Við erum alveg merkilegt samfélag. Velti þessu oft fyrir mér.
Það eru víða Íslendingalið í íþróttum. Þar spilar þá eða þjálfar
einhver landinn og þar með er liðið Íslendingalið. Þó svo landinn sitji jafnvel
á hliðarlínunni alla leið.
Þá má ekki koma hér stórstjarna öðru vísi en að verða Íslandsvinur.
Hingað kemur þetta blessaða fólk til að slaka á og frægasta dæmið kannski John
Travolta þegar hann var spurður á landganginum úr flugvél sinni „How do youlike Iceland?“
Ein Kryddpían varð tengdadóttir Íslands fyrir að giftast orðlögðum og
glæsilegum hestamanni. Hingað streyma útlendingar frá Austur Evrópu og vilja
bar stunda glæpi eða sitja í fangelsi hér á landi. Það er varla að opnuð sé
spennubók hérlend þessa dagana nema þetta sé þemað og er nýjasta Stella
Blomquist mjög á þessu plani.
Aftur á móti sækjum við helst íslenska fanga í útlöndum því þeir eiga
betra skilið en sitja í vondum fangelsum.
Útlent foreldri sem forðar sér með hálfíslensk börn úr landi undan ofbeldi
eða af trúarástæðum er barnsræningi en íslenskt foreldri sem hingað flýr með
börn sín er hetja og flóttamaður.
Og það voru meira að segja vangaveltur á dögunum hver þriggja manna
hefði barnað konu, - einn var útlendur ef ég man rétt. Sú umræða minnti mig á
kafla í Íslandsklukkunni (15. kafla) þar sem danskur herforingi spurði Jón Hreggviðsson
m.a. hvort satt væri að íslenskar stúlkur
teldust jómfrúr ef þær hefðu eignast færri en sjö börn með útlendingum?
Og furðufrétt ársins að menn hefðu farið að spá í hvort við hefðum átt
fulltrúa á lista fórnarlamba Titanic, - eitt hundrað árum seinna!
Kannski lifnar við myndin sem Þórbergur Þórðarson dró upp af einfaldri
heimssýn Kennarskólans. Sheffield – saumnálar, Nottingham – blúndur o.s.frv.
Enginn kúltur bara stál og hnífar, - og blúndur.
Eða mynd Dickens af grunneðli mannskepnunnar. Oliver Tvist fæddist í
nafnleysi á fátækragarði, var vistaður meðal óartugra drengja, þvældist til
glæpamanna en af því hann var af góðum ættum þá komst hann til afa síns og varð
góður maður. Hitt hyskið fór sína leið.
Einu sinni rakst ég á bók sem taldi Íslendinga vera týndan þrettánda
ættlið gyðinga. Erum við kannski Guðs útvalda þjóð?
Það skyldi þó aldrei vera!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli