Ég hef oft velt því fyrir mér hversu illa haldin við séum hér á landi vegna þjóðrækni. Einnig hver sé munurinn á þjóðrækni og þjóðernisstefnu og þá þjóðernissofstæki...
Það er gömul söguleg hefð fyrir því m.a. í í slenskum sagnfræðiritum, að kenna frönskum byltingarmönnum um þessa hugsun. Einnig er algengt að kenna Bandaríkjamönnum um og þar með er verið að horfa á tilkomu ríkja sem voru ekki með konungdæmi. Þessi ríki vantaði sameiningartákn þar sem hvorki kirkjan eða konungdæmið gátu gegnt því hlutverki. Þá var næsti kostur ríkið og síðan notuðu Frakkar t.d. hugtök eins og bræðralag, móðurmál og föðurland.
Staðreyndin er hins vegar sú að það var þjóðverji, sem bjó í Lettlandi sem fyrstur orðaði þessa hugsun en hann hét Herder.
Hugtakið þjóð er hins vegar afar merkilegt og notað afskaplega misjafnlega. Við erum t.d. þjóð Íslendingar. Við fylgjumst með löndum okkar og afrekum þeirra, en þeir eru margir t.d. erlendis. Sumir eru/voru ekki endilega Íslendingar. Thorvaldsen var af íslenskum ættum en fæddur í Danmörku og kom aldrei hingað til lands. Það er Íslendingur í danska landsliðinu í handbolta sem svipað gildir um.
Bandaríkin eru líka gríðarlega þjóðernismeðvitað ríki en það byggir á menningarlegri fjölbreytni og innflytjendum. Vissulega eru valdaöflin þar af evrópskri rót og því er evrópskur hugsunarháttur ríkjandi en þegar á reynir vita bandarísk stjórnvöld að fjölbreytnin er það sem landið byggir á, ekki síst í vísindum og menntun.
Þetta skiljum við ekki. Við erum Íslendingar og fólk af erlendu bergi brotið, sem hér býr áratugum saman er útlendingar alla tíð. Það hversu vel við tökum á móti þeim ræðst mikið af því hversu fljótt þetta fólk lærir íslensku.
Fólk í kringum mig, margt hvað, talar um útlendinga sem eitthvað hættulegt. Útlendingar eru vandamál og einangrast o.s.frv.
En það eru ekki útlendingarnir sem eru vandamál. Það erum við, sem ekki tökum á móti þeim heldur höldum þeim sér. Við sem einangrum okkur sjálf víða erlendis, höldum fast í okkar venjur, siði og tungutak. Við sem erum svo meðvituð um uppruna okkar og merkilegheit.
Sem voru hver?
Líklega helst þau að við varðveittum íslenskuna. Sem er töluð af innan við 0,00005% mannkyns. Ekki er það nú meira sérlega merkilegt. Ekki lýsa Íslendingasögur endilega fögru mannlífi sem byggir á skapandi hugsun, djúpstæðri menningu og mannvitund. Þær rekja sögu ofbeldis, blóðbaða, kynferðilegrar misnotkunar, yfirgangs, vopnaskaks... þarf ég að halda áfram?
Það er ofboðslega stutt bil á milli rækni og ofstækis þega þjóð er sett fyrir framan þessi orð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli