7.7.11

Dagur duo.

Enn var klukkan margt þegar kojan sást í nótt. Við erum sein fram í morgunmat. „Sorry senjora no bread!“ En nóg af öllu öðru. Og ekki verður sagt annað en að konan sem þrífur herbergið gangi vel um. Hún meira að segja gengur afar snyrtilega frá náttkjólnum hennar Siggu!
Þegar lagt er í hann er byrjað í kasmírbúð og úrabúð sem eru hinum megin við götuna. Þar er líka kóresk búð sem selur úr í haugum (í haugum í kössum), hatta, töskur, sólgleraugu o.s.frv. í haugum á smápening. Öllu ægir saman og þegar gengið er út sér maður m.a. efnislitla nærbrók hanga við dyrnar.
Þá er að reddað afterbite og fleiru, enda Sigga uppáhald flugnanna í bænum. Skiljanlega segi ég.
Svo er lestin tekin eftir grænni línu niður í Lanza en það hjá er kastali, Castello Sforzesco.
Ég horfi á hann heldur áhugalítill (aldrei þessu vant innskot frá SÓG!). Enn eitt standard safnið EN Milanó kemur enn á óvart. Gjörsamlega. Kastalann hannaði Leonardo – þessi frá Vinci. Áhugi upp um mörg þrep.  Hann var vettvangur fjölmargra sögulegra viðburða. Upp um enn fleiri þrep. Safnið sem við förum um er fullt af flottum gripum.
M.a. eru margar Maríur með Jesúbarn, eða ekki og gaman að fara um og sjá áherslubreytingar. Fyrstu madonnurnar (sem þarna eru) eru drottningar, hnarreistar en svo mýkjast þær og þarna er ein sem er í óðaönn að brynna barninu af barmi sér. En fyrsta stóra augnablikið er í sal sem Leónardó lét skreyta. Svo eru þarna útsaumaðir reflar og svo rothöggið.
Technical knockout. Pieta. The Rodandini Pieta eftir Michaelangelo. Ófullgerð og allt öðruvísi en listaverkið í Péturskirkjunni í Róm. Guidebókin segir „can be considered „unfinihed“ solely because of the unavoidable coinsidence of the suspension of work on the death of Michaelangelo.“ Sem sé hann kláraði það ekki heldur dó... Þar rétt við er svo afsteypa af þekktri höfuðmynd Michaelangelo og Pietan stendur á fornu rómversku alltari sem minnir á skírnarfontinn eftir Thorvaldssen í dómkirkjunni.


Nú vorum við orðin svöng svo við fórum í mat í nálægum garði og fylgdumst með keppendum í X-factor sem þar voru að gera sig klára við stórt tjald.
Aftur upp í kastala og nú hlustuðum við  á tónleika þar sem ungur maður lék á gömul orgel, síðan skoðuðum við gömul hljóðfæri og síðan nytjalist.
Enn koma andstæður mér á óvart. Í trúarhlutanum var líka verið að sýna vopn og hugvit við þróun þeirra. Hér er hugvitinu beint að listum og daglegum hlutum. Er það ekki betra?
Gangan út er löng og lýkur við gosbrunn sem liggur milli Via Dante og kastalans. Við eigum sitthvað eftir en pústið búið.  Mæli með þessu!
Kaffi á Via Dante. Þjónninn spurður um skyrtur Milan liðanna og hann beðinn að segja hvor sé flottari. „Me?“ segir hann. „I go for Torino. They bottom second class“ og hristir höfuðið.
Við áfram og smælki verslað en svo er farið og borðað enda klukkan orðin meira en sjö.
Finnum café Royal, rétt hjá Duomó. Ég fæ mér Carbonara – æði, drulla eins og tengdó mundi segja. Sigga fær sér jaæira raeawerðae r (veit ekki) en það eru penne hólkar soðnir með rauðvíni, rauðsalati, reyktri skinku og einhverju fleiru og Siggu finnst það æði. Gott gosvín frá Veneto. Svartar  ólífur og brauð, nammi.
Við  þvælumst aðeins um bæinn  og þar er góð stemmning, svo heim til að pakka.
Milanó er hér með borgin sem kemur á óvart. Það hefur allt verið öðruvísi en ég ætlaði. Æði en öðruvísi. Arrivaderchi Milan!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli