
Það er gaman hjá mér í Lyngbergi. Afinn í mér brýst út þegar stóra rósin mín teygir sig eftir kossi eða knúsi. Sá gamli stígur dans!

Og ekki virðist amman minna glöð!

Eða Kalli sem er svo skemmtilegur!
Hún varð eins árs um daginn og um það má lesa hjá
ömmunni hér! Við fórum í dagsferð vestur á Snæfellsnes. Unaðsdagur. Veður skýjað, hlýtt og frekar lygnt mest allan tímann. Við áttum góða stund að Búðum og lékum okkur í fjörunni, urðum blaut af bárunni og fórum svo að skoða klappirnar að Arnarstapa.

Fuglinn í fjörunni hann heitir már og liggur hjá ungum sínum á smásnösum klettanna. Það er kannski ekki rétt að tala um fjöru heldur kletta. Gjárnar heita Miðgjá og Músargjá og svo er ein til sem ég man ekki hvað heitir. Stuðlaberg í klöppum og iðandi fuglalíf heillar hvern sem þarna kemur. Kraftur hafsins, afl jökulsins og lífsgleði fuglanna sem dansa á golunni og steypa sér í hafið í leit að æti. Meðan karlfuglarnir eru eins og áætlunarbílar í ætisleit þá snuddast kvenfuglarnir í unganum eins og mömmur sem bleyta fingur til að ná kámi úr kinn barnsins (sem grettir sig og kvartar yfir afskiptaseminni). Það er líklega svipað lífið víða. Margar tegundir máva og svartfugla, stelkir, spóar, hrossagaukar og kríur og er þá fátt eitt nefnt.

Fallegir og sérstæðir klettar og gjár. Þetta fallega sker er t.d. þarna út og er eins og tröll hafi lagt þetta haganlega til hliðar meðan það skrapp eftir fleiri stólpum. Máski dagaði það uppi og gat ekki lokið verkinu.

Ömmur geta skondrast um með fylgdarkonur

og
afarnir eltast við fugla eins og þessa tvo Jaðrakana sem stilltu sér upp til myndatöku.
Þau eru hjón þessi. Og kannski afi og amma líka!
Þá voru sumir mávarnir varir um sig og flugu ógnandi að nærgöngulum. Kríufrúrnar voru rólegri. Þessi svartfugl sótti fast að Gulla sem þó virtist ekki nærri hreiðri þessa stóra fugls.

Og svei mér ef það örlaði ekki á rómantík á undarlegum stöðum eins og steinbrúm sem virðast geta hrunið hvenær som helst eins og kallinn sagði og það er kannski traustvekjandi að halda í einhvern á svona stað, nokkra metra yfir ólgandi öldunni sem nagar klettana linnulaust dag hvern.

Svo var farið í Stykkishólm og dansað á bryggjunni
Upp upp upp á fjall og loks borðað í Borgarnesi og sprellað við Hyrnuna.
Hver fær staðist svona bros?
Mikið hlakka ég til að sjá ykkur, ég hugsa að ég springi bráðum!
SvaraEyða