14.7.11

Aumingja vesalings kýrnar og fleira stórkostlegt.

Já, það er ástæða til að stofna samtök til bjargar Túskönsku kúnnum. Annað eins af handunnum leðurfatnaði, töskum, golfpokum, pennaveskjum og skóm hef ég aldrei séð. Meira af því síðar en ef ég væri nautgripur í Toscana léti ég mig hverfa hið snarasta.

Flórens er ótrúleg. Og það er svo margt sem gerir hana ótrúlega.

Hér er einhver magnaðasti túrismi sem ég hef séð. Öll borgin snýst um túrisma. Löggan passar ferðamennina og það eru sjúkrabílar í biðstöðu á torgum. Allar búðir byggja á þeim og meira að segja vasaþjófar og betlarar elta þá uppi. Sölumenn eru afar fljótir að renna á lyktina og ef maður sýnir minnsta áhuga streymir að röð af vörum sem mamma gerði eða afi frænda míns handsaumaði. Sumir eru klárir og einn fór nærri að selja mér jakka á spottprís. „I CAN MAKE YOU A DEAL!“ hrópar hann. „30% discount plus just for you more. Just for you!“ 895 Evrur (ásett verð tæplega 1500...) „Just for me?“ „Si, senjori, just for you!“

Ég var einn og Siggulaus og forðaði mér. En mikið déskoti var jakkinn flottur.

Annar tók á móti okkur í búð. Ég sá ansi snotran bakpoka (leður) sem var fínn í vinnuna og leit á verðmiðann. „if a you only think price you in wrong shop. Here is quality not prize. You want to spend 60 euros, look at wallets.“ Ég lét hann sýna okkur töskuna og græt enn. Hún var cool. En kaupa af svona dóna? Beth hefði aldrei leyft það!

Í dag var tvennt gert. Ákveðið að koma aftur þegar færra fólk er (október eða apríl) og að kanna með sveitadvöl í Toskaníu. Svo var labbað, horft og myndað. Við byrjuðum á að fara niður að Duomo sem er stórfenglegt listaverk. Bygging hófst í lok 13. aldar og verklok stóðu helst á því að enginn kunni að gera þak eins og Flórensbúar vildu fyrr en Brunelleschi kom á svæðið og bjargaði málinu þannig að verklok teljast hafa verið 1436. Við dóminn standa svo tvö önnur hús, battisteri og campaníla Giottos.
Röðin inn í dómin var ógnarlöng og haggaðist ekki. Röðin til að fara upp á hvoflþakið líka. Apríl eða mars?

Uffizi? „Next opening 23 júlí possibly.“

„This year?“

„Prego senior, next please!“

Við upp á San Lorenso torg og þar er nú fjósalykt. Leðurbúðaraðir sem teygjast lengra en raðirnar við Duomo. En við göngum til kirkju og skoðum heimakirkju Medicianna en um 50 þeirra liggja þar í moldu, súlum og þar sem við hæfi þótti.

Loks litið í Chapelle Medici sem sýnir annars vegar hvað peningar geta keypt þegar smekkurinn skiptir ekki máli en jafnframt grafkapellu sem Michaelangelo byrjaði á en stakk af frá ókláruðu verki og fór til Rómar. Hún er meistaraverk.

Santa María nouvelle þar sem Brunelleschi og Donatello þróuðu fjarvíddarmyndatækni og áfram má telja.








Cosimo Medici var klár í peningamálum en hann safnaði til sín fólki sem kunni að skapa og móta, fólki sem kunni að reikna og hugsa og allt þetta hjálpaði Cosimo að verða ríkari en allir aðrir en jafnframt varð heimurinn ríkari af list og þekkingu. Og hér gengu þeir, eins og við Sigga, ræddu greindarlega um heimsins vanda, eins og við Sigga, borðuðu, önduðu og þetta er bara magnað.

Um kl. 4 komum við út í sólina og hlýjuna á ný og fundum allt í einu að botninn var úr okkur, við höfðum ekki borðað frá því morgunmat. Við skelltum okkur inn í smá(stór)markað og keyptum samlokur, pylsur, vatn og banana og fórum svo í leit að bekk á torgi þar sem hægt væri að skella þessu í sig. Við ráfuðum um og fundum okkur svo gott pláss á bekk við sjálfstæðistorgið. Það er ótrúlegt að sitja á torgum og sjá mannlífið flæða hjá. Þar sem við sátum þarna varð okkur starsýnt að ákaflega huggulegan mann, svo flott klæddan og glæsilegan. Ekki leið á löngu að við förum að taka eftir því að hann er eitthvað svo ráfandi og alltaf að horfa í kring um sig og sjáum svo að hann er að gefa einhverskonar merki! Og viti menn ekki leið á löngu þar til við sáum aðra náunga sem voru að ráfa í allar áttir og senda honum síðan merki á móti, þeir voru nú ekki eins flottir í tauinu og hann. Það var ótrúlegt að fylgjast með þeim og við náttúrulega komin með gott efni í glæpasögu sem kemur út fyrir jólin (sem á að fjármagna næstu Ítalíuferð og það sem fyrst);-)

Við röltum áfram stefnulaust í rauninni en það finnst okkur langskemmtilegast! og reynum að taka við öllu því sem fyrir augu ber. Við förum t.d. á Signoriatorg tökum myndir af styttunum sem þar eru t.d. Davíð og Neptúnusi (í gosbrunninum) og fl.










 
Eins og ég segi – það er svo margt! Þetta er staður fyrir listunnendur. Fyrir sögufólk. Mannfræðinga. Aleina og ástfangin pör. Svo eru undarlegar hefðir eins og við Ponte Vecchio en þar má sjá lása hengda við hvaðeina. Það er víst álit sumra að hengja eigi lásana á brúnna eða þar við og henda lyklinum í ánna Arno og þá sé ástin tryggð um aldur og ævi. Það má vel vera en lásarnir eru fjarlægðir reglulega.


Ponte Vecchio er raunar eina brúin á Arno sem lifði seinni heimstyrjöldina en nasistar sprengdu hinar á flótta sínum. Líklega hafa foringjar bandamanna komið við í Flórens fyrst hún slapp við loftárásir nema Flórensbúar sjálfir hafi keypt sig frá því.




Svo eru sölumenn hér sem hverfa eins og dögg fyrir sólu ef löggan nálgast og birtast á ný þegar hún hverfur af vettvangi.

Við erum búin að vera á rölti í 9 daga og berum þess merki þó sérstaklega Beth sem er komin í skóstærð 41 (skv. mátun í dag) en var í nr. 39 í byrjun ferðar!

Að lokum.

Stóra rúmmálið. Fallega rússneska stúlkan í mótttökunni var hálfstressuð þegar ég birtist og fór að tala um „viðgerðina á rúminu!“ „but of course senoir. It will be properly attended to today.“

Þegar við komum heim var ekki aðeins búið að laga rúmið og ég meina alvöru laga heldur stóð þessi líka fína flaska af rauðvíni frá Toscana á borðinu, tvö alvöruglös og tappatogari.

„My compliments to the manager“ sagði ég.

Hugsa til kúnna þegar ég drekk það!

Á morgun ætlum við að vera öðruvísi ferðamenn, ætlum yfir ána og dandalast í hæðunum þar, sunnan og austan við miðborgina.

Enn einn dagurinn að kveldi kominn og yndislegur eins og allir hinir.

Meira á morgun

Góða nótt

M og S


Engin ummæli:

Skrifa ummæli