Ég held að íslenska þjóðin þurfi samtalsráðgjöf. Nýleg lýsing MargrétarTryggvadóttur á störfum alþingis staðfestir það sem áhorfendur skynja um lýðskrum og
sýndarmennsku svo ekki sé nú talað um algjöran flótta frá raunveruleikanum.
Menn eru eins og hundar sem gelta hver á annan en þora ekki í slaginn um það
sem í raun skiptir máli. Aukaatriðin fljóta og nú í lok vetrar eru árvissar
fréttir um málþóf og gíslatöku mála á þinginu þar sem fleiri tugir mála bíða
þess að ríkisstjórnin falli frá lykilmálum til að koma haugnum til afgreiðslu. Það
mun gerast með ógnarhraða og óvönduðum lagasetningum, - að venju.
Umræðan er föst í einhvers konar orðaskaki þar sem einn kennir öðrum
um. Stjórnarandstaðan kennir ríkisstjórninni um að ekkert sé að gerast og
stjórnin kennir sjálfstæðisflokki og framsóknarliðinu um kreppuna. Bestir eru
þó hreyfingarfélagar sem láta eins og hvítþvegnir englar, löngu búnir að gleyma
því að þeir sýndu kjósendum sínum og lýðræði í venjulegum skilningi fullkomna
vanvirðingu með því að segja sig frá flokknum en sitja sem fastast í eigin
umboði.
Og svo kemur hræðslan. Aldagömul taktík sem hefur dugað vel, eins og
Pétur Gunnarsson bendir á í sjónvarpsþáttum
um 18. öld. Þá var það hræðsla við kónginn, almættið og valdsmenn. Núna fer
áróðurinn ekki í gegnum kirkjurnar eins og þá var heldur fjölmiðla.
Þegar ég var í sagnfræðinámi erlendis á sinni tíð þá var mér kennt að
finna þá sem ættu mest undir í málefnadeilum. Það eru þeir sem beita sér
harðast þegar að þeim er vegið. Þegar stækka átti álverið í Straumsvík (2007) sinni tíð var sá boðskapur látinn út ganga að ef stækkunin fengist ekki yrði
álverinu lokað og atvinnuleysisvofan gengi yfir Hafnarfjörð. Sú stækkun sem þá
var ráðgerð var felld, álverið starfar sem aldrei fyrr og fann aðrar leiðir til
stækkunar.
Þegar litið er yfir farinn veg þá má finna mörg svona dæmi. Álversmenn,
eða eigendur þess, áttu mikilla hagsmuna að gæta. Ekki vegna Hafnarfjarðar og
atvinnu þar heldur vegna gróðavona. Ef hagur Hafnarfjarðar var svona mikill
hefðu menn ekki átt að hóta að loka heldur lofa að finna aðrar leiðir til gróða
og atvinnusköpunar.
Það eru fleiri svona mál. Núverandi ritstjóri Mogga er líklega búinn að
gleyma Útvarpi Matthildi sem kallaði Sjálfstæðisflokkinn Sjálfgræðisfokkinn (og Framsókn Framagosaflokkinn - viðeigandi þessa dagana). Og ef líta skal til
sögunnar er merkilegt að hann líki ESB umsókninni við landssal.
Eitt það heitasta er þó kvótafrumvarpið, sem er vitaskuld aðalástæða
þess að stjórnarandstaðan heldur þinginu í gíslingu, - undir þeim formerkjum að
stöðva fækkun ráðuneyta. Mjög sérstakt. Fækkun ráðuneyta var eitt sinn
baráttumál Sjálfgræðis, - afsakið – Sjálfstæðismanna. Og það lá á borðinu í
stjórnarsáttmálanum þó örvæntingarfullir andstæðingar ESB láti líta út fyrir að
ástæða þess að ESB vilji innlima Ísland, taka af okkur öll völd (veit ekki
hvort Bretar vissu að þetta var gert við þá...) sé olían við Ísland. Hve djúpt
er hægt að sökkva? Spunaruglurum er ekkert ómögulegt.
Árin 1942-4 var efnahagslífið í kaldakoli. Hér sat
utanþingsstjórn vegna þess að þingið gat ekki myndað stjórn. Þá var aðalmálið
að komast til botns í því hvort hér ætti að stofna lýðveldi eða ekki. Eins og
snillingurinn Pete Seeger sagði: „When will we ever learn...“ en þar sem hann
er bæði útlendingur og heimskur Kani þá hlustum við snillingarnir ekki á
svoleiðis. Nó vei.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli