Svolítið fyrst um lestir.
Mér finnst alveg sérlega gaman að skoða fólk. Lesa úr hegðun þess og tilfinningum. Þegar við vorum á leið heim í gær upp úr kvöldmat var mikið af pörum sem kvöddust á lestarpallinum. Oftast urðu strákarnir eftir en hnáturnar stungu sér inn í lestina. Tvær menntaskólastelpur komu á harðahlaupum niður pallinn og önnur náði inn rétt sem dyrnar lokuðust. Lestarstjórinn ákvað greinilega rétt sem snöggvast að opna aftur og hleypa hinni inn líka. Sjéntilmaður.
Sumir hvísla og roðna og enn aðrir eru að hlusta eða horfa á eitthvað. Sumir hanga fast í stöngunum en nokkrir standa svalir og halda hvergi og haggast ekki.
Og lestin sem við erum í er löng og opin í gegn svo maður sér hana hlykkjast, vera beina við brautarpalla en hlykkjast í göngunum á milli stöðva. Maður er eins og í ormi. Milanó er stórborg og þar eru neðanjarðarestir og sporvagnar en lítið um strætóa. Það er helst túristaútsýnisvagninn sem er strætó. Svo er mikið af bílum. Alls staðar bílar og reiðhjól og vespur og mótorhjól. Maður lifandi. Ég hef aldrei séð annað eins af mótorhjólum. Sum eru með tvíhjól að framan. „Svona vil ég!“ segir Sigga.
Kristalshótelið er ágætt og ódýrt. Þar er net sem er dýrt. 4 Evrur per klukkustund. „It should work in your room“ segir töffarinn í afgreiðslunni en það gerir það ekki og ég fer niður í anddyri og sit með fólki sem talar við ættingja á Skype.
Netið er hægt og dettur út og er leiðinlegt. Er ekki alltaf kvartað undan tölvum?
Sigga er svolítið bitin og klæjar undan bitunum. Helvítis flugurnar.
Svo er lagt í hann. Það er stutt út á stöð og það er skýjað og ekki aveg eins heitt. Lest til Verona 12.05 og áfram til Dossobuono. Hvað er Dossobuono?
Við bíðum eftir lestinni sem er á leið frá Genf og er 15 mínútum of sein – en hún heldur brottfarartíma. Við um borð og Dísus! Vagninn er kjaftfullur og ekkert pláss fyrir töskur. Önnur stóra taskan undir sætisborðið, bakpokinn upp og hin fer í næsta vagn. Vonandi fer hún með okkur alla leið!
Hjá okkur sitja fínar eldri frúr og tala út í eitt. Landslagið líður hjá og fallegir akrar, vínekrur, ólívutré og kalkfjöll sem búið er að höggva úr. Þegar nær dregur Verona er Gardavatnið í allri sinni fegurð og þétt byggð allt í kring! Við stoppum á Porta Nuovo eða Nýja porti, bíðum smá og fylgjumst með m.a. hópi rokkara sem dragast með stóran bjórkassa sín á milli en hann léttist hratt.
Svo kemur lest sem minnir á Svíþjóð, tveggja hæða, og við skutlumst inn. Hún lokast fljótt en virðist aldrei ætla að komast af stað!
Við rennum inn á pallinn í Dossobuono og sjáum stöð sem er mannlaus, lítil, og hvert eigum við að fara? Við sjáum lítið kaffihús og konan segir okkur á brotnu máli að það séu 500 metrar í Via Cavoir og hún liggi þvert á götuna sem við eigum að fara. „Cinque minuti“ segir hún.
Við förum niður götuna. Klukkan er tvö og hitinn um 30°C. Via Caovoir finnst fljótlega en hvar er hótelið? Nóg af hótelum þarna. Hotel Europa og hotel þetta og hitt. Sigga sér hús númer 11 en hvar er þrettán? Jú, þarna er port og þarna er það. Antichi Cortili! Við inn og afskaplega ljúf stúlka tekur á mótí okkur fagnandi og segir okkur heppin. Þau séu að fara að loka vegna siestunnar! Ljúfmennskan uppmáluð. Óvanalegt. Við eigum að vera á herbergi 6. Ég elska þetta þorp. Hvernig er herbergið?
Aldrei séð annað eins á Ítalíu. Ég elska þetta hótel. Það er nýtt, nýmálað, allt alveg svakalega fínt! I love it eins og kallinn sagði!!!
Við tökum siestuna hátiðlega og fáum okkur svo göngutúr. Fólk segir „bonasera“ og við sjáum falleg hús og sætar litlar búðir. Í einni er keypt svolítið af ávöxtum og volgt vatn til að skola þá. Eg borða eina peru og ímynda mér að hún sé ræktuð í Veneto eða Fenjalöndunum. Við kíkjum í handverksbúð og listakona sýnir okkur sitt lítið af hverju en Sigga kaupir „costumo intimo“ þrátt fyrir að konan skilji ekki ensku og við ekki ítölsku. Við förum í apótek og lyfjatæknir skilur Siggu og sýnir okkur hvernig hún er bitin. „It is a horrible time“ segir hún og það fer hrollur um hana.
Við komum aftur á hótelið og fáum okkur kaffi. Þjónustan frábær og ég fæ aðstoð við netið. Svo er pizza sem er alveg svakalega góð og meira kaffi. Mikil traffik og þjóustustúlkan er aveg til í að æfa sig á enskunni segist vera með sólarofnæmi og ekki myndi þola kulda eins og á Íslandi.
Ljúfur drengur, sem er líklega yfirþjónn, segir okkur að húsin séu meira en hundrað ára og að þarna haf verið svínabú. Það séu þrettán ár frá því veitingahúsið opnaði en þrjú frá því hótelið hóf rekstur.
Við sitjum frá síðdegi fram á kvöld og sjáum kaffihúsið breytast í restaurant. Þjónustupíurnar hlaupa fram og aftur. Yfirþjónninn heilsar vildarkúnnum og eigandinn fylgist með. Rétt fyrir opnun sitja kokkarnir og undirbúa kvöldið.
Dossobuono, æði. Hótelið, æði. Fólkið, æði. I love it, æði!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli