7.5.12

Hjakkað í sama fari


Einhvers staðar las ég, haft eftir Einstein ef ég man rétt að ef maður geri alltaf sömu tilraun, með sama efnivið, þá fái maður sömu niðurstöður. Þetta er reyndar grunnur vísindarannsókna. Nefnilega að skýrslur verði að vera þannig úr garði gerðar að hægt sé að endurtaka tilraunina og fá sömu niðurstöður.
Sem þýðir að ef menn vilja fá eitthvað nýtt fram þurfa þeir að vera nógu kjarkaðir að breyta.
Mér var t.d. kennt að þegar maður væri í veiði og yrði ekki var í tíu mínútur, þá ætti maður að færa sig.
Mér finnst ástæða til að nefna þetta af mörgum ástæðum.
Ein er sú að ítreka þjóðfélagsumræðuna sem er föst í þrætulás sem oft hefur verið bent á hér á þessari síðu. Leiða má líkur að því að umræðan á þinginu og víðar sé svo föst í dauðalás að mikilvægt sé að skipta þar út, líka  reynsluboltunum enda eru þeir svo hagsmunatengdir að bókstaflega æpir á þá sem fylgjast með.
Stjórnlagaráðið sýndi vel að umræðan getur vel gengið ef menn vilja það í raun.
Annað dæmi er rök þeirra sem vilja heldur reynsluboltann sem nú býr á Bessastöðum, sjötugan, frekar en nýja ferska strauma, af því að þeir eru svo reynslulitlir. En reynsluboltinn hefur hins vegar skipt um skoðun eins og aðrir skipta um sokka og er því furðulegt að menn skuli hugsa svona.
Kennaramál eru enn eitt dæmið. Kennarahúsið er stútfullt af reynsluboltum. Það er svo fullt að það er varla pláss fyrir fleiri en viti menn. Rétt eina ferðina kynna menn þar hvernig laun kennara hafa skriðið niður. Nýútsend gögn frá FF (apríl 2012) sýna þetta undir fyrirsögninni Slök launaþróun í framhaldsskólum. Þess vegna sjá menn í Kennarahúsinu ástæðu til að velja sömu traustu reynsluboltana til samninga, sömu og hafa staðið vörð um þá þróun sem hingað til hefur verið, - að engin bót fáist launaboruna nema sex vikna verkfall komi til. Og verkfall hefur áhrif á m.a. lífeyrisrétt manna.
Það að þora að breyta til er mikilvægt element þeirra sem hafa kjark. Ég minnist t.d. Þorbjarnar Jenssonar sem þjálfara sem oft vann leiki út á áhættusamar ákvarðanir. Enda sagði hann einhvern tíma að þegar ekkert væri að ganga þá væri alveg eins gott að breyta til.
Nokkuð sem fleiri mættu íhuga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli