20.7.13

Le Marais í öllum litum

 File:Siege of the Bastille (Claude Cholat).jpg
Eftir smá rúnt til bakarans og í vatnsleit tökum við okkur til, kaupum tíu miða lestarbók og tökum Metroorm allaleið frá Rue de la Pomp (sem mér finnst ferlega fyndið nafn) og að Franklin Delano Roosevelt stöð, skiptum þar og fórum alla leið út í Bastille.
Þegar á Bastillutorgið kom þurfti ég smá næði. Hér var ég heldur betur kominn á vettvang sögunnar sem ég hef verið að kenna í áravís. Bastille torgið tekur nafn sitt eftir einu frægasta og úthrópaðasta fangelsi sögunnar. Upphaflega var hún reist sem varðstöð austanvert við París á dögum Hundrað ára stríðsins, því sem Jóhanna af Örk varð frægust af. Löngu síðar sáu konungar sér hag í að geyma þar hina og þessa ódáma. Lúðvík XIV var verulega röggsamur í þessu efni og lét læsa inni allskonar betri borgara sem pirruðu hann auk allra annarra sem honum fannst gott að láta hýsa þarna. Synir hans, XV og XVI nýttu hana sérlega til að setja þangað ritsóða og fólk sem ýtti undir óróa. Með þessu er átt við t.d. þá sem skrifuðu bækur sem ritskoðendum konungs þóttu vafasamar.
Engu að síður fór svo að föngum þar fór fækkandi og voru rétt um tæpur tugur fanga þarna í ársbyrjun 1789. Einn sá frægasti var Marquis de Sade, heldur vafasamur pappír, sem eyddi 32 árum ævi sinnar í grjótinu eða á geðveikrahælum. Hann var aristókrati, rithöfundur, heimspekingur og fleira en er frægastur fyrir frjálsleg viðhorf til kynlífs, bækur þar um sem margar heimildir lýsa sem langt umfram það að vera erótískar og Sadismi er hugtak dregið af nafni mannsins. Say no more.
Alltént hélt hann ræður út um glugga Bastillunnar og af virkisveggnum þar sem hann hélt því m.a. fram að til stæði að myrða fangana. Þegar voraði var hann fluttur í fangelsi þar sem heyrðist minna í honum en íbúar Marais hverfisins voru uggandi enda óöld í lofti.
Í júlí vildu borgarar Parísar fara að vopnast til að geta annað hvort komið byltingunni áfram eða haldið konungsmönnum í skefjum. Í Bastillunni voru geymslur fullar af púðri og notuðu byltingarmenn rök og gagnrýni fanga sem höfðu verið í steininum þarna til að safna saman múg og margmenni og ráðast á turninn. Fátt var um varnir, fáir fangar í húsinu og lítið um hermenn og tók þetta fljótt af Bastillan var rifin og seld í byggingarefni og minjagripi. Sem sagt sú upphleypta sýn að þarna hafi frelsisunnendur leitt af stað byltingu er kannski, eins og svo oft, heldur ofmetin. Í raun halda sagnfræðingar því fram að Bastillan hafi verið, á þess tíma kvarða, vel rekið og mannúðlegt fangelsi og að fangelsistjórinn, sem var snarlega tekinn af lífi af múgnum, hafi verið grandvar og ábyrgur maður.
En byltingin fór á fulla ferð, fyrsta umferð.
Og þarna sat ég með Siggu minni, ca. þar sem de Sade hélt ræður sínar. Það er fátt sem minnir á Balstille í dag.
Við héldum svo upp í hverfið Le Marais sem er fjórða hverfi Parísar, það varð til þegar musterisriddarar komu sér fyrir við borgarmúra Parísar og gerðu hverfið eftirsóknarvert með góðum kirkjum og fleiru sem þá var eftirsóknarvert.
Gyðingar komu sér þar fyrir á miðöldum, enda bjuggu þarna betri borgarar sem þurftu m.a. að geta sýslað með fjármagn. Önnur bylgja kom í lok 19. aldar og styrkti handverk svæðisins. Þeir voru síðan ofsóttir í Seinni heimstyrjöldinni en eru samt enn áberandi í hverfinu.
Á leiðinni sáum við handverksmarkað og spjölluðum m.a. við leirlistakonuna Sylvie Barrie. Yfir einn búlevardinn og þar var RISAvaxin gítarbúð sem ég forðaði mér frá. Við inn í hverfið og reikuðum hingað og þangað, út og suður og hvað eina. Einn fyrsti staðurinn var Place des Vosges.
Svolítið eins og Bologna með bogagöng en að þessu sinni settist ég á veitingastað í stað þess að fljúga láréttur inn í skóbúð.
Place de Vosges er endurreisnartorg og upphaflega ferningur húsa, byggt fyrir fínt fólk. Þarna bjó m.a. Richelieu kardináli og lét gera styttu af vini sínum XIII (Loðvík XIII það er). Hún var úr bronsi, þannig að byltingarmenn bræddu hana í byssukúlur. Ný stytta kom síðar.
Þetta var sem sé snobbhill þess tíma en seinna var ferningurinn á milli húsanna gerður að gróðursælum garði, kannski til að koma í veg fyrir að menn væru að gera út mál sín á milli með einvígum.
Af öllum þeim nafngreindu valmönnum sem þarna bjuggu þykir mér þó mest til um Victor Hugo sem samdi t.d. söguna um Vesalingana - Les Miserables, sem seinna var gerð að söngleik.
En áfram upp í hverfið og fór dagurinn í lall í 30°C eða meira. Við gengum hægt og mér varð hugsað til gamallar mannkynssögubókar sem sagði að hinir vinnusömu Vandalar hafi orðið húðlatir þegar þeir settust að í hitanum í (V)Andalúsiu. Húðlatir. Það er ekki skrýtið þó maður hreyfist hratt í ferska (les kalda) loftinu á Fróni en hér fer maður rólega yfir. Og drekkur vatn, vatn, vatn, vatn, bjór, vatn, vatn, hvítvín (mjög kalt) og vatn.
Við settumst niður hér og hvar en enduðum á mat í ísraelsku Chawarma húsi á Rósagötu (Rue de Rosiers).
Í öllu falli var þetta frábær dagur. Á heimleiðinni í lestinni stakk Sigga upp á því að kíkja við á Champs Elyséses og fá ís.við fórum úr á George V stöðinni.
Man einhver þessa?
Kate: Do you speak English?
Concierge: Of course, Madam. This is the Georges V, not some backpacker's hovel.
Þegar við erum búin að koma okkur, m.a. um hliðargötu, upp undir Sigurboga og enginn ís þá var farið að þyngjast í mínum. Minnti mig á N16.
Var í þann mund að kalla á bíl þegar Sigga var horfin ofan í Metróið. Láta hana fara og ég með bíl?
Ég á eftir henni? Líklega betri valkostur í rómantík í París.
Við þrömmuðum stöðina þvera og endilanga. Ég var viss um að ég hefði verið kominn á Trocaderó - gangandi!
Lest fannst og þegar við komum upp úr Metro þá var farið í markað og náð í ís.
Þvílíkur unaður í 30°C.
Og þvílíkur unaður að komast úr skónum. Blessuðum skónum. Þeir eru búnir að bera mig í allan dag. Og þvílíkur dagur.
Au revoir!
 

1 ummæli: