29.5.09

Ónýtur inngangur

Að breyttu breytanda
Breytingar á framhaldsskólum og starfsháttum þeirra frá framhaldsskólalögunum 1988 til laga um framhaldsskóla 2008
Ríkisstjórnir, löggjafarstofnanir og skólaskrifstofur beita sér kerfisbundið til að fá skólakerfum breytt. Um það má finna mörg dæmi s.s. School at risk, No child left behind, Til nýrrar aldar og Nefnd um mótun menntastefnu.[1] Barack Obama vék að þörfinni fyrir skólaumbætur með orðunum „our schools fail too many.“[2]
Hver er gagnsemi slíks frumkvæðis? Jón Torfi Jónasson og Labaree hafa bent á að skólar þróist með hliðsjón af samfélaginu og breytingum þess en ekki lagabreytingum. Tyack og Cuban benda á svipað. JTJ hefur einnig bent á að skólakerfum verður ekki kúvent. Þeim þurfi að hnika.[3]
Undanfarna áratugi, raunar frá því um miðja 20. öld, hafa stjórnvöld á Íslandi ítrekað skipað vinnuhópa og nefndir til að fjalla um skólakerfið, ekki síst framhaldsskólann. Vandamálin hafa verið aukin ásókn, krafa um meiri almenna menntun, að draga úr brottfalli, þörf fyrir meiri sérhæfða starfsmenntun, aukið lýðræði, skólakerfi fyrir alla, efling starfsmenntunar og er þá fátt eitt nefnt. Þessi atriði eru þó rauði þráðurinn.
Árið 1946 voru sett fræðslulög og í kjölfar þeirra áttu að koma m.a. lög um gagnfræðanám og lög um menntaskóla auk laga um iðnfræðslu. Sjálfsagt hafa ýmsir talið að þarna væri allt komið en þegar á sjötta áratugnum var farið að hrikta í þessu kerfi. Árið 1963 var skipuð nefnd til að fjalla um lög um menntaskóla. Hún skilaði af sér niðurstöðum 1968. Tillögur hennar urðu hluti af umræðu um stefnumótun um framhaldsskóla sem stóð allan áttunda áratug 20. aldar. Á þeim tíma varð til „nýtt“ framhaldsskólakerfi, fjölbrautakerfi, sem nánast sprakk út í höndum stjórnenda og kennara nýrrar skólagerðar. Brautaskiptingin sem var við lýði 1968 hefur að miklu leiti haldist frá þeim tíma. Hugsunin á bak við bóklegar brautir er svo sterk að hún náði að standast lagasetninguna 1996 án teljanlegrar gagnrýni. Það undarlega er að markmið hennar eða tilgangur hafa fengið stöðu lögmáls. Af þeim sökum hafa menn aldrei reynt að kryfja hana til mergjar (KBÓ).
Lög voru sett 1988 og í kjölfar þeirra kom úttekt á skólakerfinu sem birt var 1991 (Til nýrrar aldar) og síðar stefnumótun sem birtist 1994 (Nefnd um mótun menntastefnu). Hún lagði grunn að lagasetningu 1996 og nýjum námskrám í kjölfarið. Mestu breytingarnar snertu stúdentsnámið, almenna námsbraut og sérdeildir (starfsbrautir). Einn kafli athugasemda frumvarpsins (1996) fjallaði um það að efla starfsnám. Árið 2003 birti JTJ grein sem sýndi að allt annað var að gerast í skólakerfinu en stefnt var að 1996. Á þessari öld hefur þeim sem luku sveinsprófi fjölgað um 80 á ári en stúdentum um liðlega 400. Árið 2006-7 útskrifuðust um 60% árgangs tvítugra sem stúdentar (liðlega 2500 manns) og sama skólaár luku um 2000 manns réttindaprófi starfsgreina, burtfararprófum úr iðn og sveinsprófi.[4] Meðalaldur þeirra síðarnefndu er mun hærri.[5]
Eins og sjá má af þessu hefur verið rauður þráður í skólaumbótaviðleitni á lýðveldistímanum og enn árið 2008 voru frumvarpshöfundar vegna lagasetningar fyrir framhaldsskólann að berjast við sömu draugana og þeir sem sátu í nefndum á sjöunda áratugnum.
Breyttu þá lögin og námskráin frá 1996/1999 engu? Þetta er mikilvæg spurning því færa má rök fyrir því að á árunum sitt hvoru megin við aldamótin hafi bóklegi framhaldsskólinn breyst meira hvað aðbúnað, inntak og skipulag varðar en áratugina á undan. Jafnvel meira en vegna lagasetningarinnar 1988 og þess sem hún byggði á.
Hugmyndir um húsnæðismál, breytingar á tækni, samfélagsbreytingar, svo nokkuð sé nefnt hafa leikið veigamikið hlutverk. Þá má nefna tölvuaðbúnað, mötuneyti og þjónustu við okkar minnstu bræður.[6] Hvar lágu hvatarnir?[7] Því skal haldið til haga að þessi lög og námskrá fóru ekki átakalaust í gegn.
Það er útgangspunktur þessa verkefnis að framhaldsskólar hafi gerbreyst á undanförnum árum. Þeir hafi breyst meira á þessari öld en um langan tíma þar á undan. Það eru ekki efnislegar heimildir til þess að sannreyna þessa seinni fullyrðingu. Hins vegar er hægt að skoða breytingarnar og rekja sig í gegnum þær.

Rannsóknarspurningin og rannsóknartilefnið er:
Hvaða breytingar, af þeim sem orðið hafa á skólastarfi framhaldsskólans, 1996-2008[8], hafa haft áhrif á skipulag hans, inntak og þróun?
Hvaða breytingar urðu?
Urðu breytingarnar í samræmi við þær hugmyndir sem uppi voru?
Urðu þessar breytingar jafnt á ytri þáttum sem innri?
Hvaðan komu hvatar til breytinga (eða hvað stóð í vegi þeirra sem ekki náðu fram að ganga)?
Mikilvægur þáttur er hvernig hugsunin um framhaldsskóla fyrir alla kemst á legg. Rétt er að kanna sérstaklega hversu djúpt sú hugsun nær (en spurning hvort það eigi heima hér?).

[1] Kristján Bersi Ólafsson, 1985, „Þankar um fjölbrautaskóla.“ Í Ný menntamál, 2. tbl., 3. árg., R., bls. 12-13.
[2] BBC News, Americas, Obama inauguration. Sótt 18. Apríl 2009 á slóðina http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/obama_inauguration/7840646.stm
[3] Jón Torfi Jónasson, Does the state expand schooling? A study based on five Nordic countries bls. 160-83 í Comparative Education Review, vol. 47; Labaree, D. F., „The Chronic Failure Of Curriculum Reform,” í Editorial Projects in Education, Vol. 18, nr. 36, bls. 42-44, 1999; Tyack og Cuban, Tinkering Toward Utopia, Harvard 1995; JTJ 2008
[4] Vefur hagstofunnar. Stúdentahópurinn skiptist á þrjár brautir til 2003 en aðrir sem útskrifuðust á tugi starfsnámsbrauta. Skv. tölum Hagstofunnar eru þrír af hverjum fjórum stúdentum að ljúka námi um tvítugt, en þeir sem ljúka burtfararprófi úr iðn, sveinsprófi eða stúdentsprófi starfsgreina eru að ljúka „jafnlöngu“ námi eða styttra, 22-29 ára.
[5] Í Hafnarfirði er vaxandi tilhneiging til þess að nemendur ljúki fyrst stúdentsprófi en fari svo í starfstengt nám í iðnskóla. Byggt á samtölum stjórnenda skólanna.
[6] Hér er átt við nemendur sem eiga undir högg að sækja af námslegum, félagslegum eða öðrum ástæðum og þrífast því illa í skólastarfinu.
[7] Einn hvati felst í lagasetningunni 1996 sem gæti hafa verið mikilvægur. Skólinn er fyrir alla. Lyklarnir liggja í 16., 18.-20. gr. frumvarpsins en þar er talað um almenna námsbraut, sérdeild fyrir fatlaða, nemendur með annað móðurmál en íslensku og fornám. Þessi hugsun var ekki alveg ný. Hún birtist í hugsuninni um skólaskyldu þegar frá 1907, hún er þáttur í lagasetningunni 1946 og 1983 héldu Landsamtökin Þroskahjálp ráðstefnu undir heitinu Skóli fyrir alla. JTJ 272 og víðar í bókinni um almenningsfræðslu á Íslandi.
[8] Hér yrðu umræður og undirbúningur allavega árin 1991-1996 að vera með. Spurning um 1988-1991?

1 ummæli: