12.7.11

Tvær ólíkar borgir á einum degi – er fólkið brjálað?

Það er aldeilis flottur dagur framundan. Modena og Parma á einum degi! Alvön og sjóuð tökum við strætó á Centrale og kaupum miða til Modena. Ég er spenntur. Þar er ein frægasta dómkirkja allra tíma. Hún var upphaflega reist í frumkristni en sú sem nú sést er frá 11. og 12. öld. Við tökum strætisvagn frá lestarstöðinni í Modena niður í gamla bæinn. Sigga sér í spíru kirkjunnar sem er reyndar umvafin stillönsum. Það er víðar verið að lagfæra en í Bologna. Við rjúkum út og erum nánast við kirkjuvegginn.

Það kann að hjóma annkannalega að kalla kirkju guðdómlega en það skýrist síðar. Þessi er það. Hún er rómönsk, lítið uppgerð, hlýleg og virk. Í skriftastól situr boginn gamall prestur og við stólinn liggja á hnjánum trúaðar manneskjur og iðrast. Í kapellunum er fólk við bænir og maður virkilega finnur til kyrrðar þarna inni. Við erum bæði sammála um að þarna sé gott að koma og að hún snerti okkur djúpt. Starfsmaður gengur um með að minnsta kosti fjögurra metra langa stöng með kertahjálmi og slekkur á kertunum. Inni í háaltarinu er rómönsk mynd, gylluð í bak og fyrir sem sýnir upprisinn Krist, guðspjallamennina, postulana og fl. Bekkirnir eru merktir þeim sem gáfu kirkjunni þá og maður fær snert af sögulegri vídd staðarins.

Síðan er flandrast um borgina, aðaltorgið og smágötur. Á einum stað gengur framhjá kona og segir etthvað um frutti og gondóla og strada og er frekar pirruð að því mér finnst. Ég held hún hafi sagt eitthvað í áttina að við værum alveg frutti að standa þarna eins og gondólar á miðri götu. Sigga er viss um að hún sé að vísa okkur á ávaxtamarkað. En hvað var þá þetta með gondólana?

Við nánari eftirgrennslan gat það verið rétt því þarna rétt hjá er risamarkaður fullur af búðum og básum þar sem hver bás er með sína matvöru, - ost, fisk, ávexti, brauð o.s.frv.
Eldri kona (eiginlega ævaforn) stendur við einn básinn og fer stórum. Henni er greinilega mjög misboðið og grýtir ýmsu lauslegu t.d. ávöxtum, tómötum og fl. í kaupmennnina og kallar Mamma mía! Fólk horfir á og þetta er frekar súrrealistískt. Kona á bás sem selur m.a. baccala (uppruni ekki tigreindur) vill bjóða Siggu að smakka balsamedik og sú var fljót að þiggja. Hér er nýtt, svo er tíu ára, 20 ára og 40 ára. Og Sigga lygnir augum. Við kaupum sýnishorn en elstu gerðirnar voru á 50 evrur 100 ml...
Það er heitt!

Modena er falleg, hrein, iðar af lífi.

Og allur þessi matur. Eru virkilega til svona margar tegundir af olívum og ferskjum og perum, olíum, skinku, ostum og svo framvegis?

Svo kemur síestan og allt lokar nema barir, kaffihús og flestar kirkjur.

Eitt vekur mjög aðdáun okkar en það eru hjólreiðamenn sem reykja eða tala í símann á ferð eða hvort tveggja, maður þarf nú að vera dálítið laginn (og með margskiptan heila) til að ná þessu öllu saman í einu.

Við förum víða um bæinn, gamla miðbæinn sem er ekki stór, stoppum á kaffihúsi og svo framvegis. Í norðurhlutanum er háskóli og „senior, prego, its the ducal palazzo...“ segir einn vegfarandi sem gekk fram á okkur með kortið á lofti og það hefur ekki verið neinn smá dúkur sá því hertogahöllin er gríðarstór.

Vatn, segir Sigga, vatn, vatn! Það renna í okkur lítrarnir og það sem ekki gufar út fer í næsta toilett. Almennt er fólk ákaflega almennilegt við okkur sem ekkert skiljum og reynum að gera okkur skiljanleg á ensku og svo með handapati. Ótrúlega skilningsríkt og þolinmótt. En hvað þýðir þetta prego? Prego, prego, prego og jafnvel fleiri í röð. Stundum finnst mér það þýða „búinn að fá nóg af þér, get lost!“
Svo lest til Parma sem er allt annað dæmi. Parma varð fórnarlamb gríðarlegra loftárása bandamanna árið 1944. Hún er því miklu nýrri en t.d. Verona. Bandarikjamenn, sem vildu bjarga okkur frá fasisma og nasisma og kommúnisma og guð veit hverju, sprengdu því allt sem þeir töldu þurfa og svo átti bara að byggja nýja veröld síðar.

Á háskólasvæðinu varar Sigga mig við líklegum vasaþjófi, strák sem var úinn að vera að vesenast í kringum mig og tekur stefnuna annað þegar hann finnur athyglina sem við allt í einu veittum honum. Við þvælumst um og þarna er ekki síður margt að skoða. Matarbúðir með parmesan og parmaskinku og parmavíni!

Dómurinn er frá sama tíma og duomo í Modena að utan en innvolsið er æpandi barokk eins og handbókin segir. Hún er yfirhlaðin og ekki guðdómleg (sjá framar). Eitt verk frá 12. öld enn þarna og freska líklega frá um 1300. Við hliðina á henni er lítil kapella sem er mun meira aðlaðandi.

Parma er falleg, hrein og iðandi en ekki eins notaleg að mínu viti. Gaman að koma þarna samt og væri ekki leiðinlegt að eiga þarna daga við skinku og ost og lambrusco!

Á morgun Flórens og nú er ég að fara á draumaslóðir. Svona er bara gaman.

Eftirþanki. Einhver góður lesandi snaraði texta gærdagsins á google translate. Það var sumpart bara vel heppnað en stundum svolítið skringilegt og ótrúlega fyndið. Til dæmis varð Sigga að Beth. Svona gerist þetta stundum. Jæja Beth komdu að sofa, langur dagur á morgun!
Við kveðjum Ramada hótelið og morgunverðarborðið full söknaðar og hlökkum til að sjá Flórensku villuna sem við verðum í næst!

Meira á morgun!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli