lög um grunnskóla," 1995).
Hver er þá kjarninn? Byrjum á að skilgreina hvað átt er við með kjarna!
Hér vandast málið. Kjarni stúdentsprófsins er að veita aðgang að háskólum. Frá því lögin um skólakerfi voru sett hefur þetta verið grunnatriði ("Lög um skólakerfi nr. 55/1974.," 1974). Í þeim lögum sem sett voru um háskóla eftir það hefur þetta verið áskilið (1997, 2006 og síðast 2008 ("Lög um opinbera háskóla," 2008). Hér er að þrennu að hyggja.
a. Stúdentsprófið hafði frá 1970 ekki einvörðungu það hlutverk að veita stúdentum aðgang að háskólum. Það fékk líka einskonar samfélagslegan tilgang.
b. Lög um háskóla kváðu á um að stúdentspróf veitti aðgang að háskólum, lengi án annarra takmarkana.
c. Frá 1988 til 2008 er talað um bóknámsbrautir til stúdentsprófs í aðalnámskrám (sjá vef mennta- og menningarmálaráðuneytis - http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar//nr/3961).
Þarna er því komin viss misvísun í umræðuna. Kjarni stúdentsprófsins er tvíþættur. Annars vegar sem hluti af markmiðum framhaldsskólans (sbr. 2. gr. laga um framhaldsskóla) og hins vegar sem undirbúningur undir háskóla. Sem slíkt er stúdentspróf því samheiti yfir lokapróf af bóknámsbrautum (heildarheiti á menntun og lærdómi nemandans þegar hann hefur uppfyllt allar kröfur skólans en ekki einstök lokapróf). En hver er þá kjarni þess?
Nú fer að verða fróðlegt að rýna í umræðu áratylftarinnar milli 1996 og 2008.
Er kjarni þær greinar sem allir þurfa að taka? Er kjarninn það sem háskólar áskilja sem nauðsynlegan undirbúning? Er kjarninn það sem framhaldsskólinn vill að kennt sé?
Í ljósi þessara athugasemda er fróðlegt að greina hvað stýrir umræðunni um stúdentsprófið. Þegar hugmyndir háskóla eru skoðaðar þá eru almenn inntökuskilyrði stúdentsprófið. Þegar hugmyndir framhaldsskóla eru skoðaðar þá er stúdentsprófið markaðssett sem aðgöngumiði að háskólanámi. Þegar væntingar nemenda og foreldra eru skoðaðar vilja flestir nemendur verða stúdentar. Kennarar tala um að standa vörð um stúdentsprófið.
Það „að standa vörð“ er svo íhugunaratriði þegar annars vegar er hugsað um margbreytilega samsetningu stúdentsprófs og hins vegar margbreytilega framsetningu þess.
Í mikilli uppáhaldsbók, sem birtist vestanhafs árið 1939 er einmitt varpað fram spurningum um það hvort róttækar nýjungar geti fest svo í sessi að þær verði íhaldssömu staðreyndirnar sem alltof margir haldi fast í, án þess að vita hvers vegna (Benjamin, 2004). Benjamin ritaði bókina raunar undir dulnefni og skýrir mál sitt vel í fyrirlestrinum um Sverðtígursnámskrána.
Getur verið að hugmyndir hans eigi við hér á landi? Má vera að hugmyndir manna um íslenska stúdentsprófið séu íhaldssamar? Fróðlegt er að lesa skýrslu UNESCO frá 2006 (Gauthier, 2006). Í skýrslunni má sjá hversu ólíkar hugmyndir eru á ferð í heiminum en Gauthier heldur því þó fram að um tvær meginstefnur sé að ræða. Önnur sé byggð á fáum námsgreinum sem séu skoðaðar ítarlega en hin á sjónarhóli almennrar og fjölbreyttrar þekkingar. Munurinn sé ekki augljós þegar í háskóla sé komið. Spurningar um innihald eða aðferð, miðstýrðan skóla eða dreifstýrðan séu mikilvægar en algild lögmál sé erfitt að finna (Gauthier 2006, t.d. bls. 56-60).
Hver er þá kjarni málsins?
Er hægt að greina hvað hefur stýrt umræðunni um stúdentspróf frá (1994) (2001) til lagasetningarinnar 2008?
Heimildir
Frumvarp til laga um menntaskóla. (1974).
Benjamin, H. R. W. (2004). The saber-tooth curriculum (Classic ed.). New York: McGraw-Hill.
Gauthier, R.-F. (2006). The content of secondary education around the world: present position and strategc choices. UNESCO: UNESCO.
Haue, H. (2004). Almendannelse for tiden. Odense: Syddansk universitetsforag.
Jón Sigurðsson. (1842). Um skóla á Íslandi. Ný félagsrit, 2(2), 67-167.
Jón Torfi Jónasson. (1992). Þróun framhaldsskólans : frá starfsmenntun til almenns bóknáms. Uppeldi og menntun, 1992; 1 (1): s. 173-189.
Lög um framhaldsskóla nr. 57/1988. , (1988).
Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996., (1996).
Lög um grunnskóla, (1995).
Lög um menntaskóla nr. 12/1970., (1970).
Lög um opinbera háskóla, (2008).
Lög um skólakerfi nr. 55/1974., (1974).
Námskrá handa framhaldskólum. (1987). (2. útgáfa ed.). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
Saga Íslands VI. (2003). (Vol. VI). Reykjavík: HÍB, Hið íslenska bókmenntafélag.
Saga Íslands VII. (2004). (Vol. VII). Reykjavík: HÍB, Hið íslenska bókmenntafélag.
Saga Íslands VIII. (2006). (Vol. VIII). Reykjavík: HÍB, Hið íslenska bókmenntafélag.
Gód og áhugaverd grein pabbi. Mér finnst thú hefdir getad kafad adeins dýpra og lyft upp fleiri tháttum í sídustu málsgreininni samt. Thad er greinilegt ad thú hefur eitthvad specific í huga en er torsjáanlegt fyrir lesanda sem hefur hvorki lesid Benjamin eda Gauthier...
SvaraEyðaSmá paeling bara.
Thad var mér hins vegar baedi hollt og gott ad lesa greinina, og ég aetla ad byrja ad grennslast fyrir hver saga thessara mála er hérlendis, thví hér er einmitt lika talad um stúdentspróf, en á, ad thví er virdist svolítid ödruv´sisi forsendum. Öldungadeild (komvux) thar sem nemendur geta "lesid upp einkunnir"( baett einkunn í e-u efni eda baett vid sig efni sem thau slepptu í framhaldsskóla) er eitthvad sem á sér hlidstaedu á Íslandi en er thó önnur hefd kringum. Og svo geta allir tekid "háskólapróf" ad auki... sama hver einkunnin er úr framhaldsskóla. Thad má taka eins oft og madur vill líka. Thad baetir samkeppnisstöduna um háskólapláss í efnum med fáum stólum en er ekki síst til ad komast inn í nýjan kvótaflokk til skráningar í efnin...
G
það stóð til/stendur til að bæta við lokasetningarnar!
SvaraEyða