Hversu fullkomið er íslenska skólakerfið?
Í fyrsta lagi er að minna á að framhaldsskólakerfið er
sérstakt á Íslandi vegna þess hve margir skólanna eru litlir, þó svo
námsframboð sé afar fjölbreytt í um
þremur fjórðu hlutum þeirra. Annað er að
inn í kerfið fara nær allir skyldunámsnemendur. Þrír af fjórum fara í bóknám.
En á ársgrunni er þetta flóknara. Ef litið er á stöðu innritunar núna í lok
júní segir INNA mér að umsóknir í kerfinu hafi verið um 14 þúsund (allt val)
og samþykktar hafi verið um 7700. En þetta er ekki alveg einhlítt. Ef ég tek
einvörðungu afgreiðslu fyrsta vals þá fæ ég að umsóknir hafi verið um 8800 og
6800 hafi fengið skólavist eða 77%.
Skólaárið 2011-12 voru alls um 14 þúsund umsóknir í fyrsta
vali í haust og vor innritun. Þetta eru stórar tölur í kerfi sem hýsir um 30
þúsund manns.
Þegar samsetning hópsins er skoðuð sést að liðlega helmingur
allra framhaldsskólanema er skráður til bóknáms (Hagstofan), hinir í verknám og
almennt nám. Þegar útskriftir eru skoðaðar þá eru um 40% hópsins stúdentar en
aðrir verknáms eða starfsréttindanáms.
15% sem eru skráð í almennt nám útskrifast ekki þá leiðina
og milli 25 og 30% ljúka aldrei skv. tölum Hagstofunnar, OECD eða rannsókna.
Krakkarnir sem koma úr skyldunámi í framhaldsskóla hafa
verið í skólakerfinu frá tveggja ára aldri, allavega vaxandi hópur. Nú munu um og
yfir 9 af hverjum 10 börnum á aldrinum tveggja til sex ára vera á leikskóla. Þegar þau hafa lokið
starfsréttindanámi eða stúdentsprófi (að landsmeðaltali) hafa þau verið um og
yfir 18 ár í skóla og hugsanlega hátt í tuttugu ár í fóstri/skóla. Ætlar
einhver að halda því fram að ekki megi leysa þetta með öðrum hætti? Erum við að
skora svo hátt á heimsvísu miðað við skólakerfi sem halda nemendum sínum
skemur?
Samantekt: Eitt verkefnið sem við þurfum sem skólastig að
finna út úr er brottfallið, hversu mikið vandamál er það í raun og hvað viljum
við gera í því máli. Raunverulega.
Markmið skólastarfs
Skv. námskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þá eru
grunnmarkmiðin þau sömu. Þetta þótti stórt skref 2008. Markmið grunn- og
framhaldsskóla hafa lengi verið þau sömu í grunninn.
Við erum búin að gera ótrúlega byltingu í skólamálum frá
áttunda áratugnum. Finndu bókina um alþýðufræðslu og skoðaðu kaflann í seinna
bindinu um framhaldsskólann. Í fjörutíu ár höfum við þó tekist á um tvennt.
Brottfallið og hvað kerfið ætti að bjóða upp á. Á þessum tíma hefur
meginþunginn verið á stúdentsprófið og kröfur HÍ. HÍ er eini utankerfisaðilinn
sem við fundum með sem skólastig. En hversu umdeilt er stúdentsprófið? Kem að
því neðar!
Eitt af því sem hefur verið gert er að setja stiginu ramma.
Fyrstu lögin um framhaldsskólann sem heild voru sett 1988, til að lögfesta
orðna hluti, og námskráin í kjölfarið kortlagði skólakerfið,- nema að vísu
bekkjarskólana. Þeir voru svona cirka eftir kerfinu (alla vega var það mat
kennara MS um 1990).
Næstu lög voru 1996 og námskrá 1999 og áttu að setja kerfinu
viðmið, staðla, samræmd próf o.fl. Þau komu eftir nokkuð mikil pólítísk átök
(1988-91 umræðuherferð Gerðar G. Óskarsdóttur
og framtíðarsýn sem af því kom; 1991-1996 18 manna nefndin). Staðlarnir
komu aldrei og samræmdu prófin dóu en námskráin hélt vatni sæmilega.
Næsta deila hefur staðið megnið af þessari öld. Hún er
þríhliða milli skólanna, ráðuneytis og stéttarfélags. Engin heildarlausn hefur
komið út og svo virðist sem heill skólakerfisins sé tengd kjarasamningum frekar
en hagsmunum nemenda. Eða það er mitt mat.
Er ég sá eini sem sé ágalla þeirrar hugsunar?
Hins vegar hófst þessi vinna undir stjórn Alþýðubandalags,
fluttist til sjálfstæðismanna (voru þeir ekki fjórir, - Ólafur, Björn, Tómas og
Þorgerður) og þaðan til vinstri grænna. Samt er meginstefnan búin að vera sú
sama hjá stjórnvöldum...
Summa: þróun skólanna hefur verið gríðarleg að hvað varðar
regluverk og starfshætti en spurningin er um inntakið...
Grunnþættir menntunar o.fl.
Eitt bitbein umræðunnar hafa verið grunnþættir menntunar.
Þeir hafa þróast misjafnlega en ég ætla ekki að taka þá fyrir sérstaklega enda
er þeim ágætlega lýst í námskrá.
Hins vegar er vandinn við þá, hér á landi eins og annars staðar,
að við erum ekki með LÝÐ(ræði)103 eða JAF(nrétti)103 o.s.frv. Við erum með SAG,
og LÍF og allar þessar gríðarlega merkilegu greinar sem allir verðandi háskólaborgarar
þurfa að kunna.Hvað þá heldur að við séumað þvæla heiðarlegum trésmiðum í SJÁ(lfbærni)
eða vélvirkjum í LÆS(i).
Þessir grunnþættir eru ekki einkauppfinning Katrínar
Jakobsdóttur. Með smá leit á google má finna fjölmörg svipuð dæmi. Svo virðist
að í samfélögum þar sem er dvínandi kosningaþátttaka, aukin vantrú á
stjórnsýslu og stjórnmálamenn o.s.frv. (á við Vesturlönd almennt) þá telji menn
þessa nálgun mikilvæga, - nema kennarar. Það er mikilvægt að stagla á málfræði
og algebru og sögulegu fakta, - enda gerir HÍ kröfu um það.
Summa: grunnþættir menntunar eru vel skilgreindir en falla
ekki að námsgreinum skólanna. Hver skyldu vera réttu viðbrögðin við því?
Þekking, leikni, hæfni og þrep
Hér eru tvö vandamál. Eða verkefni. Frá því ég kom að
þessari vinnu hefur eitt stærsta verkefnið verið – hvert átti þriðja orðið að
vera? Og alla tíð ljóst að þar myndu málvitrir menn finna sér tilefni.
Þetta eru tilraunir til að þýða orðin Knowledge
(þekkingargrunnur), Skills (að geta unnið verkefni, lært handbragð) og
Competancy (að tengja þetta tvennt saman). Svolítið eins og Hegel – tesa /
antitesa / syntesa.
Hvað átti Competancy að heita? Hæfni, færni, ein tilraunin
var þríleikurin afla-greina-miðla. En það lá alltaf ljóst fyrir að þetta yrði
bitbein, þ.e. merking síðasta orðsins. Ekki inntak þessa skipulags sem er
vissulega fengið m.a. frá Evrópusambandinu en það fékk þetta frá m.a. Nýja Sjálandi
og Ástralíu.
Og víðast þar sem ég hef sambönd, virkar þetta ágætlega.
Hugsanlegt væri að við fengjum betri botn í málið ef við
kynntum okkur t.d. hvernig þetta er gert erlendis, í öllum mögulegum greinum,
frekar en horfa út á sjóinn og leita að orðum sem eru samheiti við hæfni.
Sama gildir um þrepin. Þetta er sáraeinfalt og gott kerfi
sem samkvæmt alþjóðasamstarfi (t.d. Bolognaferlið) virðist bara ganga ágætlega.
Hví skyldi það ekki ganga hér? Vissulega hugsað fyrir háskóla en vel
yfirfæranlegt á skólakerfi í heild.
Summa: Við erum ekki ein í heiminum.
Miðstýrt – dreifstýrt
Eitt bitbeinið er hver á að ráða hverju.
Þegar lögin voru sett 1988 og námskráin, var nokkur urgur í
þeim sem leiddu fjölbrautaskólabyltinguna vegna þess að búið væri að taka
sköpunarvaldið af skólunum. Þú getur flett upp í afmælisriti Jóns Böðvarssonar
og litið m.a. á greinar eftir Jón Hjartarson og Kristján Bersa ef þú trúir mér
ekki. Þegar fyrstu drög 18 manna nefndarinnar birtust líklega 1992 jókst þessi
urgur enda átti að taka upp miðstýrt kerfi.
Aðalsteinn Eiríksson sagði mér 2008 að sú miðstýring hefði
algjörlega misheppast og áfangaheitum hefði fjölgað gríðarlega frá 1999 til
2008.
Þegar dreifstýringin hófst 2008 var líka urgur. Þar sem menn
voru á móti því að valdið yrði tekið af skólum og kennurum 1988 og 1996 var
núna allt vitlaust yfir því að ráðuneytið nennti ekki að sinna þessu og ætlaðist
til að skólarnir bara gerðu þetta?
Gott og vel – þetta er einföldun en summan er: ...
Nokkur vandamál eða eru það verkefni?
1.
Varðstaðan
Síðustu allmörg árin hafa menn viljað standa vörð um
framhaldsskólann, þetta mikilvæga kerfi. Samtök kennara fóru hamförum milli
2002 og 2008 vegna þessara mála, töluðu um skerðingu náms og margt fleira.
Um hvaða kerfi vilja menn standa vörð? Kerfið fyrir 2008 með
30% brottfall? Kerfið fyrir 1996 með þrjátiu prósenta brottfall? Kerfið fyrir
1988 með þrjátíu prósenta brottfall? Kerfið fyrir 1970 sem var opið um fjörutíu
prósentum úr árgangi?
Kerfið er fyrst og síðast eins og farartæki. Það er
bílstjórinn sem stýrir því. Það var fólk sem hannaði það. Það er ekki
náttúrulögmál eins og árstíðirnar.
Ég hef áður spurt – um hvað vilja menn standa vörð? Inntak? Skipulag?
Er víst að inntak menntaskólanna á t.d. sjöunda áratugnum
hafi enn gildi? Er rétt að byggja á verklagi og iðngreinum millistríðsáranna?
Vilja menn bekkjarkerfi? Áfangakerfi? Fjölbrautakerfi? Tveggja ára skóla? Fjögurra
ára skóla? Sveigjanlegar námsbrautir? Sumarskóla? Fjarnám? Dreifnám? Öldungadeildir?
Allt þetta?
Ég játa að mér fallast hendur þegar t.d. forysta KÍ talar af
þunga um að standa vörð um eitthvað. Mér myndi nægja að þeir stæðu vörð um
launin mín og sýnist ekki veita af.
2.
Það verður vonlaust að meta nám milli skóla
Í fyrsta lagi endurspegla svona ummæli vanþekkingu á
þrepakerfinu. Notkun einingakerfisins er miklu stærra vandamál. Í um fjörutíu
ár höfum við verið að þróa mat á milli skóla. Flestir áfangastjórar eru orðnir
fjári leiknir við það. Ég mæli með því að þeir setjist árlega á fund /
ráðstefnu á fínu hóteli með góðan mat og ræði EKKI INNU heldur mat á námi.
Slíkur ársfundur myndi sjá til þess að þetta yrði aldrei vandamál.
Og ef þetta er það verkefni sem mest er um rætt í
skólakerfinu, - ekki nýjar námsbrautir, námsgreinar, o.s.frv. þá er ekki mikið
að þessari námskrá.
3.
Hvernig leysum við þetta með stúdentsprófið?
Vill einhver segja mér hvert vandamálið er? Þessa öld hefur
ótrúleg vinna farið í að ræða þetta blessaða stúdentspróf. Af hverju? Langflestir
nýnemar vilja komast í þetta nám. Það hefur yfir sér flott yfirbragð, sætar
húfur og það birtast miklu frekar myndir af stúdentum í blöðum eða fréttir af
keppnum milli bóknámsgreina en myndir af dúxum í iðnnámi.
Eitt stærsta ætlunarverk þeirra sem sömdu nýja námskrá (og
lög) var að leysa eftirfarandi:
1.
Hvernig breytum við því að meðal
framhaldsskólaneminn er fimm ár eða lengur í skóla?
2.
Hvernig drögum við úr brottfalli með því að gera
nemendum mögulegt að ljúka frekar en flosna upp?
3.
Hvernig byggjum við starfstengt nám sem er
spennandi og á nýjum sviðum?
Af hverju erum við uppteknust?
Stúdentsprófinu...
Summa summarium:
Í rannsóknarskýrslunni frægu um hrunið sem allir eru að
hamast við að gleyma segir einhversstaðar að vandinn hafi ekki verið kerfið eða
skortur á reglum. Vandinn hafi verið að kerfið stóð harðan vörð um það að fólk
kæmist fram hjá reglunum.
Mér finnst umræðan um framhaldsskólann svipuð. Við erum svo
upptekin af skökkum málum að við sjáum ekki sóknarfærin og möguleikana í
kerfinu. Sú stefna sem mörkuð var 2008 og í námskrá 2012 var afrakstur umræðu
sem hófst í kjölfar laganna 1988 sem var afrakstur umræðu sem hófst 1965. Það
eru sterkir rauðir þræðir sem rekja má allt frá þeim tíma. Þessi umræða er að
verða fimmtug. Hvernig væri að fagna afmæli hennar með því að klára málin sem
hafa verið að þvælast fyrir okkur allan þennan tíma?
Eða er það er önnur umræða.
mþ
Engin ummæli:
Skrifa ummæli