20.8.17

Hver á að græða?

Ég heyrði á dögunum af því að Íslandsbanki tæki hlut af áheitum hlaupastyrkur.is (vegna Reykjavíkurmaraþons) í að standa undir kostnaði við þann vef og umsýslu alla. Í fyrra hefðu farið 5,08% í þetta. Nú má ætla að þessi prósenta lækki í takti við það hversu miklu meira safnast ár frá ári.
Nú hef ég skilning á því að fólki finnist þetta blóðugt. Í fyrra hafa þá runnið tæpar fimm millur til bankans.
Hins vegar er ég líka sannfærður um að þessi umgjörð er mun betri en ef félögin sem safna áheitum gera þetta sjálf. Og hvað skyldi það nú kosta? Nú eða ef einhver setur á laggirnar slíkt apparat fyrir slíka söfnun utan bankans.
Það er reyndar gríðarlegt rannsóknarefni að skoða hvað þetta ævintýri kostar og hverjir, ef einhverjir græða.
Til dæmis:
  • Menn auglýsa grimmt (kostnaður),
  • útbúa boli og gögn (kostnaður),
  • gera samninga við önnur fyrirtæki (t.d. EXPO) (tekjur/kostnaður),
  • innheimta skráningargjöld (tekjur),
  • eru með mikinn mannafla í þessu (sjálfboðaliðar??? launafólk??? - kostnaður) o.s.frv.

Ég veit ekki.
Mér finnst ólíklegt að þessi magnaði atburður verði haldinn án þess að eitthvert stórt apparat haldi utan um það og það þarf að reka sig einhvern veginn.

Það er hins vegar annað, bankatengt, sem ég hef velt vöngum yfir miklu meir.

Hverjir eiga bankana?

Spurningin kemur til vegna þess að eftir því sem ég finn á vefnum mikla þá á ríkið tvo banka. Íslandsbanka og Landsbankann. Svo eru einhverjir einkabankar sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér.

Þegar ég nefni þessa ríkisbanka tvo og arðsemi þeirra þá er mér iðullega svarað með því að þessir bankar verði að skila eigendum sínum arði.

Og þá hika ég.

Hverjir eiga ríkisbanka?

Er það ekki ríkið?

Hverjir stjórna ríkinu?

Eru það ekki þjóðkjörnir fulltrúar okkar?

Og er ekki ríkið þá þjóðin, svona í sjálfu sér eða eru þingmenn, ráðherrar og bankarnir búnir að aðskilja þetta?
Ef arðurinn fer til ríkisins, er hann þá ekki að fara til þjóðarinnar?

og þá spyr sá einfaldi: Væri ekki nær að ríkisbanki lækkaði kostnað sem hann leggur á viðskiptavini sína, byði lægri vexti, og lækkaði þannig arðsemiskröfur sínar þannig að fólk fengi meiri möguleika á að láta peningana sína verða að t.d. fasteignum, frekar en að láta þettta renna beint í ríkissjóð?

Í stað þess að halda uppi kostnaði við lántökur, halda niðri vöxtum á sparifé o.s.frv. væri þá ekki rétt að ríkisbankarnir bættu kjör viðskiptavina sinna og myndu þannig knýja einkabankana til að gera það sama?

Þarna eru gríðarlegir fjármagnsflutningar í gangi, oft úr vösum almennings yfir í ríkiskassann. Í ljósi þess á hvaða kjörum nýju bankarnir eignuðust gömlu bankana og skuldabréf þeirra í kjölfar hrunsins, er það virkilega til of mikils mælst að ríkisbankarnnir þjónuðu hinum raunverulegu eigendum sínum?

Ég bara spyr?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli