2.7.18

Mia bella Italia


Flug og ferðir frá Brussell til Bologna voru ekki flókið ferli. Eftir smá spádóma ákváðu lúnir ferðalangar að splæsa í leigubíl en sá fyrsti sagðist ekki fara til Ravenna en benti á næsta sem sagði já.
Ítalía.
Ég er kominn heim.

Það er nánast ekkert sem ég ekki kann vel við á Ítalíu, nema kannski reykingarnar, hjólaliðið og eitthvað eitt eða tvennt í viðbót.
Við sáum minna af Bologna en síðast og bílstjórinn sem ók ekki eins og Ítali og var afar viðkunnanlegur sagði okkur eitt og annað. Hann sagðist alltaf kaupa olíu frá Sardiníu en konan hans er þaðan – hann frá Bologna. Hann talaði einnig mikið um kirkju sem við yrðum að skoða, Santo Paulina eða eitthvað svoleiðis. Það kom á okkur skondinn svipur þegar við áttuðum okkur á að hann var að tala um San Appolinara in Classis, sem er stór kirkja í útjaðri Ravenna.
Ravenna nálgaðist og það runnu á mig tvær grímur því þetta var bara ósköp venjulegur smábær að sjá. Eftir smá samningaviðræður við kortakerfið í spjaldinu sem hann ók eftir vorum við komin að Exclusiv hotel La Reunion. Við út úr bílnum og það var heitt. Eins og í Belgíu. Og hótelið?
Tja það er þó eitt sem Ítalir hafa fengist við frá því á dögum Rómaveldis og það er ferðamennskan.
Alúðin geislaði af manninum við afgreiðsluborðið. Herbergið hreint og fínt og ekki bara herbergi heldur íbúð! Lítil vissulega en eldhús og bað og svefnherbergi.
Við komum okkur fyrir og fórum svo út að ganga. Spurðum í mótttökunni hvar væri gott að borða og okkur var vísað á fjóra staði. Við fórum út og OMG eða mamma mia eða hvað maður nú segir. Ravenna er afskaplega notalegur staður og er að sækja í sig veðrið eftir að hafa verið svona utan sviðsljóssins. Elstu mannaminjar eða borgarminjar eru fá því fyrir 3.500 árum og síðan þá réðu Rómverjar henni, Langbarðar, Austgotar, Páfaríkið, Býsans, Feneyingar og svo koll af kolli.

Hér hafði Oscar Wilde viðdvöl, Byron kom við og Colin Porter og svo má lengi telja. Ekki man ég hvers vegna mig langaði hingað. Var það úr ferðasögum Davíðs Stefánssonar og félaga hans? Var það Nonni (Jón Sveinsson)? Ég man það varla. Og ég man varla hvað það var sem ég þurfti að fá að sjá.
En hamingjan hjálpi mér. Það sem ég fékk að sjá var margfalt magnaðra en nokkuð sem mér gat dottið í hug.

Á kvöldröltinu kom í ljós margbrotin saga þessarar borgar. Hér eru hallir Feneyinga, nýklassísk hús og svo fornar kirkjur. Já. Hvort þær eru fornar.
Ég hélt að aðalkirkjan væri Duomo eða Dómkirkjan. Það var öðru nær.
Hér eru Piazza eða torg um allt og eitt kennt við John F. Kennedy. Þarf að finna út úr því.
Piazza Popolo er torg fólksins og þar eru gildishúsin hvert af öðru og út frá því liggur stutt gata og þar eru veitingahús í röðum. Við litum inn á Mariani og hittum þar þjón sem reyndist snillingur í að liðsinna okkur. Þegar við horfðum á vínlistann vonleysislega þá kom hann með rauðvín og sagði mér að smakka. Þetta var vín sem varð til sem samlagsvín úr héraðinu og var yndislegt. Maturinn frábær og hann kvaddi okkur með handabandi. Við röltum stóran hring og komum að San Vitale kirkjunni og mörgum öðrum mannvirkjum en nóttin nálgaðist og við fórum södd að sofa.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli