Það eru margir búnir að mæra París og það óhóflega á köflum,
- að því að mér fannst. Tek það allt tilbaka. Lýsingar á efsta stigi eru réttar
og hóflegar. Hún er heit og það bogar af okkur svitinn en mér er sama. Það eina
sem angrar mig er blöðrukorn undir ilinni en það lifi ég af.
Við erum á leiðinni um Avenue Victor Hugo, sem er ein af tólf
breiðgötum sem liggja að Sigurboganum. Þaðan yfir að Trocadero og út að Signu.
Gosbrunnar Trocadero skarta sínu fegursta. En sú fegurð!
Það er svo margt um þessa kirkju að segja og kannski það
merkilegasta að hún slapp algjörlega við byltingarfárið. Þarna eru
rósettugluggarnir risastóru sem lengi áttu sér engan líka í kristni. Og þarna
sátu kennimenn sem tengdust Sorbonne, hinu megin við ánna. Og þeir voru
aflvakar fyrri endurreisnarinnar á 13. og 14. öld. Til þeirra söfnuðust
stúdentar sem sátu utandyra til að hlýða á meistara sína og rökræða við þá.
Stólarnir voru grasmottur, fátt skrifað því skinn var dýrt og fá eintök
handrita að hafa. Menn rökræddu heimspekilega sosum eins og – Getur guð skapað
svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum? Sem er í raun spurning um það hvort guð sé
almáttugur. Margt fleira má til taka – ég er gagntekinn, heltekinn, gjörsamlega
eins og lamaður.
Alt í einu erum við komin í St. Germain og þar er Cafe de Flora og þar skilst mér á góðri konu að sé einkar rómó að sötra kampavín. Þjónninn hleypur til og tvö há glös koma með guðaveigum frá Möet et Chandom.
Þaðan upp á Montparnasse og fleiri veitingahús – þar á meðal
íshús sem selur ítalsklegan ís eftir vigt. Eins margar bragðtegundir og þú vilt
monsieur en verður að standast vigt.
Og mannlífið þarna afar fagurt.
Nú eru iljarnar á mér orðnar aumar. Ég hugsaði hlýlega til Metro og grænnar línu niður á Trocadero. Sigga leggur til að við förum niður í St. Germain og í ferjuna aftur. Ég hengi haus innan í mér en siglingin lofar góðu!
Stemmingin á Trocadero frábær eins og sjá má á vídeóinu.
Myndirnar segja allt.
Smellir á mynd til að sjá hana í fullri stærð. Punktur í dag.
Au revoir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli