9.7.11

Flakkað um Verona í leit að Dante og Napoleon!

Verona er afar sögufræg borg. Hér eru minjar frá frumkristni. Ætli þá menn hafa grunað hvílíkar kirkjur yrðu byggðar af arftökum þeirra? Hér hélt Napóleon til með her sinn. Hér börðust menn. Hér var blómleg verslun. Hér fóru um andans menn eins og t.d. Dante. Hvílíkur staður!

Við vöknum og rétt náum fyrir lok morgunmatar og förum upp aftur til að gera okkur klár í daginn. Fallegur dagur! Sól og blíða!

Á leiðinni í lestina fórum við í smámarkað (sbr. stórmarkað bara minni) og keyptum vatn. Fjórar flöskur á verði liðlega einnar annars staðar. Svo í lestina sem var gömul og þreytt.

Örkum inn í Veróna vía Nýjaport og tökum vinstri beygju við Piazza Bra´ og út í Castello Vecchia.
Það er svolítið annar bragur á í en í gær og allt afar afslappað. Laugardagur og margar verslanir lokaðar. Við leitum t.d. að apóteki en lyfsalar taka sér frí á laugardögum.


Margt að dunda á leiðinni. Castellóið er að upplagi rómverskt og þar hjá er sigurbogi frá fyrstu öld eftir Krist.












Kastalinn er hluti af borgarhliði Castelle hverfisins sem byggðist sunnan við rómversku borgina sem stendur á nesi út í ánna. Hann er rómverskur/rómanskur miðalda / gotneskur miðalda o.s.frv. blanda sem segir til um hversu oft við þann upprunalega hefur verið byggt. Þarna hélt Napóleon til með her sinn, þarna fóru hinir og þessir um götur og ég skynja sterkt sögu staðarins.






Brúin er undir suðurvegg kastalans og þarna hefur verið vel búið um varnirnar. Samt tapaði Scaligieri ættin borginni en svona er nú það. Útsýnið af brúnni er fallegt og fleiri gamlingjar en við í rómantík.










Við förum til norðurs og leitum að Porta Borsa og og áfram til Piazza Erbe og þaðan á senjóratorgið, Piazza seigneri. Þar sem Erbe er vettvangur mannmergðar, verslunar og veitingastaða er senjóratorgið friðsælt. Umhverfis það voru valdamiðstöðvar borgarinnar og þar rétt við eru fleiri undur. Maríukirkja (santa Maria antica) með gríðarlegum minnismerkjum og svo eru fleiri torg, s.s. Sjálfstæðistorgið með Garibaldi styttu og nýja leikhúsið þar sem er hátið fyrir þjóðlagatónlist. Lyle Lovett er væntanlegur.
Svo er Dante karlinn þarna sjálfur með höfuðrit sitt.
Það er hægt að þvælast endalaust um götur Verona og sjá eitthvað nýtt eða gamalt eftir atvikum. Okkur finnst við vera búin að fara um allt en samt er svo mikið eftir!!! Í hvert skipti sem sú hugsun læðist að okkur (sem oft hefur gerst í þessari ferð þó hún sé rétt að byrja) þá segjum við: „við gerum það bara næst“ ;-)






Ég stari á kirkju heilags Nikulásar (er það ekki Santaclaus?). Framhliðin er gríðarhá og þykkur marmari. Hliðarnar eru múrsteinn... Allt fyrir ímyndina.
Við komum að Arena og sjáum þá sem stefna á að ná í góð sæti á Nabuccho frumsýningu kvöldsins. Klukkan er rétt um fimm og fjórir tímar í sýningu sem stendur í um þrjá tíma. Þetta er dagsverk!
Og nú er farið að stefna heim á leið því á morgun er ferðadagur til Bologna og dagurinn verður tekinn snemma. Meira vatn hjá smámarkaðnum og bjór – lítri á eina og hálfa evru.
Þetta þorp er ekta. Klukkan er rétt um 18 og aftansöngur að hefjast. Þeir sem ekki leita Guðs síns sitja í görðum og slaka á. Sigga bendir á jarðarfarartilkynningar sem hanga á veggspjlödum og við kíkjum á Maríumynd á götuhorni.
Við snuddumst upp á herbergi og viti menn er ekki vesen með tölvuna! Vírus kominn í hana sem hleypir mér ekkert áfram. En það er hægt að nota farsíma til að fara á vefinn og það finnst lausn. Vírusinn drepinn og við erum „up and running“ síðla kvölds á ný.
Í millitíðinni förum við og borðum hér á Antichi hótelinu. Forréttur Bruschetta hjá Siggu og andabringa hjá mér. Nammi. Aðalréttur Tortelini en það er ættað frá Verona og afar ljúft! Og ég gefst upp en Sigga fær sér tómata og mozarella í secondi piatti. Stelpurnar þjóta hjá og dekra við okkur. Svo er bara upp á herbergi, Sigga brýnir naglalakksbursta og snyrtir neglur á fótum og höndum en ég set einhverja punkta á skjá.

Við fréttum af eldfjallaóróa heima. Neyðumst við til að framlengja?;-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli