17.7.11

Frá Pisa til Genóa – fyrri hluti

Klukkan er hálf níu á sunnudagsmorgni þess sautjánda í Liuigli eða júlí. Ég sit og er að velta fyrir mér hvort ekki sé best að byrja að lýsa þeirri yndislegu borg Lucca á meðan ég hlusta á andardrátt minnar heittelskuðu sem á miklu betur með morgunsvefn en ég.
Við skulum ekkert fara út í hvort ég sofna standandi eða sitjandi á kvöldin. Se la vie!

Smá um kunnáttu ítalskra í ensku.

Það er all svakalega fyndið að lesa leiðbeiningar sem settar hafa verið á önnur mál. „We will remember you not to do“ stóð á einum stað. Og á lestarstöð stóð „to the letters of the formal law (nr) it is legally forbidden by punishment...“ og hér á hótelinu er verulega fyndinn miði. „Our staff is at your completely disposal to provide pillows, blankets and anything else you consider additional necessary for a good stay.“

Annað sem vekur athygli mína, skólaskipuleggjandans. Biðröð – hvað er nú það? Maður stendur á stoppistöð eða lestarpalli og þegar vagninn opnast þá mega þeir sem eru inni þakka fyrir að komast út. Hins vegar er fólk afar lipurt og brosmilt þegar maður talar við það og í gærkvöldi, á leið heim frá Lucca, gengum við fram á gelateriu eða ísbúð og leituðum leiðsagnar. Ólétt ung kona vildi bara skutla okkur, no problemo! Við afþökkuðum kurteisislega.

Lucca er, hélt ég, lítill bær hér rétt norðan við Pisa (sem meðan ég man stendur við fljótið Arno eins og Flórens!). Lucca er gamall bær og þar eru ábyggilega minjar frá Etrúrum, sem héldu m.a. Toscaníu áður en Latverjar (seinna Rómverjar) fóru í útrás. Til eru minjar um rómverskar herbúðir þarna sem síðar þróuðust í smáborg.




Eitthvað hafa íbúar Lucca haft að verja því borgin er í dag umlukin 12 m háum varnarmúr sem er jafnframt þykkur og innangengur þannig að ef varnir frá múrnum brustu og óvinurinn komst upp á múrinn (yfir síkið) þá tók við annar múr en heimamenn gátu dvalist inni í múrnum eða flutt menn og vistir um göngin í múrnum þangað sem þurfti.

Lucca er afar Toskaníuleg að sjá með þessum slútandi þökum sem oft virðast ná yfir húsasundin. Húsasundin bera þess merki að lóðirnar voru gjörnýttar enda er lítil umferð bíla um sjálfa miðborgina, svolítið af vespuliði sem heldur að það sé í mótorkrossi en mikið um hjól. Og konurnar eru alveg jafn óðar og karlarnir á hjólunum.









En megin aðdráttarafl Lucca alla tíð var öryggið, verslunin og matvælin sem þangað bárust og berast enn. Við gengum örstutta leið frá lestarstöðinni og fléttuðum okkur um húsasund að Duomotorgi. Dómkirkjan er misgömul. Elsti hlutinn er frá 9. öld en megin kirkjan frá 11. öld en síðan þá hefur hún verið í byggingu, lagfæringum og eins og víðar þetta sumar eru stillansar um alla kirkju og stórir hlutar hennar í felum. Það setur smástrik í stemmninguna en hvolfið yfir altarinu er með einni af þessum fresko myndum af upprisunni sem eru svo víða og er frá upphafi 17. aldar. Það var nú bara þannig að eftir að Michaelangelo hálfdrap sig á vinnunni við Sixtínsku kapelluna þá vildu allir fá svoleiðis í loftið, samanber dóminn í Parma, sem var eins og teiknimyndasería.

En þetta er ekki Michaelangelo Buanarotti.

En kirkjan er stórfengleg að utan, öll sett rómönskum bogum og styttum sem segja, þeim sem þær skilja, helgisögur úr biblíunni eða af dýrlingum sem voru kærir heimamönnum. Torgið þarna við, og næsta torg (Napóleonstorg), göturnar þar á milli og XX septemberi torgið (það er eitt svoleiðis í hverri borg sýnist mér) eru þakin básum og borðum sem eru antík markaður. Við rétt kíkjum, ég máta montprik sem eru of stutt, segi við konuna „i‘m too long for Italy“ og þessi yndisfagra kona (eða hún varð það allt í einu) sagði „no, no, senior. Italy is too small for you!“
Á öðru borði sá ég gömlu myndavélina mína, fyrstu alvöru myndavélina sem ég átti, keypta í Nottingham 1977. Mikið var það góð vél! Canon Ftb, eða öllu heldur alveg eins. 125 €, „but its brand new“ segir hann og meinar að hún sé ónotuð. Ég á svona, segi ég, og aðra sem er Canon F1. Hann voða uppveðraður vill láta mig fá 200 € fyrir hana, ef hún er „bella minta“ en þar sem mín er í skáp á Íslandi verður lítið úr samningum. Hann vill selja mér vél en ég vík mér undan. Á fulla tösku segi ég og kveð.

Við finnum kaffihús til að vinna upp koffintap.

En Lucca er yndi. Við San Stefanó torgið tel ég alla vega þrjár kirkjur þó Stefanó gnæfi yfir og sé aðal. Þar situr handalaus maður og málar með því að setja pensil í munninn og mér finnst þetta afskaplega vel gert. Kannski ég ætti að gera svona frekar en fótósjoppa myndir?

Á öðrum stað eru hressir karlar á áttræðisaldri og spilar annar á klarinettu en hinn á gítar. Gítarspilarinn dansar um allt og þeir spila lög sem ég þekki frá Dean Martin eða Sinatra eða Bogomil Font og heita That‘s amore og buonosera senjorina. Hálft torgið hummar með á ítölsku, ensku, þýsku, flæmsku og íslensku. Það eru ógrynni af Þjóðverjum og Niðurlendingum hér. Minna af Könum og Bretum en í Flórens. En það er mökkur af fólki.

Húsasundin eru þéttskipuð litlum restauröntum og svo eru mismerkilegar búðir en við gleymum okkur helst (bæði) í matvörumörkuðunum.

Þarna er San Frediano sem er fræg fyrir bysanska mosaik mynd á gaflinum. Hana hefur þurft að laga svo oft að óvíst er að nokkuð sé eftir af upprunalega verkinu en faleg er myndin.

Svo erum við komin að norðurenda gömlu borgarinnar, hliðinu við Porta Borgia og stefnt í suðaustur. Þar er komið út úr erli verslunarinnar í íbúðarverfi og skyndilega eru hús sem liggja i boga fyrir framan okkur. Bókin segir að þetta séu hús sem hafi upphaflega verið byggð utan um hringleikahús en það sé horfið. Þarna er húsasund eða undirgöng og við í gegn og enn ein perlan í safn minninganna verður til.

Ef lukkan leikur við þig og þú ert í Lucca þá leitar þú uppi Piazza Anfiteatro. Yndislegur staður. Veitingahús, skrýtnar búðir og huggulegheit.

Við þvælumst um og svo finn ég mér veitingahús sem selur hvítvín (mjög erfitt) og svo kemur Sigga og svo er setið og andað og sötrað. Sérstakt torg og fallegt mannlíf.

Og svona líður dagurinn. Þegar hallar að kveldi leitum við uppi lítinn stað í húsasundi. Sigga fær sér carpaggio úr aubergine eða eggaldini, þunnt skornu með tómötum, mossarella, basil og olíu en ég fæ mér tortellini að hættu Lucca og sver að ég kaupi aldrei tortellinni en bý það til sjálfur!

Á Napóleonstorgi eru antiksalarnir að hafa sig á braut en ungar stúlkur (og stöku strákur) steðja þangað mjög falleg og fín. Amy Winehouse er með tónleika í kvöld á sumarfestivalinu sem er alltaf í Lucca í júlí. Í gær voru BB King (85 ára) og Joe Cocker (sem ég hélt reyndar að væri dauður). Ég hefði verið til! Í fyrradag var Elton sem er ýmist degi á eftir eða undan okkur. En svona er þetta. Við forðum okkur ásamt eldra fólkinu og leyfum þessum fallegu ungmeyjum og fylgdarsveinum þeirra að taka yfir miðbæinn í Lucca. Vonandi verður Amy flott og allir kátir!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli