26.4.12

Sjö atriði sem hafa áhrif á stöðu verknáms á Íslandi

Ég sat á dögunum mjög gott þing um starfsnám á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Rétt eina ferðina var mikil áhersla lögð á að efla starfstengt nám. Vissulega er rétt að það þurfi að efla starfstengt nám, ekki síst þegar litið er til þess að 30% allra sem innritast í framhaldsskóla ljúka ekki prófi og vaxandi hópur lýkur fyrst bóknámi en fer svo í verknám. Til hvers að stytta stúdentsprófið vegna þess að það er svo dýrt og þangað sækja svo margir? Hvernig væri að efla námsráðgjöf?
Eftir þennan fund sátu nokkur atriði í mér sem ég tel að standi starfsnámi á Íslandi fyrir þrifum.
Hér eru þau:
  1. Áherslur grunnskólans. Langstærsti hluti náms og kennslu í grunnskóla, skv. námskrá, er bóknámsmiðuð og undirbúningur undir bóknám. Breyting á þessu myndi breyta mmiklu.
  2. Fjölmargir skólar eru markaðssettir beint og óbeint í gegnum umfjallanir um eftirsótta skóla, vinsæla skóla. Hér eru fjölmiðlar mjög mikilvirkir. 30% nemenda sækja í þá,- sem er ekki óeðlilegt en önnur 30-40% sækja í skóla sem þau telja að bjóði það sama, - en þar sem inntökukröfurnar eru lægri (þ.e. þeir þjóna öllum en ekki sumum - eða reyna  það allavega).
  3. Þær keppnir milli framhaldsskóla sem mest eru áberandi miðast frekar við bóknámsskólal en starfstengt nám. Gettu betur, Morfís og Söngkeppnin. Þess vegna var frábært að Tækniskólinn vann Söngkeppnina. Þær eru mun fleiri nota bene!
  4. Viðhorf á almennum vinnumarkaði (og í samfélaginu) gera það að verkum að menn taka alveg eins ófaglært fólk, eins og faglært, sem jafnvel gerir kröfur um laun og vinnuaðbúnað. Erum við ekki hrifnari af þeim sem lært hafa í skóla lífsins?
  5. Atvinnugreinar hafa þróast þannig að fjölmargar starfsgreinar hafa breyst. Vélvæðing, tölvustýring, mannfækkun í mörgum greinum er áberandi. Ekki á sviði þjónustu, opinberra starfa og fleiri greina. Hvers vegna ættu nemendur að læra til starfa í grein þar sem vélar hafa tekið við vinnuafli? Þá eru margar greinar afar bundnar fjöldatakmörkunum þannig að þeir einir komast á samning sem eru rétt ættaðir. Það er að minnsta kosti orðsporið.
  6. Fordómar eru miklir í garð starfsná´ms sbr. setninguna sem ég heyrði á ráðstefnunni að það séu ekki bara nemendur sem geti ekki lært sem farið í verknám. Varla góð auglýsing. Þá er alþekkt að sagt sé við nemendur á efstu stigum grunnskóla að svona klókir krakkar eigi fullt erindi í menntaskóla (eða nemendur sem eru í þessari stöðu eigi það ekki...).
  7. Minnimáttarkennd. Viðhorf margra sem þarna töluðu voru lýsingar á fólki sem hafði farið inn og út úr skólakerfinu. Meðal annarra var maður með tvö sveinspróf, á líklega fimmtugsaldri sem sagðist vera núna tilbúinn til að fara að læra. Hvernig fékk hann sveinsprófin?
Sem sé númer eitt - breyta grunnskólanum! Númer tvö efla það sem kallað er á ensku attitude. Kannski það sem þjálfari sagði við mig um leikmann: ,,Hann hefur þetta f**k you attitude þannig að honum er alveg sama þó ég skammi hann. Sumir bara kikna."  Ef starfsnám er flott (sem það er) þá skulum við bara keyra á fleiri svona mót eins og iðnnemasýninguna í HR í ársbyrjun, vera með attitude og bera virðingu fyrir okkur sjálfum. Og bera virðingu fyrir menntun. Hún fæst ekki bara í háskóla.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli