23.7.13

Leit að týndum markaði og strumpafataskoðun

Eftir smásnúninga í sendiráðið (takk fyrir hjálpina Lilja) var arkað af stað. Fyrst var metróað frá Rue de la Pompe (enn fyndið - sjá hér) til suðurs að Michel Ange Molitor og skipt um lest og nú farið í austur að Cardinal Lemoine stöðinni í Mouffertad. Tilgangurinn að fara þangað var að týnast um hríð og reyna svo að rata niður í Latínuhverfi.
Þetta gekk svo vel að við villtumst með það sama og vorum komin ofan í Latínuhverfi löngu fyrr en við ætluðum. Svo við snérum við. Rue de Mouffertad er sérkennileg aflíðandi gata full af smáverslunum en mesta dýrðin er þó markaðstorg sem þar fer fram alla daga - nema mánudaga! Og hvað er í dag?
Gatan er í raun leifar rómverskrar götu sem tengdist alla leið til Ítalíu að því er ég fæ best séð. Hún er hluti af gömlu hverfi sem er sérkennileg blanda gamalla tíma og nýrri.
Það sem þó var sérkennilegast er að þarna lokaði margur kaupmaður frá hádegi og fram undir kl. 15 til 16.
Þetta var ekki vandamál í hitanum því það voru afskaplega margar brynningarstöðvar opnar. Við settumst upp á stað sem heitir Descartes, eftir heimspekingnum góða og fengum bæði skemmtilega þjónustu og góðan mat. Ég var reyndar í vanda því enn ein blaðran var að myndast á löppinni og ég hafði skilið öll hjálpartæki eftir, allt frá plástrum til verkjataflna. Og apótekin? Nóg af þeim. Eitt opnar á mánudögum kl. 16. Annað var með síestu frá 13-15.30 og svo framvegis. En maturinn hjá Descartes var góður sem fyrr segir.
Svo tölti Sigga af stað og ég leitaði að apótekara sem sá ástæðu til að reikna með að fólk þyrfti aðstoð að halda frá kl. 13-15.
Það tókst og er ekki meira um það að ræða nema þar var kona sem pirraði apótekarann, virkaði slompuð og var sífellt að trufla manneskjuna  á meðan hún var að afgreiða aðra. Reyndar kann að vera að fólk sé eitthvað pirrað í hitanum. Um daginn sáum við bandarísk hjón, alveg örugglega á a.m.k. áttræðisaldri, nánast slást á götueyju. Eiginmaðurinn stóð þarna með hækju á lofti. Hann: Get your sorry butt over here. Hún: Oh, get lost. Hann: I´ve had enough of this crazy shit. Hún: So have I!  Allt á öskrinu.
Þegar við vorum búin að ganga úr skugga um að enginn væri markaður á mánudegi stefndum við upp í stúdentahverfi og að háskólunum sem þar er að finna. Rétt um það leiti sem við komum að Pantheon var allt umgirt af slökkviliðsmönnum og lögregluliði. Svo virtist sem kviknað hefði í einhverju í bílakjallara undir stóru húsi sem líklega tengdist háskólanum.



Við áfram og litum á Pantheon, sem er ekki eins og Pantheon Rómar, sem er hús allra trúarbragða (ætli veitti af slíku á Íslandi núna þessa dagana) hendur frekar eins og Westminster Abbey þeirra Frakka og margir þjóðþekktir menn jarðaðir þar, t.d. títtnefndur Victor Hugo.
Þetta er gríðarlegt mannvirki og er í mikilli endurhönnun þessi árin, þ.e. endurhönnun á burðarvirki hennar til varðveislu enn frekar.




Þaðan var svo rölt niður í Latínuhverfið og eftir drjúga skoðun á því var stefnan tekin upp að Sigurboga, en þar er Marks og Spencer búð sem ég þurfti að komast í til að geta farið að skipta um brækur. EN: Sorry monsjeur, sagði ein mammsellan, but we only have clothes (lesist Clotheses) for femmes. the next Marks and Spencers is away a fivteen minutts by train...
Takk sagði ég og hún sagði glaðbeitt Silvúplei.
Sigga sagðist alveg geta lánað mér brók en ég þakkaði henni líka pent og fór í H&M sem selur föt í strumpastærðum, - mjög vönduð samt.
Fann sett af brókum og málið leyst.
Við stefndum heim með viðkomu í stórmarkaði (2xrauðvín, kók 1,5 l, veglegur pakki af hráskinku,baguette fimmtán evrur) og fórum að slaka eftir langan dag, en þrælskemmtilegan.
Skemmtilegast er að fara í þessi hverfi sem eru original og ekki full af túristum. Já já ég veit að við erum túristar en samt.
Í búðinni vorum við búin að stofna röð og virðulegur náungi bað okkur um að líta til með körfunni sinni, hann vantaði meira en vildi ekki tapa röðinni. Við á kassanum, kallinn ætlar að fara að reita upp úr körfunni þegar kona með barn í kerru fór að ausa hann allskonar svívirðingum. Hann var nú bara með fimm eða sex hluti en hún mun meira. Konan blessuð jós og fór stórum og áttu hvorki öryggisvörðurinn eða blessað manngreyið ekkert í hana, enda bað blessaður maðurinn konuna bara að fara á undan sér ef þetta væri mál. Raddhæð beggja fór hækkandi og við bara greiddum okkar vöru og hlupum út. Þetta var eitthvað sem við áttum ekkert í!
Við þyrftum líklega að ná fótfestu í þessu hraðmælta tungutaki þeirra Gallanna!
Góður dagur!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli