10.5.09

Furðulegt langlundargeð

Ég varð fyrir áfalli á dögunum. Ég var að lesa greinar eftir hina og þessa um ESB og var mest sammála Þresti Ólafssyni og Jóni Baldvin. Og ég fór að skoða ýmsar tölur. Jón Baldvin bendir á að um árið 1900 hafi íslensk króna og dönsk verið jafngildir gjaldmiðlar. Ef einungis er tekið til gjaldmiðilsbreytingarinnar 1981 má segja að að það þurfi að greiða um 2300,- íslenskar krónur fyrir eina danska. Smá groddahagfræði en samt.
Og ég fór á stjá.
Við fluttum í núverandi húsnæði árið 1988. Þá var lánskjaravísitalan 1913 stig. Fram til 1.1. 1991 (frá ársbyrjun 1988) hækkaði hún um 155%. Næstu fjögur ár um 14% og næstu fjögur ár eftir það (1.1.1999) um 7%. Augljóslega var betra að vera til frá 1991 til 1999 hvort sem maður var lánþegi eða fjáreigandi en frá 1988 til 1991. Frá 1999 til 2003 fór vísitalan upp um 22% og til 2007 um 19%. Alls frá 1988 til 1.5.2009 hefur lánskjaravísitalan farið upp um 345% og krónan í dag er um þriðjungur þess sem hún var 1988. Þ.e. frá sjónarhóli lanskjaravísitölunar.
Maður sem tók lán 2005 fékk greiðsluáætlun sem miðaðist við 2% verðbólgu á ári. Það þýðir að spár gerðu ráð fyrir því að lánskjaravísitalan færi upp um liðlega 10% á þessu tímabili en hún fór upp um nærri 40%. Þar munar hátt í 300 þúsund krónum á hverja milljón sem maðurinn tók.
Heitir þetta nokkuð að forsendur bresti? Ekki síst þegar litið er til þess hvernig bankarnir auglýstu lán sín á árinu 2005?
Ég segi það enn og aftur - er ekki fullreynt með þessa merkismynt sem kallast króna?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli