Meira að því.
Við skröltum út að Gare Avenu Henri Martin þar sem fýldi kallinn var í fríi en afar lipur ung kona leiðbeindi okkur. Hún sagði okkur að taka lest út undir Eiffel turninn, skipta þar og taka lest sem héti Sara. Okkur fannst það nú ekki leiðinlegt. Ferðin gekk vel og við út. Augnabliki síðar kom lestin Sara en ekki á sama pall og miðasölukonan hafði sagt. Við skiptum liði og gengum á auglýsingaskiltin. Niðurstaðan var þessi.
Ekki Sara heldur Vick og hún er á Quay A en ekki B. Eftir það gekk allt vel.
Ég er búinn að hlakka mikið til Versala. Er satt að segja búinn að fá nóg af troðfullum söfnum og við geymum okkur því Louvre og D'orsy til annarra árstíma. Já - ég ætla svo sannarlega að koma aftur. París, - pourquoi pas longtemps avant? (Google þýtt).
Eins og ég hef áður vikið að þá eru sögustaðir við tærnar á manni hér ef maður hreyfir sig. En í Versölum er gríðarmikil saga geymd og voru þeir þó í raun ekki í notkun svo voðalega lengi - miðað við vægi staðarins! Það var búið að vara mig við stærðinni - hún kom mér samt á óvart, mannmergðinni, sem kom mér líka á óvart, og brjálæðinu sem að baki bjó,- sem og fegurðinni.
Og þetta gekk allt eftir.
Til Versala koma um fimm milljónir manna á ári. Miðað við að allt er lokað á mánudögum (og kannski fjóra til fimm daga til viðbótar á ári) þýða þetta milli 15 og 20 þúsund manns á dag. Vitaskuld er enn meira um að vera á degi sem þessu.
Það er spáð rigningu og vissulega skall á með þrumum og skúr en varla þannig að bleytti í að marki. Lestin var troðfull og öllum smalað í miðasölurnar og svo upp að höll. Okkur er sagt að byrja á görðunum því það verði færra fólk í höllinni er líði á dag.
Versalir eru upphaflega veiðiskógar og veiðihús Loðvíks XIII, þess er gaf áheit til Notre Dame þegar honum auðnaðist barn. XIII var sá sem hóf Richelíeu kardinála til valda og hafði verið konungur frá níu ára aldri. Móðir hans, ítölsk af Medici ættum, stýrði ríki hans með ítalska ráðgjafa sér við hlið uns XIII var settur til valda með franska ráðgjafa og mútter send í útlegð. Hann giftist fjórtán ára austurrískri prinsessu en það virðist hafa gengið illa. Þeim auðnaðist fyrst barn eftir tuttugu ára hjónaband. Grunur leikur á um að XIII hafi ekki verið upp á kvenhöndina enda er ekki vitað til þess að hann hafi haldið hjákonu/m uppi sem er óvanalegt meðal forfeðra og afkomenda hans. Þessi fjölskylda, XIII og Anna af Austurríki, ásamt Richelieu eru aðalpersónur bókanna um Skytturnar eftir Dumas.


XV er oftar lýst sem áhugamanni um flest annað en stríð. Það sést t.d. af því að til er málverk af fjölskyldunni sem er afar lýsandi fyrirhamingjusamt fjölskyldulíf, að þau héldu sig í höllum á Versalalóðinni, en ekki aðalhöllinni og af þessu fallega málverki. Hann breytti Versölum lítið eitt en sonur hans varð aldrei konungur og því fór svo að XVI var afabarn XV. Saga Loðvíks XVI og fjölskyldu hans er í sjálfu sér merkilegur harmleikur. Og raunar forfeðra hans að vissu leyti. Þetta fólk var tákn valds, og var haldið að völdum til að viðhalda því. það sem gerði XIV sérstakan var að hann var langlífur og klókur. Þau fæddust til undaneldis og óljóst hvaða raunverulegu stefnumótun þau voru með í raun. XVI studdi t.d. frelsisbaráttu íbúa Norður Ameríku, kannski vegna þess að þeir börðust við Breta en það voru hugmyndir Bandaríkjamanna sem urðu XVI að falli. Og þegar við gengum þarna um þá varð mér hugsað til þess þegar María Antoinette af Austurríki flúði byltingarmúginn, sem ruddist um gangana í Versölum í gegnum bakdyr og ganga til bónda síns, með börnin þeirra. Þá var hún fyrst og síðast móðir að leita skjóls. Og þá má minnast þess að ein orsök byltingarinnar var skattheimta ríkisins sem var afar skuldsett, sem og konungdæmið, m.a. vegna uppbyggingar og viðhalds Versala...Svona má lengi halda áfram en við fórum að ráðum miðasölufólksins og hófum ferð okkar í görðunum. Og maður lifandi. Talandi um að vera laus við garðinn í Lyngbergi! Þetta svæði er álíka margir hektarar lands og garðurinn minn gamli mældist í fermetrum! um og yfir 800 hektarar (garðurinn var um 800 fermetrar).
Neptúnus í einni tjörn - með máv á kollinum! |
Partur af Grand Canal! |
Eins og sjá má rigndi smá en það voru gríðarlegar þrumur! |
Og hér sést vel hvernig skipulagið var gert með geysilegri nákvæmni. |
Við röltum um garðinn og fórum út í mannvirkin sem eru í fjærenda garðsins frá höllinni en það eru hús sem kölluð eru Trianon, - hið meira og hið minna. Maria Antoinette gerði hið minna að dvalarstað sínu, - kunni ekki við sig í stóru höllinni frekar en XV. Trianon var þorp í útjaðri Versalagarðsins og íbúarnir urðu því að flytja sig. Þarna eru tvær hallir, Postulínshöllin sem XIV lét byggja var gerð úr bláum flísum frá Delft en hún skemmdist hratt svo önnur var byggð úr marmara og stendur enn. Þessa höll gerði karlinn til að hafa næði með ástkonu sinni (ekki eiginkonu) se hélt hús í Trianonhöll..
Við spasseruðum þarna um og það er ekki hægt að lýsa með orðum því sem maður sér, nema ísnum kannski sem er frábær. Um allan garð ómar tónlist frá sautjándu og átjándu öld, eins og mun hafa gert, nema nú úr hátalarakerfum. Gosbrunnarnir ganga einungis um helgar, sem okkur fannst skítt fyrst við vorum nú þarna. Þegar XIV var þarna þá var verið að vinna ilmefni um allan garð sem voru sett í brunnana. Those were the days.
Þegar halla tók í þrjú tókum við stefnuna á höllina og viti menn. Það voru miklu færri í biðröðinni sem var núna talin almennt vera um klukkustundarlöng. Og þarna stóð fólk á stéttinni, í steikjandi hita uns það komst inn og þá var ekkert að hafa til a drekka eða borða. Halló. Frakkar? ekkert að drekka eða borða?
Við blasa gulli slegin hlið og kapella sem XIV lét reisa. Í röðinni eru Kanar að skiptast á upplýsingum um ferðir sínar. Einn hafði verið í París í þrjá daga, Brussell á morgun sagði hann glaðbeittur og Amsterdam á hinn!
Við komumst inn og þar var mannmergðin ekki minni. En stærðin. Mon dieu.
Við flæktumst um þetta stóra hús. Það eru svefnrými heldri kvenna, sem sumar gistu rekkju konunganna á stundum alla vega, konunglegu íbúðirnar, kapellan (sem er stærri en Dómkirkjan í Reykjavík), og síðast en ekki síst Speglasalurinn. Hvar sem hægt er að setjast situr fólk sem er útkeyrt af röðinni úti og svo hitanum og súrefnisskortinum í höllinni. Skyldu þeir XIV, XV og XVI hafa látið sér detta í hug að fimm milljónir manna væru að dást að svefnrýmum þeirra 200 árum síðar? Á ári?
Svo eru sýningar á því hvernig svæðið byggðist upp. Allt alveg hreint frábærlega gert. Sjá t.d. http://www.versailles3d.com/en/.
Málverkin sem maður hefur séð í sögubókum sem þekja fleiri fermetra, s.s. af Napóleoni að krýna keisaraynju sína 1804, þetta er stórkostlegur dagur.
Og svo erum við stödd í Speglasalnum þar sem menn komu saman við lok Fyrri heimstyrjaldar og undirrituðu samningana sem kenndir eru við Versali. Það er magnað að hugsa til þeirra háleitu hugsjóna og hagsmuna sem hér tókust á. Stríðið sem átti að ljúka striðsrekstri Evrópumanna gegn hver öðrum, leitt til lykta með samningum sem nánast tryggðu framhald þess. Og enn fara um mig straumar sögunnar. Þegar við erum á leið úr Speglasalnum hleypur hjá nópur unglinga sem er búinn að fá nóg og vill komast út. Ég er eiginlega sammála þeim. Út vil ek!
En þetta er stórkostlegt. Garðarnir, húsin - hallirnar, mannhafið! Þvílík geggjun, þvílík sóun, þvílík fegurð!
Við göngum út í sólina hönd í hönd og setjumst á stað sem heitir Coup d´état (Stjórnarbyltingin) og fögnum góðum drykk. Síðan er það lestin tilbaka. Hún er pökkuð. Fullt af fólki spyr mig hvort lestin fari til Parísar. Ég ákveð að vera ekki með útúrsnúninga og benda fólki á að skv. skilgreiningu er það þegar í París, svara já og Siggu finnst ég fara frjálslega með. Ég fer út á undan þeim flestum, fer heim annað kvöld... hver er áhættan? Si, Paris, oui Paris, ja Paris,
Ja, po, ayo,beli, awo, bai, hoon, da, ya, jes, jah og
svo framvegis!
Við skröltum heim og frískum aðeins upp á okkur, ég laga hárið og Sigga augnskugga o.s.frv. Svo er það út í næstu götu þar sem við fáum dýrðlega líbanska veislu, frábæran mat og ljúft vín.
Hápunktur ferðarinnar?
Nei hann kom á heimleiðinni af líbanska staðnum - segir Sigga sem er í hláturskasti alla leið heim, upp um fjórar hæðir og er enn tístandi nú í morgunsáriðí bland við andardrátt sem sumir kalla hrotur. Þannig var að ég var að rölta heim, hönd í hönd við mína heittelskuðu, götumegin á gangstéttinni, þegar það gerist í senn að ég heyri undarlegan þyt nálgast og að Sigga, mín heittelskaða, kippir í mig og horfir frekar skrýtin á svip aftur fyrir sig. Svo ég tek einn svona ,,Þar sem enginn þekkir mann..." og stekk með tilþrifum frá. Maður á hlaupahjóli (fullorðinn maður á hlaupahjóli) þýtur hjá og segir ,,Pardon, misjur" (eða monsjeur) og ég held Siggu uppi þar sem hnén eru að gefa sig og hún er um það bil að velta út af af hlátri.
Say no more.
Au revoir Paris!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli