29.6.18

Mín fagra og fjölbreytta Brussell

Það var svefnhöfgi í okkur þegar við rifum okkur framúr daginn eftir þetta langa ferðalag.
Við fórum með Ástu Sigrúnu að skoða íbúðir.
Hún tók á móti okkur af öllum sínum kærleika og gleði. Um nóttina þegar við komum heim beið smá hressing og morgunmaturinn var ekkert slor.
Það er sosum ekki margt af þessum degi að segja þannig. Við fórum um bæinn og röltum okkur upp að hnjám að venju.

Þegar kvöldaði var rölt af stað í miðbæinn því það beið okkar veisla á stað sem heitir Carnivore. Og þvílík veisla. og framsetning á mat. Og rib eye steikin mín var fullkomlega steikt...
Á meðan lágu Englendingar fyrir Belgum á HM og jók það mjög á gleði borgarbúa er leið á kvöldið.

Nú rennur upp föstudagur og því farið að styttast í næsta flug með Síldarpökkun HF eða Ryan air. Sú vél var reyndar skárri en Wizz air vélin.
Dagurinn hófst á því að ég fór í klippingu, Ásta Sigrún í fótsnyrtingu og Sigga í handsnyrtingu.
Það lukkaðist afar vel og þó verð ég að segja að klippingin var nokkuð meira en ég er vanur.
Fyrst var ég klipptur duglega, því næst var hárið þvegið og ég fékk höfuðnudd sem var stórkostlega gott.
Það sem eftir lifði dags fór í ráp um þessa yndislega fallegu borg sem er full af fólki, Belgum sem tala ýmist flæmsku eða frönsku, útlendingum sem ýmist búa hér (eins og ÁSM), útlendingum sem eru að rápa sem ferðamenn og sjálfsagt eru þau fá þjóðernin, tungumálin, kynþættirnir og önnur atriði sem við notum til að aðgreina okkur, sem ekki eiga hér fulltrúa.
Annars bara leið að kveldi og þær mæðgur eru frábær félagsskapur.
Í fyrramálið er það ferð með Uber frá Rue Washington til Midi, rúta þaðan til Charleroi og flug þaðan til Bologna. Við höfum verið þar áður https://maggibloggari.blogspot.com/2011/07/fari-um-fjoll-og-dali-og-gong.html... og fleiri staði.

1 ummæli: