13.7.11

Farið um fjöll og dali (og göng)

Lestin rennur að því er manni finnst eins og fljúgandi teppi um sveitir og úthverfi. Kornakrar, ávaxtalundnir, vínekrur en ekki mikill búfénaður. Hann er líklega á húsi. Eina rollan sem ég hef séð er guðslambið í loftinu á kórnum í Modenadómi.

Dagurinn byrjaði vel en þó er kannski rétt að segja eina sögu sem er vissulega svolítið um sálartetur.

Eftir að dömunni var vísað úr lestinni (sjá 10/7) er Siggu mjög í mun að borga í strætó. Samt virðist það ekki sáluhjálparatriði hjá heimamönnum. Við erum því alltaf með 1,5 evrur hvort í úrvali og höfum meira að segja skipt fyrir aðra enda gefur rauði kassinn ekki tll baka.

Í gær, þegar við vorum á leið á hótelið frá Centrale (eftir dýrðardag í Modena og Parma) var vagn nr. 25 kjaftfullur af fólki. Sem var allt í lagi. Ítalir kunna að þjappa ef þarf. Og menn eru bara glaðir og tala út og suður og maður kinkar bara kolli eða hristir eftir tóninum og er jákvæður á móti. Kosturinn við að nota frábærar lestir og strætóa er að kynnast fólkinu en ekki bara hinum túristunum. Bíll? Vil ekki sjá‘ann!

NEMA vagninn var svo fullur að rauði kassinn var ekki í sjónmáli en Sigga gerði ítrekaðar tilraunir að nálgast hann. Ég aftur á móti tók ítölskuna á þetta, stillti mér upp við súlu og hélt fast því ég var með bakpoka og þó sumir geti staðið undir honum þá er af honum fyrirferð. Á næstu stöð kemur önnur vagnfylla af fólki. Þegar vagninn tekur af stað hrekkur í fang mér senjorina sem var svo upptekin af tónfjósi sínu (mp3 spilara) að hún hélt sér hvergi í. Nú er ég aumingjagóður og hjálpsamur en þótti þetta heldur nærgöngult og seig aftur en fann að taskan mín pirraðið einhvern fyrir aftan mig. Svo ég bara steig til hliðar og lét senjorinuna redda sér.

Rauði kassinn var ekki aðgengilegur fyrr en við síðasta stopp svo við fórum út ógreidd;-) en Sigga var frekar hnuggin yfir þessu.

Í morgun vorum við svo að troðast inn í vagninn og sjentilmaðurinn sem konan mín giftist, ýtir undir töskuna og ætlar svo að fara á eftir henni með sína en taska frúarinnar verður eftir en frúin stefnir beint á rauða kassann. Vagnstjórinn ætlaði að skilja mig eftir en þar sem annar fótur var inni þá gaf hann sig og ég komst um borð og taska frúarinnar líka. Sigga borgaði í rauða kassann og kom alsæl til baka.

Það er margt búið að skoða og ekki bara söfn og sögu. Sigga kíkir í einstaka skó – og töskubúðir. Skóbúðir hann ég? Nei takk.

Ég skoða í glugga en hugsa með mér að svona fáist í Genoa og ég þurfi þá ekki að bera það á meðan. En vér norrænu víkingarnir leitum hingað suður eftir fegurð, menningu og mat. XL hér er small á Íslandi svo ég fæ kolranga hugmynd um myndugheit mín og læt þetta vera. Ég leita uppi karlmannadótabúðir sem selja tölvur og síma og myndavélar.

Í Milan keypti ég mikið þarfaþing sem er taska fyrir myndavél og þrífót. Hólfið fyrir þrífótinn tekur alla vega sex floskur af vatni og taskan er kennd við Mary Poppins. Til skýringa fyrir þá sem ekki skilja þessa líkingu þá dró Mary Poppins m.a. upp stumtjener eða fatastand úr tösku sinni sem var bara venjulegrar stærðar.

En fyrir utan hve auðvelt er að ferðast með lestum og hve almennt almennilegt fólkið er þá er þrennt sem vekur athygli okkar. Eitt eru nunnurnar sem eru hér á ferð. Ekki séð munk utan kirkju en nunnur og nunnulærlingar eru dagleg sjón á götu. Annað eru reykingarnar sem eru rosalegar og allstaðar, eða því sem næst. Þó eru margir staðir, t.d. hótel, lestar o.s.frv. búnir að úthýsa þessu. Í strætó í morgun vorum við að horfa á líkega fjögurra vikna barn með móður sinni og til fóta hjá því í vagninum lágu sígarettur og kveikjari.

Loks er nú betlið. Það er misáberandi og undarlega mikill bransi. Pínulitlar konur, gamlir kallar og svo ungt fólk sem oft virðist undir áhrifum. Sumt þetta fók er vel til haft og ég ímynda mér að sumt sé jafnvel sjúklingar að fjármagna neyslu sem verið er að venja þá af.

En að ferðinni til Flórens. Nú breytist landslagið og við förum ekki einungis um Appenínafjöllin heldur einnig í gegnum þau. Gangakerfið er ógnarlangt og eftir nokkrar mínútur í göngum skjótumst við út í lemjandi ofbirtu, sjáum lítinn dal eða þorp og svo er myrkur á ný. Sigga og ég keppumst við að benda hvort öðru á enda situr hún með andlitið í aksturstefnuna en ég bakið svo við sjáum ekki það sama.

Toscana birtist og sveitin hans Verdi í allri sinni fegurð – eitt augnablik en svo taka við endalausar lestarstöðvar uns lestin stoppar við Rifredi. Þar fara allir út og á stöðinni taka á móti okkur betlarar og undarlegt fólk sem vill þó hjálpa með töskurnar, fyrir pening. Hitinn er 37°C og lítið skjól fyrir sólu. Þarna er taxi! Ljúfur ungur maður stekkur út og losar sig við hóp Kínverja og fer með okkur á hótelið beina leið. Rússnesk kona tekur við okkur og sendir beint upp á herbergi þó við séum snemma á ferð. Herbergið er númer 214 en næsta við hliðina er 212 svo líklega er okkar ranglega númerað. Ég leggst í rúmið og viti menn botninn gossar undan. Siggu megin er allt í lagi. Ég er nú ekki tengdasonur Gunnlaugs Þorfinnsonar fyrir ekki neitt og er fljótur að spotta vandamálið. Stök löpp undir miðju gaf sig en mín megin var hún það eina sem hélt fyrir utan lista til endanna. Siggu meginn voru listar allan hringinn.

Kvartað! Lofað.

Allt annað very good.

Við tökum til við skoðun og stefnum á miðbæinn og hjálpi mér. Þetta verður stutt blogg. Ég er algjörlega búinn og set meira á morgun. Dagurinn fór í stóra hringgöngu og við með gapandi munn og álkuna uppi föttuðum ekki hvað tímanum leið. Skyndilega var hún 21 og við höfðum varla sest niður frá um 15. Hvert fór tíminn?

Flórens er..........










Og hún er .....










Og að lokum verður ekki annað sagt en að hún er ólýsanleg.

Hún er þéttskipuð húsum. Þar sem þurfti að byggja var byggt. Bútasaumsteppi held ég Sigga (Beth) hafi sagt. Bogar yfir götur og varla pláss fyrir bíla og fólk á göngu. Hún er Róm. Hún er full af fólki. Ameríkönum, ameríkönum, Bandaríkjamönnum og öðru bandarísku fólki!
Hér eru að auki alls konar annað lið hér kunna allir ensku og fleiri mál.

Flórensbúar eru viðskiptajöfrar fyrst og síðast og hafa kunnað á túrismann frá því fyrsta kirkjan var byggð þarna. Þarna er allt til sölu. Þegar ég var búinn að labba frá hótelinu og upp á Piazza Pitti, fram hjá hundruðum búða sem seldu skartgripi, leður, leður, leður, skartgripi o.s.frv. rakst ég á fyrstu búðina sem seldi nauðsynjar. Matvörumarkað. Raunar eru þrennskonar athyglisverðar búðir hér. Á hverju torgi er búð sem veitir internetaðgang, fullar af ungu fólki. Í annarri hverri götu er þvottahús (laundromat) og í hverri götu er vínbúð og eru ca. 50 metrar á milli. Mjög hvetjandi þegar laundromat og vínbúð eru hlið við hlið...

Hún er full af fólki. Hún er ótrúleg.

Meira á morgun

Ást og friður

M og S



Ps. Með rúmið. Við komum heim, heldur lúin en alsæl um kl. 22. Ég spyr manninn í mótttökunni um rúmið „Yes senior, all fixed, prego!“

Fixed= óhrein kalkfata sett undir rúmið og gólfið sóðað út...






Æ. Farinn að sofa. Tala við Tind í fyrramálið (Mr. Fawlty).

1 ummæli:

  1. Yndislegt að fylgjast með ykkur turtildúfunum. Haldið áfram að njóta. Ciao, Herdís

    SvaraEyða