15.5.13

Einn að verða búinn að fá nóg.



Þessa dagana er skólamálaumræðan afskaplega lituð af slagorðinu brottfall/brotthvarf sem og lausnum sem verkefnahópur á vegum samráðsvettvangs um aukna hagsæld hefur lagt fram.
Það merkilega er að menn eru svo uppteknir af skýrslunni sem kom núna að þeir gleyma að nærri samdóma skýrsla kom út 13/11 sl. og ein líklega 2008, 2003 auk samantekta frá Samtökum atvinnulífsins aftur og aftur auk fleiri heimilda (Forsætisráðuneytið, 2012; Magnús Þorkelsson, 2005; Menntamálaráðuneytið, 2003).
Mig langar aðeins að benda á örfá atriði sem rétt er að hafa í huga í þessari umfjöllun.
Íslenskt skólakerfi er það dýrasta í heimi.
Skýringar þess eru margar. Stærsta skýringin heitir dreifðar byggðir. Skólar eru gjarnan hryggjarstykki hinna minni byggða. Ef við tökum þá burtu hrynja byggðirnar. Fyrir þessu eru rannsóknir.
Hins vegar er hlutfall launa í þessum útgjöldum undir meðalviðmiðum OECD (sjá Education at a glance 2013). Í hvað fer þetta þá? Steypu? Skólaskrifstofur? Ráðuneyti? Aðkeypta vinnu?
Alltént ekki í laun því íslenskir kennarar eru með launalægri kennurum í OECD.
Annað sem oft er sveiflað um er að það þurfi að stytta skólann – grunnskóla um ár og framhaldsskólann um ár. Rangt. Þetta var gert í lögum 2008 (Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008, 2008; Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 2008). Grunnskólar mega útskrifa nemendur úr 9. bekk ef viðkomandi nemendur uppfylla skilyrði og framhaldsskólar mega útskrifa þegar nemandinn hefur lokið tilteknu prófi Hér er tvennt að benda á að auki.
Annað er að að það er beinlínis rangt að ætla öllum nemendum grunn- og framhaldsskóla að fara í gegn samstíga og jafnhratt. Réttara væri, upp úr 7. bekk grunnskóla, að leyfa nemendum að fara eins hratt og þeim hentar. Auk þess að draga úr bóklegu hlutverki hans og kynna nemendum raunverulegt verknám sem valkost. Vissulega þarf að taka til í framhaldsskólanum en nú beinum við nær öllum tíundu bekkingum í bóklegt framhaldsskólanám sem er undirbúningur undir háskóla.Það er einhæft.
Hitt er að nokkrir skólar (MR; MS; MA; ML; VÍ) eru skipulagðir sem fjögurra ára skólar. Þeir taka 30-40% nemenda úr 10. bekk. Þeir taka nær eingöngu nemendur með háar einkunnir. Þessi nemendahópur er markhópurinn til að ljúka grunnskóla á níu vetrum og framhaldsskóla á þremur. Meðan við beinum blóma árgangsins þessa leið og teljum hana vera viðmið menntunar þá viðhelst kerfið því stór hluti þeirra sem fer í aðra skóla þarf lengri tíma eða annað nám en í boði er.
Þess vegna á að miða við færni, kunnáttu og getu en ekki árafjölda.
Hér er  meira brottfall en annars staðar.
Nei. Hér er alltof hátt brottfall en á Vesturlöndum hætta 20-40% árganga eða klára ekki framhaldsskóla (Lamb, 2011). Í sumum löndum innritast allir en í öðrum fá ekki allir að innritast. Þeir seinni teljast alla jafna ekki brotthvarf. Í sumum löndum útskrifum við einungis þá sem standast en í öðrum eru nemendur útskrifaðir með fall. Þeir föllnu útskrifuðu teljast ekki brottfall. Þessa tölfræði þarf að skoða og skilja því verið er að bera saman ólík kerfi að skipulagi, inntaki og fleiru (Dale, 2010; European commission, 2011, 2013; Eurostat, 2009; Gyönös, 2011).
Kennarar vinna of lítið
Kennari vinnur 1800 klst á ári. Það er að fráteknu sumarorlofi og almennum frídögum sem falla á vinnudaga. Ef kjarasamningur segir að staðinn tími í stofu sé 34% þá er rétt að minnast þess að tímann þarf að undirbúa, standa og oft fara yfir verkefni. Það er reiknað sem 1,7 til 1,8 klst. Ef ég man þetta rétt. Ef kennarinn er eingöngu að passa börnin, ekkert að undirbúa og ekkert að leiðrétta þá er hægt að hugsa að auka hlut kenndra tíma og jafnvel stækka hópa, en ef við viljum faglegt starf þá má ekki tala svona. Ef við reiknum vinnutíma þingmanna og bæjarstjórnenda eingöngu út frá þingfundum og bæjarstjórafundum eða þá fréttamanna eingöngu út frá fréttatímum þá held ég heyrist baulað.

Nóg, nóg nú er nóg!

Það er óþolandi að sitja undir því ár eftir ár að hlusta á stjórnvöld berja á hópi sem er með nánast einhver lægstu laun faglærðra opinberra starfsmanna, hóp sem þarf orðið fimm ára háskólanám, vinnur þrotlaust hvað sem hver segir, og af samviskusemi. Og sömu vinnuveitendur sýna þessum undirmönnum sínum framkomu sem er engu lík. Skyldi google vera rekið svona? Nei. Eða CCP? Eða Landsbankinn? Varla.  

Það er óþolandi að þurfa að sitja undir þessu ár eftir ár. Ef laun kennara væru í samræmi við t.d. þá hópa sem þurfa jafnmikla menntun, eða miðuðu við launakerfi t.d. google, þá væri ekki stál í stál endalaust heldur hægt að fá allskonar hluti fram til viðbótar við það sem nú fæst án þess að nuddast um krónur og aura. Ef fólk finndi að því væri treyst, verk þess metin í stað þeirra viðhorfa sem mæta því í dag væri kannski ekki þessi reiði. Ef launin væru löguð til langframa þá gengi betur að leysa margt. Hins vegar er ekki boðlegt að hlusta á t.d. það að með styttingu skólans megi kannski eyða meiru í laun… Dugir ekki.



13 ummæli:

  1. Mikið að einhver setur hnefann í borðið -- með fullum rökum. Mikilvægt að benda á þetta samanburðarrugl milli landa þegar talað er um brottfall. Sú mynd er mjög flókin og aðgerðir til úrbóta enn flóknari. Einfaldar töfralausnir gera bara illt verraa.

    SvaraEyða
  2. Ėg vann í Noregi hjá borginni við að aðstoða alkohólista og eiturlyfjaneytendur í fullu starfi árið 2001 og fékk útborgað eftir skatt 20.000 norskar krónur á mánuði. B.Ed próf var metið til launa. Síðan hef ég lokið doktorsgráðu, kenni nú fulla kennslu við grunnskóla á Íslandi og fae útborgað sem svarar rúmlega 10.000 norskum krónum, eftir skatt.

    SvaraEyða
  3. Hvar er þessi skýrsla? Væri forvitnilegt að sjá hvernig þetta er reiknað. Og gæti verið forvitnlegt að bera saman kostnað á nemanda í Reykjavík og jafn stórum bæ í Danmörku eða Noregi t.d.

    Stærsti hluti kostnaðar við skólahald í grunnskóla er væntanlega laun. Og ef laun eru talsvert lægri á Íslandi en í Danmörku t.d. þá er erfitt að skilja að íslenska kerfið sé dýrara.

    SvaraEyða
  4. Torfi Jóhannesson16. maí 2013 kl. 05:58

    Tillögurnar sem lagðar voru fyrir samráðsvettvanginn eru á slóðinni www.samradsvettvangur.is, nánar tiltekið á: http://samradsvettvangur.is/wp-content/uploads/2013/01/Fundargogn-Samradsvettvangur-3.-fundur-Netid.pdf

    Það er mjög jákvætt að hér er tekin efnisleg og vel rökstudd umræða. Ég kom að vinnu við nokkrar tillögur sem þarna voru lagðar fram (þó ekki þær um menntamál) og langar að svara sumu því sem rakið er hér að ofan:

    Á heimasíðu samráðsvettvangsins er sérstaklega tekið fram að ekki er reiknað með því að starfstöðvum skóla verði lokað heldur að yfirstjórnir verði sameinaðar. Sú leið hefur þegar verið farin víða á landinu með ágætis árangri. Þá má líka benda á að 2/3 Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu og meirihluti þeirra sem eru á landsbyggðinni búa á Akureyri og öðrum stærri þéttbýliskjörnum.

    Tillögur um að stytta undirbúning nemenda fyrir háskólanám byggja fyrst og fremst á alþjóðlegum samanburði og spurt er: Af hverju þurfum við lengri tíma til að ná sama marki en viðmiðunarþjóðirnar? Kannski er ástæðan bekkjakerfi skólanna fimm sem talir eru upp hér að ofan - gott innlegg!!

    Varðandi brottfall er bent á að hér útskrifast einungis 44% úr framhaldsskóla með minna en tveggja ára töf (mv. 70% í Svíþjóð og Finnlandi). Einnig eru notaðar tölur frá Hagstofunni sem sýna að 30% Íslendinga ljúki ekki neinu námi á framhaldsskólastigi. Á það er bent að þetta sé (og muni verða) dragbítur á uppbyggingu nýrra og arðbærra starfa. Það að einhver lönd útskrifi nemendur úr framhaldsskóla þótt þeir nái ekki prófum breytir ekki því að okkar staða er slæm. ( ...er þetta gert í hinum Norðurlöndunum??)

    Það er hvergi sagt að kennarar vinni of lítið. Það er hins vegar bent á að í samanburði við hin Norðurlöndin sé kennsluhlutfall hérlendis lágt (34% mv. 51% í OECD).

    Einn af þeim nafnlausu hér að ofan kvartar yfir lágum launum hér miðað við Noreg. En það verður ekki gert með því að hækka launin á morgun heldur með því að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Rauði þráðurinn í vinnu samráðsvettvangsins er að breyta þessu.


    SvaraEyða
    Svör
    1. Það væri gaman að vita hvernig tekið er á kennslu barna með sérþarfir. Eru sérskólar ríkjandi fyrir þau? Sérdeildir? Eða eru þessi ríki innan OECD með virkan skóla án aðgreiningar eins og við? Ég get fullyrt að ég gæti skilað fleiri kennslustundum ef börn sem í raun þyrftu á sérkennslu að halda (ekki bara einn og einn tíma) væru ekki stöðugt á minni ábyrgð. Því miður finn ég fyrir mikilli þreytu og álagi á mínum vinnustað vegna barna sem þyrftu meiri hjálp en hægt er veita án þess að ganga á rétt bekkjarfélaga þeirra.

      Eyða
  5. Takk fyrir þetta.
    Ég er að gagnrýna umræððuna sem frá þessu er leidd sbr. t.d. leiðara Fréttablaðsins 15/5/2013 sem og fleira. Svo ekki sé talað um gullfiskaminni margra sem muna ekki frá skýrslu til skýrslu.
    Málið er að rauði þráðurinn er skýr. Það hlýtur eitthvað að vera að við að framkvæma og eitt er að menn taka ekki á því sem í raun stendur í vegi, nota úreltar aðferðir í umræðunni o.fl.
    En aftur takk.

    SvaraEyða
  6. Það er mikið vísað í frábæran árangur Finna í grunnskólum. Finnskir kennarar eru mjög vel launaðir og njóta virðingar og trausts. Nú eru ný viðmið fyrir störf grunnskólakennara að koma til framkvæmda af fullum krafti frá Menntamálaráðuneytinu. Það felur í sér ansi vítt og breytt hlutverk kennarans gagnvart heimili og börnum. Launahliðin er hinsvegar í umsjá sveitarfélaganna og það vantar illa samræmi þarna á milli. Ég held að grunnskólakennurum verði ókleyft að rísa undir þeim kröfum og hlutverkum sem þarna eru talin upp og því er óhjákvæmilegt annað en að viðhorf til stéttarinnar verði ENN verra á næstu árum. Það er ekki gáfulegt að setja upp markmið sem vitað er að nánast vonlaust er að ná. Kennarar eru líka fólk og það slítur og eyðileggur sálarlíf að berjast sífellt við óvinnandi verkefni. Álagið er mikið og læknar tala um að hjá kennarastéttinni séu farin að koma fram heilsufarsbrestir vegna mikils álags í erfiðu vinnu umhverfi.
    Ég hef miklar áhyggjur af þessari þróun.
    Kv.
    Áslaug Traustadóttir grunnskólakennari

    SvaraEyða
  7. TAKK!!!

    Orð í tíma töluð Maggi!

    mbk, Kári
    Framhaldsskólakennari

    SvaraEyða
  8. Þetta ætti að fara víðar; í blöð og aðra fjölmiðla. Nú er t.d. Stöð2 að fara af stað með umræðu um skólamál og ef eitthvað er að marka auglýsingarnar verður gutlað með yfirborðskenndar staðreyndir og fáir spurðir álits.
    Sendu þetta á Lóu Pind sem á held ég að stýra umræðunni. Kannski hún kafi dýpra en aðrir; enda verðlaunaður fréttamaður.
    Takk fyrir
    Hanna L. Gunnarsdóttir

    SvaraEyða
  9. Orð í tíma töluð, takk
    BJörk

    SvaraEyða
  10. Fyllilega tímabært að ræða þessi mál á rökrænum grundvelli. Takk fyrir þetta, Magnús.

    SvaraEyða
  11. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Látum ummælin standa: Ég vildi þakka fyrir góða og málefnalega grein. Einnig finnst mér góð tillaga að senda hana á Stöð 2 í þeirri von að rödd kennara heyrist í umræðunni sem á að fara fram þar.

      Eyða