8.3.10

Hverskonar lýðræði vann?

Nú þegar atkvæðagreiðsla um icesave er frá og stjórnmálamenn sitja hjá Agli Helgasyni og sýna vanmátt sitt því þeir þora ekki að segja sannleikann um það sem gerðist má spyrja hvers konar lýðræði er á Íslandi í dag?
Stjórnarskráin tók gildi 17. júní 1944. Henni hefur verið breytt með l. 51/1959 (tóku gildi 20. ágúst 1959), l. 9/1968 (tóku gildi 24. apríl 1968), l. 65/1984 (tóku gildi 13. júní 1984), l. 56/1991 (tóku gildi 31. maí 1991), l. 97/1995 (tóku gildi 5. júlí 1995), l. 100/1995 (tóku gildi 5. júlí 1995) og l. 77/1999 (tóku gildi 1. júlí 1999).

Því sem hér um ræðir hefur ekki verið breytt.

Í henni segir: (m.a.) í 1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Í 2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Úr þessu má lesa að þrískipt ríkisvald er tvískipt. Það er þingið fer bæði með framkvæmda- og löggjafarvald.

Þá segir í 3. gr. Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn.

Forseti Íslands var ekki þjóðkjörinn 1944 heldur var hann kosinn af þinginu. Sveinn Björnsson var sjálfkjörinn 1945 og 1949 en lést í embætti 1952. Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn það ár en var sjálfkjörinn 1956, 1960 og 1964. Kristján Eldjárn var kosinn 1968 og var sjálfkjörinn 1972 og 1976. Vigdís Finnbogadóttir var kosin 1980, sjálfkjörin 1984, vann lítt marktæka kosningu 1988 og var sjálfkjörin 1992. Ólafur Ragnar var kosinn 1996, sjálfkjörinn 2000, kosinn 2004 með heldur ómarktæka frambjóðendur gegn sér og sjálfkjörinn 2008.
Með öðrum orðum tilefni til forsetakjörs hafa verið 18. Alþingi kaus einu sinni, sex sinnum var kosið og 11 sinnum var ekki kosið. Hvert er lýðræðislegt umboð forsetans?

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.
15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

og loks

26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Nú vakna spurningar um tvennt? Getur ofangreint skipulag litið svona út?

og
hvaða afleiðingar ætti atkvæðagreiðslan að hafa?

Gefum okkur að myndin sé rétt og með hliðsjón af sögu forsetakosninga þá væri ekki óeðlilegt að líta svo á að forsetinn hafi vart lýðræðislegt umboð. Þar með er hann að haga sér eins og menntaður einvaldur 19. aldar og segja við þingið að það sé ekki fært um að fjalla um málið.
Þá tekur þjóðin við og 93% þeirra 66% sem voru á kjörskrá eða 61,4% kosningabærra manna (sem er klár meirihluti) tekur undir með forsetanum.
Er hann þá bæði búinn að fá neitunarvald (fjölmiðlalögin 2004) og löggjafarvald?

Hafandi hlustað á forystumenn íslensku flokkanna rífast eins og krakka í sandkassa og upplifa það að Birgitta blessunin var langvitrænust situr eftirfarandi í mér:
  • Ríkisstjórnin tapaði þessari kosningu og á að fara frá.
  • Þingið tapaði þessari kosningu og það á að leysa upp.
  • Það á að boða til kosninga.
  • Þingið gat ekki klárað málið og forystumenn stjórnmálaflokka þurfa að endurmeta stöðu sína.
Við hvers konar lýðræði búum við??
  1. Þingið gat ekki klárað málið.
  2. Menn sitja og hafa í hótunum hver við annann.
  3. SJ Sigfússon er enn að ræða stöðu íhaldsins vegna bankahrunsins.
  4. Forsetinn hefur tekið löggjafarvaldið til sín.
Er þetta lýðræðið sem við viljum? Að sjálfkjörinn Bessastaðabóndinn hafi meira vald en þjóðkjörið þingið? Að horfast í augu við að þingið sé svo læst í hagsmunabaráttu að það geti ekki rætt flókin mál í raun og veru?

Hvaða lýðræði vann?

2 ummæli:

  1. EINMIT!. Ég er nánast alveg sammála þér.Fyrir utan það að ég held að það geri nákvæmlega ekkert gagn að kjósa aftur eða leysa upp þessa ríkistjórn- ég held að það ætti sérstaklega að halda Sigmundi Davíð og Bjarna Ben(veit að þú nefndir þá ekki sem valmöguleika) eins langt frá forystutaumunum og hægt er.

    Hinsvegar finnst mér að Íslendingar ættu að fara að fara að átta sig á hlutunum, og umræður um sigur lýðræðisins í þessum kosningum eru fáránlegar.

    a) Þetta voru kosningar um úreltan hlut- betra tilboð var á borðinu. Ég held að Ríkisstjórnin hafi ákveðið að taka slaginn- fyrir þjóðina nánast og láta verða af þessari kosningu til þess að fólk fengi á tilfinninguna að það hefði áhrif.

    b) Vindhaninn á Bessastöðum lætur núna líklega af störfum sem "lýðræðislega kosin þjóðhetja" þegar hann er ekkert nema hrunadansari- sem á ekkert betra skilið en að vera hýddur á Ingólfstorgi í beinni á RÚV.

    C)Ég held að allir ættu að spara stóru orðin og hefja tiltektina. Einsog ég sé stöðuna þá erum við í djúpum skít, höfum verið þar í að verða tvö ár núna, og sökkvum bara dýpra ef eitthvað er. Björgunarstarfið þarf að vera víðtækara og betur skilgreint og kynnt fyrir þjóðinni- sem þarf líka að hætta að streytast á móti öllum tillögum sem koma. Ég held að fókið sem vill að það eigi aðlækka skatta- hætta að skera niður og tryggja öllum atvinnu æti að taka niður sólgleraugun og horfast í augu við raunveruleikann.

    Ég hlakka ekki til að koma heim í þetta helvítis skítadæmi, og vona að við förum að vakna af þessari martröð. Hinsvegar er það alveg ljóst að við gerum það aldrei ef við erum stannslaust í afneitun.

    og já... P.S.
    Og vonandi tekur umheimurinn því ekki mjög nærri sér þegar Birgitta er farin að hljóma sem sú manneskja sem er með bestu yfirsýnina á hlutina- er ansi hrædd um að möndulhjalli hans skekkist þá ennþá meira en hann hefur gert undanfarið!

    SvaraEyða
  2. Ég hefði nú átt að lesa betur yfir þetta áður en ég ýtti á Post, en ég held að þú skiljir hvað ég á við:)

    SvaraEyða