4.3.09

tveir gamlir og einn ungur?

Ég hef undanfarið verið að hlusta á Stieg Larsson eða öllu heldur upplestur á bókum Stieg Larsson. Ég er á þriðju bók sem byrjar sem beint framhald annarrar bókar (Flickan som lekte med elden verður Luftslottet som sprengdes (afs. Svíar)). Þetta er ólíkt sem var með fyrstu bók sem er sjálfstæð saga þó sömu lykilpersónur ríði húsum.
Við Sigga hlustum svo stöku sinnum á hljóðbók í bílnum á ensku.
Hins vegar er músíkin nærri líka. Ég er t.d. að hlusta á nýjan disk með U2 sem fær mikla umfjöllun enda fimm ár frá síðasta diski. Fjögur reyndar ef litið er til að gapið er frá nóvember 2004 til febrúar 2009.
Nýi diskurinn heitir No line on the horizon og er fínn. Mér finnst hann ekki sérstakur í safni U2 en áheyrilegur. Þetta eru voða keimlík lög og falla án efa vel í kram sanntrúaðra. Hann var lengi í smíðum eða frá 2007 og tekinn upp hér og hvar, - Marokko, Dublin, New York og víðar. Brian Eno stakk inn höfði og samdi lög með þeim þó ég heyri ekki hans framlag. Lögin eru ellefu og diskurinn er flottur þó hann fari ekki í hóp þeirra sem mest verða notaðir á ipodinum mínum góða.

Annar nýr diskur í safni mínu er með ídolinu mínu honum Bruce Springsteen og heitir Working on a dream. Hann kom út 2008 og er með tólf lögum og aukalagi (kallinn hræddur við þrettán?). Þeir Uncut menn eru afskaplega hrifnir og Bandaríkjamenn fengu að heyra Working on a dream (titillagið) á tónleikum til heiðurs Barack Obama og féllu í stafi. Það er eins með þennan og U2 diskinn að það er mikið af endurteknu efni á honum og allt í lagi með það. Næsti á undan var eilítið ferskari en samt afskaplega kunnuglegur,- nema kannski Terry's song sem er listaverk.
Mér fannst meira gaman að The Seeger Sessions eða enn frekar Live in Dublin. Ég held raunar að tónleikar hjá honum væru snilld og væri til í eina slíka t.d. með Gulla og Kalla.
En sem sé annar ágætur diskur en afar kunnuglegur.
Það sem kemur á óvart er sá þriðji. Það er annað ídol eða Sir Paul. Um er að ræða hljómplötu dúetssins The Fireman sem eru Paul og listamaður sem kallar sig Youth en heitir Martin Glover. Hann var m.a. bassisti Killing Joke. Þetta er þriðja plata þeirra. Hinar heita Strawberries Oceans Ships Forest frá 1993 og Rushes frá 1998 en þessi nýja Electric Arguments. Ég er satt að segja hissa á að hinar tvær hafi siglt framhjá mér en bæti úr því síðar.
Þeir Sir Paul og Martin fara á kostum á plötunni. Hún er sögð hafa verið tekin upp þannig að þeir tóku hvert lag á einum degi þó ekki endilega dag eftir dag. Hún er hrá, aggresív og ljúf á milli. Gamli Paul og ljúfar línur eru þarna en það eru líka hrá rokk/blús stef og sumt virðist jafnvel vera tekið nánast lifandi. Sagan segir að þeir hafi verið komnir með laglínu og oft hafi verið rennt í lag þannig að Paul hafi orðið að spinna textann á staðnum! Og ég fæ ekki betur séð en að hann hafi enn einu sinni séð um allan hljóðfæraleik sjálfur! (http://www.youtube.com/watch?v=akG1x1s9msw&eurl=http://guitarkadia.com/emon/albums/mccartney-the-fireman/)
En sem sé frábær sprettur og vel gert! Sá gamli er enn í stuði.

1 ummæli:

  1. Ég persónulega hef eiginlega aldrei skilið U2 hæpið. Finnst gamalt efni vera fínt, en nýrra efnið bæði innihaldslaust og lapþunnt. Paul og Bruce eru samt snillingar:

    SvaraEyða