16.2.12

Verknám til hjálpar?

Fimmtánda febrúar 2012, var umræða á þingi um skólamál. Margt verra gert þar.
Skúli Helgason, góður drengur sem eitt sinn lék Jens í leikriti um tennur, hóf máls á skýrslu OECD um brottfall.
Í umræðunni var talað um m.a. aga, sveigjanleika, verknám, samhengi og vinnuskipulag, samspili skólastiga o.fl. Góðir punktar, þó sumir séu frasakenndir.
Þorgerður Katrín, sú góða þingkona fór í pontu og taldi sig vera að upplifa kvikmyndina Groundhog day, en hún fjallar um mann sem vaknar alltaf til sama dags, aftur og aftur, og veit svo vel undir lokin, hverju hann á von á að hann hindrar slysin áður en þau nálgast. Þetta er mynd um vel heppnaðar forvarnir..
Aðeins að fjalla um þetta mál - sérlega hvers vegna Verknkám er ekki svarið sem menn sveifla í svona umræðu.
Eins og Þorgerður sagði var þessi verknámsáhersla á lofti í aðdraganda laganna 2008 (sjá t.d. starfsnámsskýrslu). Þetta var líka í lagavinnunni sem hófst 1991 og lauk 1996. Einnig í vinnunni sem birtist 1991 eða sem kölluð er stefnumótun Svavars Gestssonar. Þetta var rætt i aðdraganda laganna 1988, - í raun alveg frá því skýrsla Jóhanns Hannessonar um sameinaðan framhaldsskóla birtist 1971.
Þannig. ef það hefur verið mikilvægt að leggja áherslu á verknám frá 1971 - hvers vegna hefur ekkert (lítið) verið gert?
Ég ætla enn lengra.
Þetta er ævaforn umræða. En algengt að samfélaginu hafi námslega verið skipt í tvennt. Jón Sigurðsson (Um skóla á Íslandi - Ný félagsrit 1842) talaði um þrjá hópa og segir á bls. 72-3 að byggja þurfi skóla sem þjóni þremur hópum (karla):
Hann segir að það séu ,,þeir sem hafa líkamliga vinnu til abal-athafnar...er vér köllum almúga....þeir sem
með handiðnum og listum eða annarri kunnáttu starfa...í þessum flokki eru helztir handiðnamenn og kaupmenn... meðalstétt" og loks ,,þeir eiginIigu vísindamenn,.."
Kannski er það veikleiki að við hugsum einvörðungu um seinni tvo flokkana og leggjum áherslu á að sem flestir fari þann seinasta.
Leggjum áherslu á?  Sjá neðar.
Umræðan um verknám er svolítið sú að þeir sem geti ekki lært á bók ættu að fara í verknám.
Sem hefur m.a. leitt til þess að nám til sveinsprófa var, til að styrkja virðingu þess, gert jafnlangt stúdentsprófi og sem hluti af grunninum eru sömu grunnáfangar á þeim brautum og á bóknkámsbrautm.
Annað er að margar starfsnámsgreinar sem áður voru á framhaldsskólastigi eru nú á háskólastigi, sérlega greinar sem konur sækja í og því ekki skrýtið að konur stefni á stúdentspróf.
Það þýðir að verknám er ekki starfsþjálfun á vettvangi heldur nám á skólabekk og að sömu greinarnar sem ýta stórum hluta bóknámsnemenda út á fyrstu einni til þremur önnunum gera það sama í verknámi. Ein þeirra greina er stærðfræði en sá grunnur sem þar er kenndur skv. námskrá er stærðfræði sem byggð var upp fyrir verðandi verkfræðinga sem lásu til stúdentsprófs í MR. Um þetta hefur Kristín Bjarnadóttir fjallað. 
Þannig að verknám er ekkert sérlega spennandi. Auk þess eru margar iðngreinar orðnar afar vélvæddar þannig að þeir sem þar starfa þurfa heilmikla forritunarþekkingu. Þá er minni þörf fyrir mannafla á mörgum sviðum og atvinnuleysishætta í iðnstörfum mikil í því sveiflukennda samfélagi sem við búum í.
Sumar greinar hafa lagst af, aðrar eru harla lokaðar s.s. ljósmyndaiðn.
Síðast en ekki síst eru sumar ofsalega stórir pakkar, s.s. húsasmíði, en þar er ekki hægt að sérhæfa sig t.d. í þaksmíði o.s.frv. Ef við ímyndum okkur að um sé að ræða skólafælinn hóp þá gerir þetta kerfi ekkert til að hjálpa. Eða fyrrgreind viðhorf.
Þá eru grunnskólar sérlega bóknámsmiðaðir og gera lítið til að beina fólki annað en í bókknám. Samspil grunnskóla og framhaldsskóla þarf að skoða og leyfa fólki að flýta sér eða fara hægar þegar upp úr 7. bekk kemur.
Þetta eru allt mikilvæg atriði en að auki má benda á agann (hér er grein frá 1999). Ungt fólk fílar aga - allavega ungt tónlistarfólk og ungt íþróttafólk. Um það þarf ekki vitnana við. Í lok janúar tóku tæplega 300 ungmenni þátt í gríðarflóknum tónleikum í Hörpu. Þar vantaði ekki áhugann og ekki heldur eljuna sem er jafnvel enn mikilvægari. Þeir sem hafa elju og aga og eru tilbúnir að puða, þeim farnast vel í skóla, til lengri tíma betur en þeim sem ekkert hafa fyrir þessu. Því á að láta nemendur spila á pari eða ofar!.
Það er líka oft talað um form skólastarfs. Úr sögu í dönsku í félagsfræði í stærðfræði í íþróttir í eðlisfræði.
Svona vinnur enginn.
Loks ræddu þingmenn um sveigjanleika sem sumpart er of mikill og sumpart of lítill. Ég ætla að geyma það en enda á því sem sagt er að ofan - leggja áherslu á.
Jón Sigurðsson talaði um þrjá hópa og ég stytti kaflann að ofan - kíktu bara á timarit.is.
Við tölum um tvo. Við viljum að fólk fari til náms en þeir sem eru ekki á bókina hneigðir (geta ekki lært) eiga að fara í verknám. Þannig tölum við. Ekki gott. Og þriðji hópur Jóns (almúgi), ef ég þori að tala um hann, flýtur í dag milli skóla, fer í tvö ár í framhaldsskóla, hangir þar til 18 ára aldurs eða skemur og tekur þá að sér að verða brottfall.
En sem sé. Hvernig stendur á því að þessi vel menntaða þjóð og metnaðarfulla hefur talað um þetta í 40 ár (minnst) án þess að skýra út hvernig hún vilji leysa það? Viljinn er allt sem þarf - en hann vantar maske.
Þetta er svona NATO - No action, talk only.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli