Dagurinn hófst með rölti í bakarí, ostabúð og til ávaxtasalans
Antons, sem stendur alltaf úti á götu og daðrar við allar konur sem framhjá
fara. ALLAR. Sumar láta þetta pirra sig og svo eru einhverjar sem daðra á móti.
Allavega ljómar Anton eins og tungl í fyllingu þegar vel tekst til.
Svo steðjum við út á stöð sem heitir Gar Avenue Henri Martin
og viljum kaupa miða. Miðasalinn segist ekkert skilja okkur og talar hratt og
mikið á frönsku. Við kveðjum og stefnum niður Flanderin götu að Port de
Dauphine, gangandi, og þar er notalegur miðasali. Við höldum með feng okkar niður í iður
jarðar og látum Metro ormana gleypa okkur þangað til við erum komin að Anvers
stöð.
Sigga er spennt. Ég finn það og veit að þetta er ferð sem hana langar að
fara. Þegar við komum út finnst mér reyndar heldur nöturlegt um að litast en
þegar við komum lengra upp hæðina stoppar Sigga, tekur í hönd mér og segir mér
að loka augunum – og treysta sér. Þegar hún segir mér að opna augun blasir við
sannarlega afar sérstæð kirkja og með enn sérstæðari sögu. Mér fallast hendur. Ekki
eingöngu vegna fegurðarinnar og þess hve ég finn að Sigga er spennt heldur líka
vegna þeirra – að því er virðast - fjölmörgu þrepa á leið upp hæðina. Þetta varð
sannarlega brekkuganga.
Sacre Coeur, kirkja hins helga hjarta Jesús Krists og
frönsku þjóðarinnar á sér sérstæða sögu. Hún var reist að frumkvæði tveggja
fjármálamanna sem höfðu heitið á Krist að verja París fyrir yfirvofandi árás
Prússa 1870. Þannig var að Bismarck var í fullum gangi að vinna að sameiningu
Þjóðverja í eitt ríki, var búinn að hirða af dönskum þýsk lönd og taldi að
góður sigur á erkifjendunum Frökkum myndi klára málið. Sem og varð reyndin. Þjóðverjar
sátu um París og sveltu íbúa hennar uns þeir voru farnir að éta hvað sem var, a.m.k.
dýrakyns. En inn í borgina fóru þýskir ekki, þess var ekki þörf og þeir snéru
sigurreifir tilbaka.
En kirkjuframkvæmdir hófust af krafti 1875, lauk 1914 en
kirkjan var vígð 1919. Hún er ný klassísk í húð og hár og eins og hæfði
nýklassíkerum þá gerðu menn það sem þeir vildu. Hún ber af sér býsanskan blæ,
er þó nokkuð rómönsk og á einum stað er dyraop sem er bæði gotneskt og
rómanskt. Inni er fjöldi altara eins og sæmir kaþólskum stórkirkjum og myndlist
sem er stórkostleg. Kirkjunni var valinn staður á Montmartre, upphaflega Mons
Martis (Mars fjallið) úr heiðnum sið. Síðar Mon martyr til heiðurs klerki sem
var aflífaður við rómverskt hof á þriðju öld og síðar Montmartre.
Rómverska hofið varð að kirku á ármiðöldum sem enn stendur á
hæðinni við hlið Sacre-Coeur og seinni kirkjan er hæsta spíra Parísar, að
Eiffelturninum frátöldum (turninn á Montparnasse er ekki tekinn með), gnæfir
yfir borgina og listamannahverfi sem m.a. var þekkt fyrir heldur mikið
lauslæti.
Yfir dyrum kirkjunnar standa styttur þeirra Jóhönnu af Örk
og krossfarakonunginum Loðvík IX sem er einn þjóðardýrðlinga Frakka. Ofan við
þau horfir Kristur niður og þegar inn er komið blasir við gríðarlegt hvolf þar
sem Kristi er þakkað að hafa verndað Frakka og París.
Við getum haldið lengi áfram. Kirkjan er afar sérstök.
Falleg og þegar inn er komið er passað upp á símanotkun og myndavélar því hún
er fyrst og síðast guðshús.
Þegar út er komið er farið meðfram kirkjunni og niður í
Montmartre. Fyrst eru þetta einungis draslbúðir en svo kemur torg þar sem finna
má urmul listamanna að störfum. Þar fáum við okkur bita. Svo er skrölt um
hverfið fram og til baka. Við mætum kór sem syngur fullum hálsi á göngu sinni, hlustum á götupilara taka
saman höndum og sjáum bara almennt alveg svakalega skemmtilega stemmningu.
Sigga
spyr í sífellu – hvert viltu fara?
Og ég hef ekki hugmynd.
Allt í einu nálgumst
við Rue Lepic og ég stoppa. Bíddu – hvern þekkti ég á Rue Lepic?
Allmarga í
raun en á 54 bjó Van Gogh við mikla fátækt á framfæri bróður síns sem sat uppi
með allar myndir listamannsins og dóu báðir í fátækt. Hvorugur naut þess að sjá
Van Gogh verða það nafn sem varð.
Ég er samt enn að velta því fyrir mér hvers vegna fólki var uppsigað við turninn á sinni tíð. Ætli það sé annar minnismerki í París meira notað á minjagripi?
Við niður á Turngötu og áfram uns við setjumst upp hjá sikileyskri fjölskyldu og snæðum. Þetta er veitingahúsið Da Enzo. Hvítvínið sjúklega kalt og sérlega ljúffengt, sódavatnið enn betra sem og maturinn og þjónustan. Frábært. Við sitjum í sólsetrinu og löbbum heim með eins rómantískum hætti og draghaltir miðaldra elskendur geta. Uppi á fjórðu hæð er sólsetrið einnig fallegt. Eða hvað segir þú?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli