Þessi fyrirsögn kann að virðast skrýrtin. En ég er að tala um ára, ár og árar.
Í mörg ár hef ég talað um þá áráttu manna að kerfisbinda hluti og kenna svo kerfunum um.
Dæmi: Það hroðalega ástand sem skapast hefur í kringum forystumenn kirkjusafnaða ( í USA, á Íslandi og víðar) vegna meintrar og sannaðrar misnotkunar, sérstaklega á börnum, hefur ekki með kristni að gera heldur siðblindu manna.
Annað dæmi: Kommúnisminn sem féll í Austur Evrópu um 1990 var ekki Marxisminn eða Owenisminn sem lýst var á 19. öld. Hann var einræði og kúgun valdasjúkra einstaklinga og vina þeirra.
Slíkir árar hafa árum saman og öldum saman misnotað stöðu sína í skjóli kerfa, notað kerfin og misnotað. En það efa ég að Kristur hefði skrifað upp á barnamisnotkun, krossferðir, galdrabrennur... Eða Marx og Owen upp á Gúlök og pólítíska skoðanakúgun. Allt þetta voru afleiðingar þess að til valda komust einstaklingar sem misnotuðu aðstöðu sína í stóru sem smáu.
Að sama skapi er afskaplega þreytandi að hlýða á átök þar sem þessari stefnunni eða hinni er kennt um efnahagsástandið sem hér skapaðist. Þessi umræða hefur staðið árum saman.. Hvar er Nýja Ísland? Hverjir lásu Rannsóknarskýrsluna og drógu af henni lærdóm?
Afar gott dæmi er sá sjálfstillti hegðunarmáti (default?) VG að bregðast við allri gagnrýni með að kenna kapítalisma og frjálshyggju um, sjálfstæðisflokknum og svo framvegis en stimpla sig hvíta og saklausa af öllu. Að sama skapi er jafnþreytandi og bragðlaus tuggan þeirra Bjarna og Sigmundar um ofsköttun og efnahagslega frystingu. Og þetta naglaklór er jafn skaðlaust og naglaklór er.
Þetta er ekki síst vandræðalegt þegar kemur að gjaldmiðilsumræðu og Evrópusamstarfi því þá hrökkva þessir flokkar í hagsmunagírinn. Það þarf að verja bankana, atvinnulífið, krónuna, bændurna, sjávarútveginn og svo framvegis.
Þegar maður svo les Stefán Jón Hafstein í TMM og sér að það eru fleiri en ég að hugsa um þennan Nepótisma sem hér ríkir, bræðralagshugsun, svo ekki sé talað um þrönga hagsmunavörslu og innilokunarstefnu, þá gleðst ég. Ég er þá ekki einn í þessari geggjun!
Hún birtist til dæmis mjög sterkt hjá forystu VG í tali þeirra gegn Evrópu, með krónunni o.s.frv.
Mér finnst t.d. fyndið að hlusta á þessa blindu allaballa framsóknar umræðu. En hræðilegt að sjá hvernig hún er kokgleypt. Hverju bjargar krónan? Krónan er bara áhald eins og smjörhnífur. Og jafn bitlaus.
Þetta eru sömu rökin og að kenna byssum um morð en ekki þeim sem skaut. Eða bíl um að valda slysi en ekki þeim sem ók. Í besta falli aðstæðum.
Eða - Árinni kennir illur ræðari...
Þeir hafa sýnt það VG menn og konur að þetta fólk er í sömu hagsmunavörslunni og aðrir flokkar. Það er ágætt. Það er um að gera að tryggja það að bankarnir skili arði. Að lífeyrissjóðirnir geti haldið uppi arðsemi. Að bændur geti varist samkeppni. Að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að sukka með kvótann.
Ef þetta færi til h******s þá værum við í vondum málum. En þetta er allt á uppleið er það ekki?
Hvað gerist ef fólk getur ekki greitt lánin sem halda uppi arðsemi bankanna? Eða lífeyrissjóðirnir eignast eignirnar sem þeim eru veðsettar? Eða við viljum alveg eins fá skynsamlega verðlagða matvöru ein og verndartollaða? Ekki síst þegar við heyrum um hversu hrein sú íslenska er - Sjá hér og hér. Þú veist hvaðan það kemur er það ekki?
Hagsmunagæsla, vináttuhyglingar, og svo framvegis eru það sem rannsóknarskýrslan fordæmdi. Hún fordæmdi líka siðblindu, óheiðarleika og margt annað.
Ekkert þessara hugtaka hafa með pólítísk eða efnahaglseg kerfi að gera. En kerfi geta öll umsnúist á grundvelli manna sem eru siðblindir, óheiðarlegir, hagsmunapúkar og klíkubræður.
Það er málið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli