2.7.18

Og sváfum vel!

Ég var eins og spýtukarl. Hvenær sofnaði ég? Um kl. 22.30 var það ekki? Og hvað er klukkan núna?

Að verða 9 að morgni? 10 klukkustundir í einum rykk?

 Alla vega, - sturta, morgunmatur og við út. Byrjuðum á Dómkirkjunni. Stór var hún en reist á átjándu öld á rústum eldri kirkju.









En á sömu lóð er skírnarkappella kennd við biskup sem hét Neone og lét ljúka verki sem forveri hans hóf. Hún er elsta uppistandandi mannvirki Ravenna, reist í lok fjórðu aldar. Hún er átthyrnd eins og mörg guðshús þess tíma.







Í miðri kapellunni er stór skírnarlaug úr marmara og lítið altari og fleira sem er frá rómverskum tíma.

















En það eru bogarnir í kapellunni, átta alls, og hvelfingin sem vekja athygli. Mósaík af býsönskum uppruna myndar listaheild sem er ólýsanleg án mynda. Segja má að þarna séu „the usual suspects“ eða postularnir tólf sem mynda umgjörð um mynd af Jóhannesi skírara að ausa Krist vatni. Og þar fyrir neðan eru svo spámenn gamla testamentisins en þeir eru nú minna í hávegum hafðir nú til dags. 
 Smágerðir steinarnir eru ótrúlega margbreytilegir.
Hér er smá endurvinnsla. Skálin er rómversk og stendur á rómverskri súlu eða súlubút.















 


Mannvirkið lætur lítið yfir sér að utan en er stórfenglegt að innan. Og hugsa sér. Þetta er byggt +/- 350 árum eftir dauða Krists. Fyrir 350 árum síðan var verið að byrja að leggja grunn lýðræðis og mannréttinda í Evrópu. Setur mann í samhengi.
 
 
 

Við gengum fram á aðra litla kirkju þar sem var messa í gangi. Fólk í þjóðbúningum stóð út og var að reykja og við spurðum um búningana. Þetta voru Rúmenar að halda einhverja trúarhátíð hátíðlega.

 
 
 
 
Áfram þvældumst við upp og nú var stefnt að St. Vitale kirkjunni og ég var búinn að átta mig á því að hún væri staðurinn.

Á þessari mynd er hinn skegglausi Kristur tákn Góða hirðisins.
Þegar þangað kom byrjuðum við á að líta á grafhýsi konu sem hét Galla Placidia og er sögð stórmerkileg. Hún var dóttir Theodosíusar keisara Rómar og stýrði sjálf ríkinu um tíma, fyrst með föður sínum og svo fyrir hönd Valentínusar III sonar síns meðan hann var barn. Hún lét gera þetta grafhýsi milli 435 og 450, dó sjálf í Rómaborg um 450 og var jarðsett þar en ekki hér í Ravenna sem hún stýrði um árabil. Og aftur eru það mosaíkmyndirnar sem algjörlega heilla. Aftur, raðir af táknmáli, postular og guðspjallamenn, og það er hreyfing í myndunum, blæbrigði, maður horfir aftur og aftur til að sjá hvort þetta sé ekki bara málað. Mósaík steinarnir eru ca 4-5 millimetrar á kant og raðast saman á ótrúlegan hátt.

Og það er meira að sjá.
Við hlið grafhýsisins er St. Vitale kirkjan. Ein af frægustu kirkjum kristninnar. Hún er reist að ósk biskups sem hét Ecclesías og var hér biskup á árunum 522-533. Hann hafði farið til Býsans/Konstantínópel/Istanbul með Jóhannesi fyrsta sem var páfi þá og Ecclesías lét hefja byggingu þessarar kirkju sem var helguð rómverskum hermanni sem lést píslarvættisdauða. Það var bankamaður, Guiliani Argentaríó að nafni, sem lét út þá fjármuni sem til þurfti – og var án efa slatti. Hann lagði út fyrir fleiri kirkjum reyndar, hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?

Ecclesíus var annað hvort látinn þegar kirkjan var vígð eða farinn annað og í hans stað vígði Maximian biskup hana árið 548, - en var búinn að tryggja að það væri mynd af honum sjálfum í mósaíkfléttunum sem þarna er að finna.

Kirkjan er átthyrnd og það er ein kapellan sem er öðru fremri af því sem ég hef séð. Það er mósaíkhlutinn. Mosaík myndirnar eru margbrotnar og margslungnar.
Hér koma nokkrar. Ef þú vilt stækka myndina þá smellir þú á hana.
Hér er mynd af Theódóru keisaraynju að færa gjafir. Vitringarnir þrír saumaðir í faldinn og skartið sem hún ber er úr gimsteinum.
Hér er Góði hirðirinn aftur á sögufleka um Móses.

Þakhvolfið. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að þýða táknmál þess en bendi á guðslambið í miðjunni og guðspjallamennina.
Hér er Justinian keisari (eiginmaður Theódóru). sjáðu litbrigðin í fellingum fatnaðarins.




Ógleymanlegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli